Rangæingar -- "Stöðugt þessir garpar græða"
Sl. þriðjudagskvöld settust Rangæingar að spilum að vanda og nú til að leika 3ju umferð í sveitakeppni félagsins. Varmahlíðarvinir fara mikinn og leggja hvern andstæðinginn á fætur öðrum að velli. Engu er líkara en spilarar í Rangárþingi, upp til hópa, séu orðnir vinir Varmahlíðar. Hirðskáldið er enda fullt aðdáunar á þessum drengjum:
Stöðugt þessir garpar græða
þó gerist sagnir villtar.
Villulaust þeir veginn þræða,
Varmahlíðarpiltar.
Á hinn bóginn fannst skáldinu árangur sinn og sinna manna ekki til útflutnings, hálfgerður uppskerubrestur orðinn á harðbalanum:
Héldu á lofti hundunum,
háspil ekki nýttu,
Gæjarnir af Grundunum,
á grasinu sér snýttu.
Úrslit og stöðu í sveitakeppninni má sjá hér Úrslit og spil fyrri hálfleiks hér og þess seinni hér Staðan í Butlernum að loknum þremur umferðum er svo hér