Stjórnarfundur 13.sept 2012

föstudagur, 14. september 2012

8.fundur í stjórn Bridgesambandi Íslands haldinn fimmtudaginn 13. sept, 2012 kl. 16.00

Allir voru mættir nema Örvar sem boðaði forföll.

1. Fundargerð síðasta fundar samþykkt

2. Umræðufundur um bridgemálefni þann 6. sept. Ragnar Hermannsson vakti máls á því um daginn hvort ekki væri kominn tími til að menn settust niður og ræddu stöðu briddsins á Íslandi. Slíkt málþing krefst undirúnings og talsverðar gagnaöflunar. Kalla þarf eftir greinargerðum fyrrverandi landsliðsfyrirliða og hvernig undirbúningi var háttað bæði þegar vel og illa gekk. Taka þarf saman hvernig var staðið að vali liðsins. Ágætt að skoða árangur landsliðsmanna á mótum hér heima hverju sinni og meta virkni þeirra við græna borðið. Með slíkri forvinnu er von til þess að málþing skili niðurstöðu sem hægt er að byggja á framtíðarvinnu. Varla var hann búinn að ýta á enter takkann á tölvunni þegar Vigfús boðaði hann o.fl. á málþing. Því miður komst hann ekki sjálfur í þetta skiptið. Menn tóku sem sagt mikinn kipp 1,2 og þrír. Mættir voru Jafet, bræðurnir Guðmundur og Jón Baldurssynir, Sveinn Rúnar, Júlli, Hemmi Friðriks, Vigfús og Þröstur. Hefði verið gaman að sjá fulltrúa hörðustu gagnrýnanda s.s. Jón Þorvarðar eða Pál Þórsson. Jafet punktaði hjá sér sjónarmið manna og greindi einnig frá hvernig landsliðsmálum verður háttað í vetur. Jón Baldursson upplýsti einnig margt um landsliðsmálin. Fundarstjóri var Guðm Baldursson.

3. Landsliðsmál -2012-2013. NM í bridge verður haldið hér á landi í maí 2013. Til undirbúnings mun BSÍ standa fyrir æfingum sem hefjast í lok september, stefnt að því að 6-8 pör verði í þessu æfingaferli bæði fyrir opinn flokk og kvenspilara eða 12-16 pör samtals. Auglýst verður eftir pörum sem áhuga hafa á þessu verkefni, bæði á heimasíðu BSÍ og með póstsendingum á bridgespilara. Verði niðurstaðan að fleiri en 8 pör koma fram í hvorum hóp þá verður að keppa um þessi 8 sæti. Æfingar verða hálfsmánaðarlega með heimavinnu o.fl. Yfirumsjón með þjálfun hefur Guðmundur Páll Arnarson og honum til aðstoðar verða Sveinn R Eiríksson og Ásgeir Þ Ásbjörnsson sem og landsliðsnefndin. Í lok febrúar og byrjun mars 2013 verða haldin tvö mót, efstu þrjú pör í hvorum flokki mun skipa landslið Íslands á NM. Æfingar halda síðan áfram með pörunum sem skipuðu efstu sætin þrjú.

4. Auglýsing - kynning á bridge, birtist 15. sept bæði í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Bridgeskólinn sömuleiðis kynntur.

5. Bæklingur um bridge er í lokafrágangi. Samþykkt að skipta bæklingnum í tvennt enda fyrri hluti virðist eingöngu stílaður á leiðbeinandann. Seinni hlutinn snýr að sjálfu náminu. Rætt um að seinni hlutinn fái nafnið Lærðu bridge eða eitthvað sambærilegt enda ef til vill liprara en Bridge - nýliðun. Stefnt að því að hann komi út 10.okt 2012.

6. Samstarf við BR - BR ráðgerir að vera með sex eða fleiri fyrirlestra eða bridgekennslu á þriðjudögum áður en hefðbundin spilamennska hefst. Þeir hafa leitað eftir fjárstuðningi við þetta verkefni. Samþykkt að taka frá krónur 30 þúsund í þetta verkefni.

7. Reykjavík Bridge Festival. Góð kynning hefur fengist bæði á EM og á Ólympíumótinu. Mikill áhugi er fyrir mótinu og spurning hvort nægilegt rými sé fáanlegt á Loftleiðahóteli. Nýbakaðir heimsmeistarar sem skráðir eru í Mónakó hefur sýnt mótinum mikinn áhuga - Zia einnig líklegur. Keppnisgjöld ákveðin 28 þúsund á parið en góður afsláttur veittur fyrir félagsmenn í BSÍ. Rætt var um setningu mótsins og vonast eftir að hæstvirtur forseti landsins sjái sér aftur fært að heiðra samkomuna

8. Ársþing BSÍ - undirbúningur. Jafet flytur ársskýrslu og ræða húsnæðismál. Vigfús mun koma með tillögur um breytingar á keppnisreglugerð og fylgja því eftir en að undanförnu hefur hann stýrt vinnu í laga og keppnisreglugerðarnefnd. Formenn nefnda munu greina frá nefndastarfi. Einnig rætt um um aðra dagskrárliði og fundarstjórn og ritun. Nánar rætt á næsta fundi 18.okt.

9. Árlegt boð fyrir fjóra yngri spilar til Azoreyja. BSÍ mun greiða fyrir flug Keflavík - London fram og til baka. Valdir þátttakendur eru : Fjölnir Jónsson, Ingólfur Páll Matthíassson, Tómas Þór Þorsteinsson og Benedikt Bjarnason.

10.Önnur mál. Jón Baldursson og Þorlákur Jónsson hafa þegið boð á sterkt mót í Tívolí í Kaupmannahöfn, verndari mótsins er Henrik prins. Samþykktur flugstyrkur.

Örvar sendi skeyti á fundinn um mikilvægi þess að hefjast þegar handa við að ráða leiðbeinanda til starfa til að sinna nýliðunarkennslu. Guðný og Helga munu hafa samband við formenn nemendafélaga í nokkrum framhaldsskólum (MR, VÍ, Kvennó, MS og fleiri) og bjóða kennslu í húsnæði BSÍ.

Jafet hefur kynnt sér ný fjárlög sem nú eru til umræðu á hinu háa Alþingi. Hann lagði fram á fundinum samanburð fjárframlaga 2009-2013 fyrir ÍSÍ, UMFÍ Skáksambandið og BSÍ. Þar er 41% lækkun framlaga til BSÍ meðan 20% hækkun er til Skáksambandsins auk þess sem stórmeistarar eru á launum sem og framlag er til Taflfélags Reykjavíkur. Áætlað framlag nú er 8,0 millj. 2012 fengum við 8,2 og tvívegis aukaframlag enda mjög kostnaðarsamt ár.

Vigfús I Pálsson hefur óskað eftir styrk vegna keppnisstjóranámsskeiðs á vegum EBL sem haldið verður 30.jan til 3. feb. 2013 á Avendi Hotel, Bad Honnef - Þýskalandi. Samþykkt var að greiða allan ferðakostnað fyrir hann á þetta námskeið.

Rætt var um undirbúning fyrir NM, vantar tengilið.

Næsti fundur verður fimmtudaginn 18. okt kl 16

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar