Rangæingar Jólamót -- Á ýmsu gekk!
Sunnudaginn 28. desember á spilastjóri Rangæinga afmæli. Þann dag var haldið mót, að vísu ekki honum til heiðurs, heldur var það hið árlega jólamót félagsins. Verðlaun voru veitt fyrir fyrstu fjögur sætin og voru það Landsbankinn, Kjarval, Sláturfélag Suðurlands (SS) og MS sem gáfu þau.
16 pör mættu til leiks í blíðskaparveðri, einkum var veðrið gott inni í spilasalnum, þar sem hin Rangæsku fjöll glöddu sjónir gesta. 17. parið var raunar skráð til leiks en þátttöku þess lauk á afleggjaranum heim að golfskálanum á Strönd, þar sem jeppi með hestakerru aftan í ók aftan á bíl þeirra félaga Karls Þ. Björnssonar og Þórðar Ingólfssonar. Sem betur fór urðu ekki alvarleg slys á mönnum en þó næg til þess að þeir félagar treystu sér ekki til að taka þátt í mótinu, sem vonlegt var. Karl fékk myndarlegan skurð á hægri augabrún og leit út eins og hann hefði verið á ferð með Mike Tyson, en ekki rólyndismanninum Þórði, og aksturshæfni Karls eitthvað farið í taugarnar á Tyson. Ljóst var að sauma þurfti kappann. Reynt var að ná í formann Hannyrðafélags Rangæinga til verksins en sá er tvöfaldur Íslandsmeistari í bútasaum og þrefaldur Íslandsmeistari í krosssaum. Því miður átti hann ekki heimangengt, þar sem hann var að æfa fyrir nýársmót í bróderingum. Þar með var ljóst að Karl yrði ekki saumaður saman í Rangárvallasýslu.
Nokkrar tæknivillur voru dæmdar á spilastjóra, sem tókst með einstakri lagni að týna út síðustu 14 spilunum úr skráningunni, þ.e. myndum af þeim höndum og varð að bjarga sér frá skömminni á hundasundi. Spilastjóri biður keppendur velvirðingar á klaufaskapnum og lofar bót og betrun. Því fylgja einungis myndir af fyrstu 30 spilunum.
Af úrslitum mótsins, svona ef einhver hefur áhuga á þeim, er það annars helst að frétta að við Rangæingar náðum því yfirlýsta markmiði okkar að styðja nágranna og vini af helium hug, líkt og alsiða er um jólin. Með samstilltu átaki tókst okkur Rangæingum að sneiða hjá öllum verðlaunum, enda þurfa Árnesingar mun meira á þeim að halda en við.
Í fyrsta sæti urðu þeir Þórður Sigurðsson og Guðjón Einarsson með 58,8% skor, sem er alls ekki slæmt skor hjá mönnum sem komnir eru á þennan aldur. Næstir urðu Hartmannssynir, Anton og Pétur, með 58,1% skor sem er auðvitað alls ekki nógu gott skor hjá þetta ungum mönnum. Þriðju urðu svo landbúnaðarhaukarnir Höskuldur og Gunnar með 56,0% skor. Árangur annara para var það slakur að hann verður ekki tíundaður hér af tillitssemi við menn og konu, aðgát skal höfð í nærveru sálar. Hins vegar má sjá úrslit og spil hér
Mönnum gekk mis vel en verst gekk þó lengst að komnu gestunum, Hauki og Jónatan. Einhver vildi kenna um ferðaþreytu en Haukur var með klára skýringu á óförunum:
Eitt er sem ég ekki skil,
þó ákaft mér í kollinn klóri
Alltaf fékk ég ónýt spil
elsku besti spilastjóri!
Stjórn Bridgefélags Rangæinga þakkar þátttakendum skemmtilegt mót. Við óskum félögum okkar hér í félaginu, sem og spilurum vítt og breitt um landið kalda, gleðilegs nýs árs og færum ykkur öllum bestu þakkir fyrir gott og skemmtilegt spilaár, sem nú kveður senn!