Ársþing BSÍ 21.október 2012

miðvikudagur, 24. október 2012

  Ársþing BSÍ 2012, sunnudaginn 21. október

Þingsetning. Jafet forseti BSÍ setti þingið, bauð menn velkomna, og bað síðan fundarmenn að rísa úr sætum til að minnast tveggja látinna bridgespilara á árinu,
þeirra Jóns Ásbjörnssonar og Einars Guðmundssonar.  
Stakk upp á Guðmundi Baldurssyni sem fundarstjóra og Jörundi Þórðarsyni sem fundarritara sem fundurinn samþykkti.

Guðmundur tók strax við fundarstjórn og fékk uppástungur um þrjá í kjörbréfanefnd: Erla Sigurjóns, Guðrún Jörgensen og Kristján M Gunnarsson.  Nefndin tók strax til starfa og var fundi frestað á meðan nefndin fór yfir kjörbréfin.

Erla gerði grein fyrir kjörbréfum og áréttaði að undirskrift bæði formanns og ritara væri þörf. Fulltrúar félaga voru 25 og áheyrnarfulltrúar voru fimm (Vigfús Páls, Örvar Óskars, Ómar Freyr Ómarsson, Guðmundur Baldursson og Þórður Ingólfsson)

Bf.

Borgarfjarðar

2

40

Þorvaldur Pálmason, Ingimundur Jónsson

Bf.

Akureyrar

2

34,4

Valmar Väljaots (2)

Bf.

Selfoss

2

31,8

Kristján Már Gunnarss, Gunnar B Helgas

Bf.

Muninn

2

40

Garðar Garðars, Óli þór Kjartansson

Bf.

Hafnarfjarðar

3

51,6

Erla Sigurjónsd (1), Sigurjón Harðarson (2)

Bf.

Kópavogs

3

43,2

Hjálmar Pálsson (2), Jörundur Þórðar (1)

Bf.

Reykjavíkur

5

84,8

Guðný Guðjóns (2), Guðjón Sigurj, Björn Eysteins, Jón Baldursson

Bd.

Breiðfirðinga

3

45,6

Sturlaugur Eyjólfsson, Magnús Sverris, Halldór Þorvorvalds

Miðvikudagsklúbburinn

3

46,6

Svenni Eiríksson, Guðrún Jörgensen, Guðlaugur Sveinson

Fundarstjóri tilnefndi í 3ja manna uppstillinganefndar: Björn Eysteins, Sigurjón Harðarson, Hjálmar Pálsson sem var það samþykkt.

Forseti flutti skýrslu stjórnar um starfsemi sambandsins frá síðasta þingi. Greindi m.a. frá nýjum bæklingi til kennslu nýliða. Efni bæklingsins er frá sænska Bridgesambandinu sem góðfúslega veitti BSÍ leyfir til að nota efnið. Árni Már Björnsson þýddi hann í sjálfboðavinnu, síðan tók við vinna hjá Sölku forlagi sem tók lítið fyrir sína vinnu, Guðrún Birna hannaði fallegt útlit. Meiningin er að nota hann til að kenna nýliðum í félögunum, í grunnskólum og framhaldsskólum.

Sífellt er erfitt að koma efni í fjölmiðlana, þó með einni undantekningu Mbl. sem er okkur mjög vinsamlegt. Næst ræddi hann um lækkandi opinber framlög á fjárlögum og bar saman við Skáksambandið sem hafa haldið sínu sem við unnum þeim vel. Hann minntist á lagfæringar á hljóðburði í húsnæði BSÍ en samt er haldið áfram að leita að enn heppilegra húsnæði. Hingað til í samstarfi við Skáksambandið, nú er líkast til ljóst að hagsmunir beggja lítt samrýmanlegir.

                Lögð fram fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir 2 mkr. rekstrarafgangi á starfsárinu. Ræddi um heimsmeistaramótið eða Bermúda Bowl - komumst alla leið í útsláttarkeppnina og enduðum í 5.-8. sæti sem er frábær árangur. Talsvert betra en 28. sæti sem Íslenska skáklandsliðið hreppti. Í Evrópumótinu núna í Dublin gekk ekki eins vel. Slakt gengi í fyrri hluta, vorum neðstir þeirra sem komust áfram en í framhaldinu fór allt í gang sem dugði þó aðeins í 13. sætið.. Í sparnaðarskyni (næstum 400þ) var látið nægja að senda aðeins tvö pör í Ólympíumótið í ágúst. Þátttöku í öllum þessum mótum á árinu orsakaði árshalla upp á næstum 5 milljónir. Og það þrátt fyrir fjáröflunarmót sem haldið var í Hörpunni og hagnað af mótum. Framundan er NM í maí sem haldið verður hér á landi í Reykjanesbæ, ákveðið hefur verið að láta keppa um öll landsliðssæti bæði í opnum flokki og kvennaflokki.

                Forseti fór síðan beint í að leggja fram endurskoðaða ársreikninga sambandsins og útskýra. Hann fór yfir helstu kostnaðar-og tekjuliði, eins áður hefur verið tíundað var talsvert tap á árinu, þrátt fyrir það hefur tekist að standa alls staðar í skilum. Aðhaldsemi einkenndi reksturinn enda afar mikilvægt ef á að takast að fara af stað með metnaðarfulla kennslu í grunnskólum. Ljóst að næsta ár verður léttara í rekstri þar sem aðeins eitt mót er á dagskrá.

                Fundarstjóri gaf nú orðið til þeirra fundarmanna sem vildu spyrja um ársskýrsluna og reikningana. Ýmsir tóku til máls, m.a. Óli Þór sem spurði um vexti og verðbætur, sem forseti útskýrði en skuldbreyting var gerð á láninu sem BSÍ skuldar NBI banka. Kristján Már o.fl. sammála um að fjárframlög ríkis væru í engu samræmi við góðan árangur íslenska landsliðsins. Reikningar voru samþykktir með lófaklappi.

Formenn fastanefnda gefa skýrslu um starfsemi nefndanna.

Garðar Garðarsson formaður meistarastiganefndar (Frímann Stefáns einnig í nefndinni en Ómar Olgeirs hefur hætt í henni)  minnti á samþykktir síðasta þings um að taka þá sem látnir eru af stigalistanum, sagði að slíkt hefði nú verið gert, til eru tvö prentuð eintök af gamla listanum með öllum. Hann sagðist einnig hafa athugað stigagjöf spilara á BridgeBase Online og um möguleika á að tengja áunnin stig þar.

Jörundur greindi frá störfum mótanefndar  (aðrir í nefnd eru Pálmi Kristmannsson, Ásgrímur Sigurbjörnsson, Frímann Stefánsson, Örvar S. Óskarsson.)  Aðalvinnan gerð mótaskrár. Hann sagðist hafa fengið ábendingu um að væntanlegar alþingiskosningar í vor komi líklega til að vera sömu helgi og úrslitin fara fram í Íslandsmótinu í sveitakeppni. Líkur séu á að þetta kunni að koma í veg fyrir þátttöku einhverra bridgespilara. Ef valið væri að færa mótið um eina helgi kæmi hugsanlega í ljós til svipað stór hópur sem myndi þá ekki geta spilað. Formaður óskaði eftir viðbrögðum fundarins og sýndist enginn hafa áhuga á að færa mótið. Enn er líka möguleiki á að kosningar verði ekki þennan dag.

Laga og keppnisreglnanefnd. (aðrir í nefnd: Bjarni Einarsson, Jón Baldursson, Sveinn R Eiríksson og Jörundur Þórðarson) Formaður nefndarinnar Vigfús Pálsson greindi frá breytingum á keppnisreglugerð og bar einnig upp nýjar reglur um alert sem nefndin telur að verði til bóta. Engar fundargerðir en mikil samskipti með tölvupósti.

                Fundarstjóri gaf nú leyfi til spurninga:

Guðjón Sigurjóns greindi frá stigaávinnslu í Nationalmótum sem háð er því að vera félagi í NABC.

Sigurjón og fleiri upplýsti að enn væru látnir inni á meistarastigaskrá, formenn félaga þurfa að upplýsa um látna félaga. Kristján vill ekki að gögn um framliðna spilara glatist, allir sammála um það. Hjálmar benti á að meistarastiganálar hefðu ekki ratað til félagsins frá BSÍ, fleiri höfðu sömu sögu að segja.

Sveinn Rúnar taldi að betra samræmi þyrfti að vera í tímatöflum móta, ekki gott að byrjað sé kl 11 á laugardegi en síðan kl 10 á sunnudegi. Ekki heldur gott að láta mót ná yfir tvo matmálstíma sama daginn, (10-19 betra en 11-20). Flókið reikningshald um stig á BBO. Formaður mótanefndar styður samræmdan tíma, erlend mót byrja oft kl 9. Garðar styður að mót byrji kl 11. Valmar bað mótanefnd að hafa dreifbýlið í huga varðandi á hvaða tíma mót byrja, ath flugtíma.

Gunnar B Helgason taldi minni reisn yfir deildakeppni með því að hafa hana yfir eina helgi. Formaður mótanefndar sagði að með þessu móti væri þátttaka gerlegri fyrir sveitir úr dreifbýli. Auk þess lítið rými í dagatali fyrir þetta mót, árekstur er við erlend mót s.s. eins og Madeira mót og National mótin. Valmar tók undir þetta.

Minningarsjóður Alfreðs Alfreðssonar: Garðar Garðarsson, formaður (aðrir í stjórn sjóðsins Ólöf Þorsteinsdóttir, gjaldkeri, Guðný Guðjónsdóttir) greindi frá stöðu sjóðsins en mikið af bréfum sjóðsins urðu verðlítil, staðan núna kr 377 þús.  Spurning hvort hægt sé að endurreisa sjóðinn svo að hann geti aftur orðið sú stoð fyrir unga spilara sem honum var ætlað að vera. Sveinn stakk upp á að tengja ákveðin mót við hann en auk þess að upplýsa reikningsnúmer svo hægt sé að gefa fé í sjóðinn.

Lagabreytingar. Engar.

Kosningar

Jafet Ólafsson var endurkjörinn forseti. Stjórn öll endurkjörin: Árni Már Björnsson, Jörundur Þórðarson, Guðný Guðjónsdóttir, Garðar Garðarsson. Til vara: Helga Bergmann og Örvar Snær Óskarsson

Kosning löggilts endurskoðanda.  Guðlaugur R Jóhannsson

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga sambandsins og tveggja til vara, sbr. Stefanía Sigurbjörns, Þorsteinn Berg

Dómstóll BSÍ: Bjarni H. Einarsson, Guðmundur Baldursson, Helgi Bogason, Kristján Már Gunnarsson, Jón Þorvarðarson, Ragnar Magnússon, Þorsteinn Berg,

Ákvörðun árgjalds. Nokkur umræða varð um það en ákveðið að hækka það úr 110 í 130 krónur, enda hefur það ekki hækkað í a.m.k. þrjú ár og þessi breyting aðeins leiðrétting til samræmis við verðbólgu.

Önnur mál

Jafet þakkaði það traust sem honum veitist með endurkjöri, telur að nú loks sé hann farinn að komast inn í hlutina. Hann þakkaði meðstjórnendum sem og framkvæmdastjóra framlag þeirra og stuðning. En síðan ræddi hann fyrirkomulag á landsliðsmálum, NM sé góður vettvangur til gefa nýjum tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Benti líka á að gæði okkar bestu bridsspilara kalla fram boð til þeirra á afmælismót í Danmörku og víðar. Jón B hefði sagt honum frá hve tímafrekt væri að ná árangri. Hann hefði skráð hjá sér hve miklum tíma hann hefði varið í undirbúning fyrir ýmis mót. Árangur okkar væri stórkostlegur í ljósi þess að heimsmeistaratitlar í sveitakeppni hefðu iðulega lent hjá USA og Ítalíu með örfáum undantekningum (litla Ísland, Noregur, Holland, Mónakó, og 2-3 önnur). Einnig benti Jafet á ný og fróðleg skrif norska einvaldsins.

Þorvaldur árnar heilla forseta bridgesambands Vesturlands fyrir góðan árangur í einmenningi. Vildi einnig minna á Bridgetorgið (kennsluvefur í bridge, ytrivefur, innri vefur (innskráning) og námskeið) sem hann og GPA sáu um að búa til og notað var til kennslu fyrir þremur árum. BSÍ hafi ekkert nýtt hann eða þurft að greiða af honum í ár. Spurning hvort hægt væri að samnýta hann með BBO.

Sigurjón vill frekar landsliðseinvald, hvort kjördæmamót eigi ekki líka að vera í Reykjavík. Hvenær til Færeyja? Hann minnti á gott framtak Guðnýjar og spilara frá bridgefélagi Hafnarfjarðar á Austurvelli, góð kynning.

