Rangæingar -- Framsóknarmenn tilbúnir með listann
Framsóknarmenn hér í Rangárþingi eystra, sem eru auðvitað fjölmargir eins og menn vita, hafa nú raðað upp á framboðslista sinn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
Við bridgespilarar í sveitarfélaginu ætlum að vísu ekki að bjóða fram en komum samt saman sl. þriðjudagskvöld til að stilla upp lista kvöldsins, á 4. kvöldi Samverkstvímenningsins af 5. Í kjörnefnd voru prestakallarnir sem ákváðu, vitaskuld að vandlega íhuguðu máli, að stilla sjálfum sér upp í toppsætið með glæsilegu skori, 62,5%. Enginn hafði neitt við það að athuga, ef marka má spilamennsku fólks þetta kvöld, því aðrir voru langt á eftir. Í leiðinni stilltu prestakallarnir sér einnig upp í forystusætin í Meistarakeppninni og hafa nú átta stiga forskot þar á næstu menn, þegar 2 spilakvöld eru eftir. Þá leiða þeir einnig lista Samverkstvímenningsins, þegar eitt kvöld er eftir. Þeir eru því sannkallaðir forystusauðir og sannarlega vel að því komnir drengirnir!!
Silla okkar leiddi Eirík sinn þó upp í 2. sætið, með 54,6% skor og þriðju á lista eru svo trukkararnir Elli og Kalli með 53,8% skor. Árangur annara para þetta kvöld er alls ekki í frásögur færandi og verður því ekki tíundaður hér en áhugasamir geta þó kynnt sér úrslit og spil hér og stöðuna í Samverkstvímenningnum hér eins og hún er, nú þegar eitt kvöld er eftir af mótinu.