Rangæingar -- Meðhjálparinn
Sl. þriðjudagskvöld komum við Rangæingar saman að vanda, nú til að leika 3. umferð í BUTLer-tvímenningi félagsins. Spilakvöldið byrjaði að vísu á klukkustundarlangri kvöldvöku að gömlu Eyfellskum sið, þar sem fók sat við kertaljós í eldhúsi félagsheimilsins og sagði hvort öðru sögur. Kvöldvökunni lauk ekki fyrr en rafmagnið kom aftur en ráðgert er að hefja öll spilakvöld framvegis á kvöldvöku og jafnvel hætta alfarið að spila, sögustundir sem þessar eru svo skemmtilegar.
Þegar rafmagnið kom loks, og orðið var manntalsfært, kom í ljós að það vantaði raforkubóndann sjálfan, sem framleiðir orku fyrir okkur hin í virkjuninni sinni. Hann hafði þá setið í myrkrinu við túrbínuna sína í Ljósárvirkjun og beðið þess að rafmagnið kæmi, svo hann gæti farið að framleiða rafmagn.
En fleira fannst við ljóskomuna en raforkubóndinn. Meðhjálparinn var mættur með nýuppfært prestasjónið og það gladdi aldeilis prestinn, sem hafði ráfað ráðalítill um salinn þriðjudaginn áður, meðhjálparalítill. Berlega kom þá í ljós að prestar geta illa verið án reynds meðhjálpara og þó Magnus Halldórsson, hirðskáld, sé kirkjurækinn maður og fari nokkuð reglulega til messu, svona tíunda hvert ár eða svo, gat hann lítið aðstoðað prestinn, sem fór stigalaus frá því kvöldi. En nú var meðhjálparinn mættur og las uppúr prestasjónakverinu fyrir söfnuðinn. Sóttu þeir félagar fast og öngluðu saman með útsjónarsemi 303 impum. Næstir inn komu skipstjórinn og hænsnabóndinn með 279 impa og þriðju í mark urðu Ægissíðugoðinn og hálf-Svíinn með 194 impa í farteskinu.
Vert er að gefa gaum góðum árangri feðganna Eysteins og Eiríks en þetta er annað kvöldið í haust sem Eysteinn mætir með aldraðan föður sinn til spila. Þeir feðgar urðu í 6. sæti, næsta sæti við stigasæti. Stutt er í að Eysteinn nái í sín fyrstu bronsstig.
Úrsltin og spilin má sjá hér og stöðuna í butlernum eftir 3 kvöld hér