Rangæingar -- Síðbúin úrslit í lokakvöldsgleðinni og afmæli Ólafs
Að kvöldi síðasta vetrardags héldum við Rangæingar vertíðarlokin hátíðleg með verðlaunaafhendingu og laufléttri spilamennsku að verðlaunaafhendingu lokinni. Hafi spilamennskan verið létt má með sanni segja að spilarar hafi verið laufléttir. Verðlaunum var dreift um tölfuna að vanda og vandfundinn sá spilari sem fór bauklaus heim. Spilastjóri flúði land strax um nóttina en er nú búinn að jafna sig og því koma úrslitin hér.
Sigurvegarar urðu þeir Garðar Garðarsson og Björn Dúason með ágætt skor, 59,5%, enda komu þeir báðir keyrandi til leiks. Næstir urðu Torfi og Diddi með 58,9% skor. Nærstöddum sýndist að þeir hefðu ekki komið keyrandi til leiks, fremur en Sigurður og Torfi, sem greinilega komu ekki keyrandi heldur en enduðu í 3ja sæti með 58,0% skor.
Úrslit og spil má sjá hér , ef einhver man eftir þeim enn.
Þann 5. maí nk. verður kær vinur okkar og spilabróðir, Ólafur Ólafsson, fyrrv. kaupfélagsstjóri á Hvolsvelli, níræður. Af því tilefni ætlum við að koma saman að kvöldi 1. maí og halda afmælismót. Spilað verður í Hvolnum, spilamennskan hefst kl. 19,30 að vanda og spiluð verða 24 spil. Kaffiveitingar í leikhléi.
Við hvetjum alla nýja og gamla félagsmenn okkar til að koma og spila með okkur þetta kvöld, sem og spilabræður Ólafs í gegnum tíðina, og heiðra með því þennan sómamann. Allir hjartanlega velkomnir!!!