Rangæingar --"Fannst þó svona fremur skítt"
Í gærkvöldi komu fáeinir framsóknarmenn, og fleiri góðir menn, saman að Heimalandi og tóku til við spil. Leikinn var eins kvölds barómeter 28 spil með Monrad fyrirkomulagi. 15 pör mættu til leiks.
Notadrjúg og vot verðlaun voru í boði í hinum ýmsu flokkum. Skástu verðlaunin fengust vitaskuld fyrir þrjú efstu sætin í opnum flokki en einnig var keppt um efra og neðra sætið í kvennaflokki (bæði sæti verðlaunuð), efsta sæti í nýliðaflokki, fjórða sætið var verðlaunað, sem og heiðurssætið en það bar þó til tíðinda þar að annað tveggja paranna sem þar urðu jöfn, vildi ekki kannast við verðlaunasætið, færðist undan verðlaunum, sögðust eiga uppvaskinu ólokið heima fyrir og hlupu út.
Nafnarnir Halldórsson og Bjarnason komu sér strax vel fyrir í efsta sæti, fannst gott að sitja sem fastast á efsta borði og þurfa ekki að hlaupa mikið um salinn í leit að sætum. Kom sér vel, enda báðir aðeins illa fyrirkallaðir þetta kvöld, hálflasnir. Bjarnason er nýbyrjaður í geislum og nafna hans fannst að skýringin á góðu gengi þeirra kynni að liggja í því hve geislarnir hefðu góð áhrif á nafna sinn og hafði það á orði við hann. "Ja, kann nú vel að vera en þeim er nú beint að mér heldur sunnar" sagði þá Bjarnason
Eftir gott gengi framan afkvöldi voru nafnarnir orðnir bjartsýnir á að drjúgur hluti verðlaunafjárins kæmi í þeirra hlut og mátti greina nokkra eftirvæntingu í liðinu. En einbeitingin tapaðist í tilfinningarótinu og þeir nafnar sigu niður í 3ja sætið í síðustu tveimur setunum.
Skáldinu þótti þetta eðlilega súrt í broti og varð að orði við mótttöku verðlaunafjárins fyrir 3ja sætið:
Af fyrsta borði færðumst lítt
og framan af með kæti.
En fannst þó svona fremur skítt
að falla í þriðja sæti!!
Bjorn og Eyþór tóku fyrsta sætið með 62,2% skor. Í öðru urðu Sigurður og Torfi með 59,8% skor og þriðju svo nafnarnir með 56,8% skor.
Úrslit og spil kvöldsins má sjá hér