Rangæingar -- Skotapils
Sl. þriðjudag hittist að vanda fríður hópur manna og kvenna, sérstaklega kvenna, að Heimalandi undir V-Eyjafjöllum til að leika 2. umferð af 5 í Samverkstvímenningnum. 15 pör mættu til leiks og spiluðu 28 spil með Monrad-fyrirkomulagi.
Útlit var fyrir að efsta par fyrsta kvöldsins kæmi vængbrotið til leiks, þar sem helmingur liðsins var staddur á hannyrðasýningu í Skotlandi, þar sem menn kynntu sér nýjustu stefnur og strauma í gerð skotapilsa en ferskir vindar ku leika um þá grein um þessar mundir.
Nýr spilari var því munstraður í toppliðið, enda samningslaus, og stóð hann sig heldur betur vel. Svavar Hauksson heitir sá drengur og vakti frammistaða hans strax athygli stórliða í Evrópu og hefur hann nú gert samning við BC Gautaborg og hélt hann strax til æfinga með liðinu og flaug til Gautaborgar á miðvikudagsmorgunn. Búist er við því að hann verði í byrjunarliði BC Gautaborgar strax í næsta leik. Óvíst er um uppeldisbætur.
Svavar Gauta- og heimsborgari og Sigurður sveitamaður enduðu kvöldið með 66,7% skor. Næstir í mark urðu flokksbræðurnir Ægir og Árni með 58,3% skor og þriðju, eins og stundum áður, urðu svo Birgir III og Örn III með 55,1% skor.
Úrslitin og spilin má sjá hér og stöðuna í Samverkstvímenningnum eftir 2 kvöld af 5 hér