Rangæingar -- Ólafsmótið....afmælisbarnið hefur engu gleymt!
Kær vinur okkar og spilabróðir, Ólafur Ólafsson, fyrrv. kaupfélagsstjóri á Hvolsvelli, fagnar níðræðisafmæli sínu þann 5. maí. Af því tilefni komum við spilavinir hans saman að kvöldi 1. maí og spiluðum mót honum til heiðurs. 13 pör mættu til leiks. Ólafur bauð upp á kaffiveitingar, rjómatertu og snafs í leikhléi, sem gestir gerðu góð skil. Góðir gestir komu til leiks bæði frá Selfossi og úr uppsveitum Árnessýslu.
Það var okkur vinum hans sönn ánægja að heiðra Ólaf með þessum hætti, enda er Ólafur einn af upphafsmönnum bridgelífs á Hvolsvelli. Það er þó aðeins eitt af þeim góðu verkum í samfélaginu hér sem Ólafur er frumkvöðull að og ber að þakka.
Ólafur er engum líkur! Þó hann hafi ekkert spilað í vetur, var það ekki að sjá á spilamennsku hans. Hann fékk spilastjórann lánaðan sem makker og urðu þeir drengirnir í 2. sæti, með118,9 (imps across the field) skor á eftir Selfyssingunum Helga Hermannssyni og Billa Gests, sem enduðu efstir með 163,4. "Hann stóð sig bara vel peyjinn, þó hann vanti kannski svolítið meiri reynslu" sagði Ólafur kampakátur í leikslok. Í 3ja sæti urðu svo Eyfellingarnir Sigurjón Pálsson og Sigurður Jakob Jónsson með 73,0.
Úrslit og spil má sjá hér
Í leikhléi ávarpaði formaður Bridgefélagsins afmælisbarnið og gesti, sem og Ólafur sjálfur.
Formaður bifhjólasamtakanna hér á Hvolsvelli og makker Ólafs til margra ára, Magnús Halldórsson, samdi eftirfarandi vísu Ólafi til heiðurs:
"Ævispilið er aldrei létt,
ýmsir þar ná að falla.
Þína vannstu slemmu slétt,
og slagina hirtir alla."
Þar með er vetrarstarfi félagsins lokið og spilafólkið gengur út í vorið. Við í stjórn Bridgefélags Rangæinga þökkum fyrir skemmtilegan vetur og hlökkum til að sjá alla á ný við spilaborðið, sem verður að vanda fyrsta þriðjudag í október.
Gleðii- og gæfuríkt sumar!!