Rangæingar -- Krusjoff og Kennedy
Sl. þriðjudagskvöld hrjáðu veikindi Rangæinga, eins og fleiri landsmenn þessa dagana. Því voru óvanalega mikil forföll þegar 4. umferð sveitakeppninnar var leikin. Flestar sveitir urðu því að grípa til þess ráðs að gera lánssamninga við leikmenn úr öðrum félögum. Flestir voru sóttir út í Árnessýslu þar sem hlé er á keppni þar á þriðjudögum. Eiga nágrannar okkar og vinir á Árborgarsvæðinu góðar þakkir skyldar fyrir að hlaupa undir bagga með okkur litlu bræðrum sínum hér í sveitinni. Einhverjir lánsmenn hafa þar með raunar gert garðinn frægan í fleiri en einni sveit hér eystra. En betra er að vera lánsmaður en ólánsmaður.
Þó forföll væru mikil mættu þó tvær kempur til leiks, þeir Kalli Krusjoff og Elli F. Kennedy og það sem meira var, spiluðu saman. Ekki er vitað til þess að þeir hafi tekið í spil saman síðan Kúbudeilan stóð hvað hæst hér um árið. Kalli skartaði rússneskum bjarnarfeldi á höfði en Elli forláta hatti. Þessi nýi keppnisbúningur sveitarinnar Efstu-Grundar kom andstæðingum þeirra algjörlega í opna skjöldu og sveitin vann öruggan sigur á Ægissíðumönnum, sem engan búning eiga, né kjarnavopnið 3 grönd. Efstu-Grundar drengirnir eru þar með komnir á toppinn eftir 4 umferði af 7 og eftir leikinn ákváðu sveitarmeðlimir að spila leikina eftirleiðis í búningum. Skógabóndinn hyggst koma sem Gandhi í laki einu fata og en Moldnúpsvertinn mætir til leiks sem Golda Meir í huggulegum kjól.
Úrslit leikja og stöðu í sveitakeppninni má sjá hér. Spil og BUTLER úr fyrri hálfleik hér og þeim seinni hér. Staðan í BUTLERnum er svo hér