Rangæingar -- Þjáningarbræðurnir Höskuldur og Torfi, úrslitin ENDANLEGA ráðin

föstudagur, 18. apríl 2014

Eins og menn vita er mikið af Framsóknarmönnum í Rangárþingi eystra, minna er af þeim í Rangárþingi ytra, einn eða tveir þó, en þar sem heimavöllur félagsins er í eystra notumst við eðlilega við útreikniaðferðir Framsóknarmanna, þegar kemur að talningum, hvort sem um er að ræða talningu atkvæða eða stiga!

Fyrir nokkrum árum var kjörinn formaður í Framsóknarflokknum og talinn réttkjörinn um stund. Eins fór fyrir okkur sl. þriðjudagskvöld þegar við töldum saman skorið það kvöldið.   Eftir þeim aðferðum enduðu prestakallarnir í 6. sæti það kvöldið og þar með stigalausir líkt og bankastjórarnir, svo slátrarinn virtist hafa haft prestinn undir í Meistarakeppninni.   En það fór fyrir Torfa eins og Höskuldi forðum, sigurvíman varð skammvinn, því í ljós kom að klaufskur spilastjórinn hafði tekið skorið upp, áður en leiðrétt var fyrir yfirsetu hjá þeim pörum sem þar höfðu dvalið um stund.  Við þá leiðréttingu seig Eyþór með bangsann sinn niður um sæti og prestakallarnir þokuðust upp í síðasta stigasætið það kvöldið og þar með upp fyrir bankastjórana í Meistakeppninni.   Séra Halldór er því sigurvegari meistarakeppninnar og svo sannarlega vel að því kominn.   Innilega til hamingju kæri vinur!!!

Slátrarinn er gallharður sjálfstæðismaður en íhugar nú að ganga í Framsóknarflokkinn, þar sem honum sýnist útreikniaðferðir þess flokks henta sér einkar vel.   Því skal þó til haga haldið að hann kom fyrstur auga á þessi mistök og vakti athygli spilastjóra á þeim.

Og svo er þessi upprisa séra Halldórs auðvitað vel við hæfi, svona á páskum.

Spilastjóri biðst auðmjúklega velvirðingar á þessum mistökum sínum og gerði sig líklegan til að standa upp úr spilastjórastólnum en allir hlutaðeigandi lögðust á eitt við að ýta honum ofan í hann aftur og tóku aumum manni einkar vel.  Spilastjóri komst því hvorki lönd né strönd við að axla ábyrgð sína og situr því sem fastast áfram, svona að íslenskum sið.

-------------------------------------------------------------------------------------------

Svona var fréttin:   

Sl. þriðjudagskvöld héldum við okkar árlega Páskamót með þátttöku 15 para. Byggingafyrirtækið Krappi ehf. gaf fjölda páskaeggja sem dreift var um stigatöfluna. Eins og vera ber voru þrjú efstu sætin verðlaunuð með einkar myndarlegum páskaeggjum en að auki voru veitt verðlaun fyrir hina ýmsu flokka, m.a. kvennaflokk og nýliðaflokk, mestu vonbrigði kvöldsins o.fl. "Við vorum ákafar í kvöld, enda ætluðum við okkur sigur í flokknum" sagði stoltur sigurvegarinn í kvennaflokki, Skíðbakkagoðinn Rútur Pálsson, og braut sér mola af verðlaunafénu. Sýslumannsfrúin í Vík í Mýrdal kom hins vegar sá og sigraði í opnum flokki en þeir félagar og trúbræður, Sigurður Jakob og Sigurjón Pálsson, unnu öruggan sigur í gærkvöldi, komu í mark á 64,3% skori. Framsókn er í sókn og sama má segja um framsóknarforkólfinn og aðalritarann Berg Pálsson, sem varð í öðru sæti með 57,7% skor. Eftir að Tottenhamtröllið snerist til trúar á Sigmund, Berg og flokkinn, hefur þeim félögum gengið allt í haginn og farið mikinn í stigaskori nú í vetrarlok. Þriðju urðu svo Skógamennirnir Hrói og Höttur, þeir Jói og Siggi, með 57,4% skor. Innilega til hamingju drengir!!!!

Úrsltin í Meistarakeppninni réðust einnig á þessu lokakvöldi. Fyrir kvöldið munaði einungis 4 bronsstigum á prestinum og slátraranum. Mikið álag var því á makkerum þeirra beggja en hvorugur virtist höndla spennustigið og svo fór að hvorugt parið náði í stig. Þar með hreppti slátrarinn bikarinn og sæmdarheitið á jafnglíminu það kvöldið og fær sitt nafn letrað á farandbikarinn. Innilega til hamingju vinur minn!! Halldór og Kristján áttu hins vegar afar góðan sprett í lok vertíðar og svo glöggt stóð á lokametrunum að þeim vantaði einungis tvö vinningsstig í gærkvöldi til að hreppa fimmta og síðasta stigasætið, sem gaf 7 stig og hefði þar með fært prestinum titilinn. Tæpara verður það nú ekki og mikið er nú keppnin í vetur búin að vera jöfn og skemmtileg!

Þar með er formlegri vetrardagskrá félagsins lokið, nema hvað lokakvöldið síðasta vetrardag er eftir með verðlaunaafhendingum og lokamóti þar sem veitt verða votleg en notadrjúg verðlaun að vanda, í allskonar flokkum.

Úrsltin frá í gær og spilin má sjá hér

Gleðilega páska!

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar