Rangæingar -- "Á Brúar(bridge)engjum töðu tókum"
Sl. þriðjudag kom saman hópur fríðleiksfólks úr Rangárþingi til að leika 4. umferð af 5 í BUTLER-keppni félagsins. Til leiks mættu 15 pör og spiluðu 28 spil með Monrad fyrirkomulagi (4 x 7).
Bjössi á mjólkurbílnum brunar hratt yfir grænar grundir spilaborðsins um þessar mundir, svo hratt að Eyþór þarf að hafa sig allan við að hanga ofan á mjólkurtanknum, enda með gleraugu. Þeir félagar urðu efstir þetta kvöld með 336 impa skoraða (imps across the filed). Næstir inn, nýkomnir af aðalfundi framsóknarfélagsins, urðu þeir Bergur og Friðrik með 278 impa í vasanum og þriðju urðu Skírisskógarhetjurnar Jói og Siggi með 171 impa.
Spilafólk hér í Rangárþingi er óðum að komast í jólaskap, og sumir þegar komnir með jólaskvap og einhverjir raunar haft það lengi.
Meðan salurinn var að raula gömlu stemmuna Jólasveinar einn og átta, heyrðust þeir Bjössi og Eyþór raula þennan texta undir sama lagi:
Spilaveginn allan ókum,
upp við hlóðum slögunum.
Á Brúarengjum töðu tókum
og týndum strá úr högunum.
Góður rómur var gerður að söngfærni þeirra drengja og því tóku þeir í uppklappi, undir sama lagi:
Eyþór lítt mun utangátta,
ávallt hlær að tröllunum.
Í huga sínum hringir Bjössi
helstu kerfisbjöllunum
Úrslitin og spilin má sjá hér
Eftir 4 kvöld af 5 eru mjólkursendlarnir komnir á toppinn með 841 uppsafnaðan impa en næstir eru athafnamennirnir Torfi og Sigurður með 764,7 og þriðju sæmdarparið Silla og Eiríkur með 402 impa. Að leikslokum gilda 4 bestu kvöldin af 5, svo allt getur enn gerst.
Stöðuna í Butlernum má sjá hér