Stjórnarfundur 16.sept. 2013
miðvikudagur, 18. september 2013
9. Fundur í stjórn Bridgesambandi Íslands,
haldinn 16. september, 2013 kl. 16.00
Mætt voru Jafet, Ólöf, Árni Már, Guðný, og Jörundur
Garðar, Helga og Örvar boðuðu forföll
1. Fundargerð síðasta fundar samþykkt
2. Tölvumál. Jafet ræddi um nýja heimasíðu eða breytingu á
henni. Allar slíkar breytingar eru dýrar og óvíst hverju slíkt
skilar. Hins vegar er hægt að gera ýmislegt til að auka nýtingu og
umferð á heimasíðunni. T.d. er hægt að safna nöfnum og
netföngum spilara, jafnvel í hinum ýmsu félögum BSÍ. Mikilvægt er
líka að heimasíðan sé vel virk og stöðugt sé efni hennar uppfært
með nýjustu fréttum. Jafet mun stofna hóp um þetta verkefni. Einnig
var rætt um fésbókarsíður, Bridgefélag Kópavogs er nýbúið að stofna
eina slíka, margar myndir þar. Einnig þótti lofsvert framtak
Aðalsteins Jörgensens en hann hefur verið feykiöflugur við að taka
myndir og setja þær inn á fésbókarsíðu BSÍ.
3. Landsliðsmál. Næsta verkefni er EM 21.júní - 2.júlí
2014 í Opatija, Króatíu. Aður stóð til að keppnin yrði haldin í
Búlgaríu, en þeir urðu að ganga út úr því þar sem fjáröflun
brást. Stefnt er að því að hefja landsliðsæfingar fljótlega
bæði fyrir opinn flokk og kvennaflokk. Þó er ljóst að aðeins verður
lið sent í opnum flokki en mjög mikilvægt er einnig að byggja upp
gott lið í kvennaflokki. Fundur í landsliðsnefnd verður fljótlega
þar sem farið verður yfir þessi mál og starfið skipulagt. Rætt var
um val í landsliðið, jafnvel hvort ekki séu sjálfvalin tvö pör af
þremur, hvort keppa ætti um þriðja parið. Einnig bent á að hefðin
sé að nefndin eða einvaldur velji liðið fyrir EM. Fljótlega verði
auglýst eftir pörum sem áhuga hafi á að keppa í landsliði eða æfa
með því í báðum flokkum.
4. Ársþing. Undirbúningur fyrir Ársþingið er á fullu,
ársreikningar eru hjá endurskoðendum, ársskýrslan er líka í
samningu og verður uppkast að henni fljótlega sent til
stjórnarmanna til skoðunar. Einnig var rætt um störf
heiðursmerkjanefndar.
5. Stjórn BR hefur verið í sambandi við forseta BSÍ og
rætt erfið fjármál sín, rekstur félagsins stendur varla undir sér.
Bent var á að flest félög utan Reykjavíkur væru með tekjur af
sjoppu, sem BR væri ekki með, auk þess væru þau flest þannig sett
að þau ættu eigin sagnbox , fartölvu og BridgeMate. Leiga væri
lægri fyrir þau flest enda oft að einhverju leyti styrkt af
viðkomandi sveitarfélagi. BR fengi hins vegar enga styrki frá
Reykjavíkurborg en með því að hafa starfsemina þarna væri það að
hjálpa BSÍ verulega við rekstur á Síðumúla 37. Jafet og
stjórnarmenn BR munu fljótlega eiga fund með ÍTR og ræða þessi mál
þar. BSÍ mun einnig lækka leigu til BR fyrir þau föstudagskvöld sem
eru framundan.
6. Af Bridgehátíð. Búist er við aukinni aðsókn - hætt við
að hótelið sé að verða of lítið fyrir þennan stórkostlega viðburð
sem sífellt er að auka hróður sinn. Norðmenn ýmsir nú þegar búnir
að skrá sig til þátttöku og jafnvel búist við Mónakó-sveitinni
frægu. Bent á að lagfæra þurfi nafn mótsins bæði á heimasíðu og í
mótaskrá, einnig þurfi að bæta við nöfnum styrktaraðila
(Íslandsbanka og WOW) BSÍ inn á heimasíðuna.
7. Önnur mál.
Ólöf benti á mikla þörf á endurnýjun á spilum. Höfum hingað til
notið samnings við Icelandair en sá samningur er útrunninn. Jafet
benti henni á að fá tilboð frá nokkrum aðilum, einnig að hafa
samband við EBL (Yves Aubry) sem hefur góðar tengingar þarna.
Einnig er líklega hægt að fá ákveðið fyrirtæki í samstarf við okkur
til að fjármagna þetta í auglýsingaskyni.
Fréttaflutningur. Einhverjar breytingar eru í gangi hjá
Morgunblaðinu, okkar góðkunni fréttaflytjari , Arnór Ragnarsson er
að hætta og hefur verið að biðja fólk að senda fréttir í
framtíðinni á brids@mbl.is. Það
hefur verið gert en virðist ekki virka nógu vel að sögn
Guðnýjar.
Fræðsla. Guðný segir að öll bridgefræðsla í Rimaskóla hafi verið
í biðstöðu vegna samræmdra prófa en sé að fara í gang. Fjórir ungir
spilarar eru að fara til Azoreyja 24-29.sept. á mót fyrir 30ára og
yngri (Kópavogsbúarnir Benedikt Bjarnason og Tómas
Þorsteinsson og Borgfirðingarnir Heiðar Baldurssonog Logi
Sigurðsson). Jörundur hefur verið í samstarfi við Heimi
Hálfdánarson í MK sem er að reyna að koma af stað hóp í bridge.
Heimir hefur góðar vonir um að það takist vel, hann verður með
kennslu í MK og munu þeir Jörundur og Árni Heimir verða honum innan
handar við kennsluna. Hann stefnir að því að fara með hópinn niður
í BSÍ og reyna að fá fleiri til að mæta þangað. Jörundur hefur
verið að þýða bækur eftir Dorothy Hayden Truscott sem eru sérlega
gerðar til að leiðbeina nýliðum bæði í sambandi við spilamennsku og
sagnkerfi SAYC. Heimild hefur fengist til að setja hluta af því
efni á heimasíðu BSÍ.
Ólöf ætlar að lagfæra mótaskrá, paramót færist úr febrúar til
22.-23. mars
Næsti fundur verður miðvikudaginn 16. okt. kl 16.00.