Senjoralið 60 ára +: Vigfús vildi stuðla að því að Ísland sendi senjoralið í keppni - þeir beri samt mestallan kostnað sjálfir. Jafet styður það.

Hjálmar formaður BK þakkar BR góð viðbrögð við umkvörtunum og spila ekki lengur á fimmtudögum. Hann kynnti einnig afmælismót BK sem er orðið 50 ára, mótið verður haldið 24. nóv. í félagsheimili aldraðra að Gullsmára 13. Þakkar einnig BSÍ fyrir að seinka Íslandsmóti Eldri spilara um eina helgi til 1.des

Guðlaugur Sveinsson þakkar stjórn BSÍ vel unnin störf og góðan fund. Hann og Magnús Sverrisson vilja að reynslumestu spilararnir verði áfram valdir í landslið á meðan þeir eru tilbúnir í þá miklu vinnu.

Kristján óskar stjórn heilla. Telur kjördæmamóti best komið úti á landi, meiri tíma í mótið þarf til að fólk geti talað saman, að undanförnu dagskrá svo þétt að varla nokkur tími fyrir formannafund. Sigurjón: ef til vill að hafa ekki kjördæmamót á Reykjanesi - of nálægt borginni, allir fara heim og engin stemming næst. Mótanefnd upplýsti að mótið verður næst á Akureyri.

Þórður: Vildi ræða atvik á einmenningsmóti. Vill spyrja hvaða reglur gilda um bjór og bjórsölu. Einnig var hann ósáttur við framkomu eins ákveðins spilara gagnvart keppnisstjóra. Hann fékk þau svör að vínneysla væri spilurum bönnuð í Íslandsmótum. Keppnisstjóri hafði enga vitneskju um bjórneyslu, óskaði eftir að honum yrði gert viðvart ef slíks yrði vart. Margir ræddir neyslu áfengis í einstökum klúbbum. Ráð frá óvirkum alkóhólistum eru þau að alkóhólistar sem mæta í spilamennsku er ekki neinn greiði gerður með því að veita þeim aðgang að víni, nógu erfitt sé samt fyrir þá að höndla sín mál.

Gunnar Björn veltir því upp hvort ekki sé erfitt að byrja á hausti þegar langt er liðið á haustið, allt sé búið að skipuleggja. Betra væri ef til vill að kjósa stjórn að vori.

Keppnisreglugerð og alert-reglur. Vigfús fór yfir helstu breytingar í keppnisreglugerð. 1. Nú þegar eru komnar í framkvæmd breytt fyrirkomulag á Íslandsmótinu í tvímenningi. 2. Litlar breytingar á bikarkeppni. 3. Samræmdar reglur um hvernig á úrskurða ef tveir eða fleiri eru jafnir í móti. Ekki þarf lengur að hafa þetta í mótareglugerðum.

Alert-reglur. Nauðsyn vegna þróunar í meldingum veldur þörf á breytingum hér. 1. Yfirlýsingar: makker upplýsir styrk á opnun á einu grandi, Þetta fyrirkomulag er nú þegar í notkun í USA. 2. Ekki þarf að alerta Stayman og yfirfærslur eftir eitt grand  en aðrar óeðlilegar þarf að alerta. 3. Alerta þarf sterka lauf- og tígulopnun

Nota þarf alert á dobl /redobl ef merkingin er óhefðbundin

Einnig skal alerta ef hætta er á misskilningi mótherja eða grandaleysi. Einnig er áréttað að sá sem alertar ber ábyrgð á að mótherjar taki eftir alerti

Keppnisreglugerð samþykkt með þorra atkvæða.

Þorvaldur minnir á að alertreglur þurfi góða kynningu í félögum

Garðar bað fundarmenn að klappa fyrir frábærri frammistöðu Jafets í fjáröflun.

Jón Baldurs sagðist hafa lesið kennsluritið yfir vildi hrósa öllum sem lögðu hönd á plóg. Styður einvald fyrir landslið, hér þó minna aðkallandi í þetta verkefni.

Að lokum fékk Jafet orðið og þakkaði góðan fund og stuðning. Minnti á nýtt kennslurit sem GPA gaf út í vor. Bað fleiri að leggja hendur á plóginn til að hafa áhrif á fjárlaganefnd. Að þessu mæltu sleit hann þinginu.

Jörundur

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar