Ársþing BSÍ 17.október 2010

mánudagur, 18. október 2010

62. ársþing Bridgesambands Íslands

Haldið í Síðumúla 37 sunnudaginn 17. Október kl. 12:00

1.       Þingsetning.

Þorsteinn Berg forseti BSÍ setur þingið og biður fundargesti velkomna. Biður hann fundargesti að minnast þriggja látinna félaga með stuttri þögn, Kristjáns Kristjánssonar sem var formaður Bridgefélags Suðurnesja, Gylfa Baldurssonar fyrrverandi formanns Bridgefélags Reykjavíkur og Trausta Finnbogasonar fyrrverandi formanns Bridgefélags Kópavogs.

 

2.       Kosning fundarstjóra, fundarritara svo og þriggja manna kjörbréfanefndar.

Forseti leggur til að Guðmundur Baldursson verði fundarstjóri, Ómar Olgeirsson fundarritari og í kjörbréfanefnd Erla Sigurjónsdóttir, Frímann Stefánsson og Heimir Tryggvason. Samþykkt með lófataki.

3.       Kjörbréf þingfulltrúa athuguð og úrskurðuð.

Gert stutt kaffihlé á meðan kjörbréfanefnd skoðar kjörbréf. Frímann kynnir niðurstöðurnar, 19 þingfulltrúar með 27 atkvæði, 1 áheyrnarfulltrúi.

4.       Kosning þriggja manna uppstillingarnefndar og annarra nefnda ef þurfa þykir.

Árni Már Björnsson, Helgi Bogason og Þorvaldur Pálmasson kosnir með lófataki.

5.       Stjórnin gefur skýrslu um starfsemi sambandsins frá síðasta þingi.

Þorsteinn Berg forseti gefur skýrslu og byrjar á því að lýsa yfir ánægju með að þátttaka hefur almennt aukist hjá félögum og í mótum á vegum BSÍ. Í fjárlagafrumvarpi fær BSÍ úthlutað 8,4 milljónum kr. sem er lækkun um 25% frá fyrra ári. Gerður var samningur við Iceland Express um 1.200 þús kr. flugmiðastyrk sem hefur nýst vel fyrir landsliðsverkefni. Stærstu mótin eru kennd við Iceland Express, þ.e. deildarkeppni, Íslandsmót og Bridgehátíð. Á heimasíðu bridge.is má panta flug og rennur hluti af sölunni til BSÍ ef pantað er í gegnum þann hlekk. Fyrirkomulag sumarbridge var það sama og síðast, Sveinn Rúnar Eiríksson sá um það. Þátttaka var almennt afar góð, að meðaltali um 30 pör og mest 40 pör. Getraunadeildin hefur skilað miklu, eða um 4 millj. kr. Lengi hefur verið áhyggjuefni hversu lítil endurnýjun hefur átt sér stað undanfarin ár. Stjórnin hefur fengið Hjálmtý Baldursson til að fara í framhaldsskóla fá skólana til að halda bridgenámskeið, útvega efni til kennslunnar o.fl.

Varðandi húsnæðismál, þá var ákveðið að skoða samstarf við Skáksamband Íslands, mætti bæta nýtingu á húsnæði fyrir báða aðila. Skáksamandinu hefur gengið vel að koma fréttum í fjölmiðla og má segja að lykilatriðið hjá þeim er að forsetinn skrifar fréttirnar sjálfur og sendir á fjölmiðla. Má bæta úr þessu hjá BSÍ.

Landsliðsmál. Fyrir ári síðan var ákveðið að koma á landsliðsnefnd, pörum var boðið að sækja um, þ.e. þeim sem hefðu áhuga á að komast í landslið bæði í opnum flokki og kvennaflokki. Valdi landsliðsnefnd svo landslið. Telur stjórnin að þetta fyrirkomulag hafi heppnast afar vel, að skapast hafi friður í kringum landsliðsmálin. Árangurinn var afar góður á Evrópumótinu þar sem Ísland náði 4.sæti og tryggði sér í fyrsta skipti frá 1991 keppnisrétt um Bermúdaskálina. Fylgja þarf eftir þeim góða árangri og vekja athygli á þessu í fjölmiðlum.

Búið er að skipa nýja landsliðsnefnd fyrir þetta tímabil, og sjá Einar Jónsson og Guðmundur Páll Arnarson um æfingar.

Að lokum þakkar Þorsteinn stjórn BSÍ samstarfið og þakkar fyrir að honum hafi verið treyst fyrir þessu embætti. Hyggst Þorsteinn ekki gefa kost á sér áfram sem forseti.

6.       Formenn fastanefnda gefa skýrslu um starfsemi nefndanna.

Alfreðssjóður: Garðar Garðarsson tilkynnir það að í bankahruninu hafi inneign sjóðsins lækkað úr um 700 þús. í um 400 þús. Engar úthlutanir voru úr sjóðnum á þessu starfsári en sjóðurinn er ætlaður fyrir nýliðastarf. Alfreð Alfreðsson var forseti BSÍ 1980 og var sveitarstjóri í Sandgerði.

Sveinn Rúnar Eiríksson gefur skýrslu fyrir nokkrar nefndir:

Húsnæðisnefnd - Búið að ræða við Gunnar Björnsson forseta Skáksambands Íslands um samstarf. Með því að sameina Skáksambandið og Bridgesambandið í eitt húsnæði má ná fram hagræði og hægt væri að halda stærstu mót beggja aðila í þessu húsnæði, einnig að skipuleggja klúbbakvöldin þar. Fundur með Skáksambandinu og taflfélagi Reykjavíkur á morgun, 18. okt.

Dómnefnd - Vigfús Pálsson hefur sett á spjallið á bridge.is þá dóma sem áfrýjað hefur verið til dómnefndar.

Bridgehátíðarnefnd - Nýtt samstarf við Iceland Express eftir áralang samstarf við Icelandair. Bridgehátíð kom vel út síðast.

Laga- og keppnisreglunefnd - Ekki voru gerðar neinar breytingar á keppnisreglum á þessu starfsári.

Guðný Guðjónsdóttir - Fjölmiðlanefnd:

Í tenglum við Evrópumótið voru sendar út fréttatilkynningar á marga fjölmiðla. Lítill áhugi hjá flestum nema hjá mbl.is en þegar fór að líða á mótið þá komu örar fréttir af gengi Íslands þar.

Þarf að vekja athygli fjölmiðla á Bermudaskálinni á næsta ári. Ná þarf betra sambandi við fjölmiðlamenn og væri gott ef einhverjir gætu hjálpað til við það.

Garðar Garðarsson - Meistarastiganefnd:

Nokkuð hefur verið rætt um meistarastig á spjallsvæði bridge.is sem er gott mál. Meðal annars hefur Frímann Stefánsson komið með hugmynd um breytingar sem eru þannig að sá sem nær 1000 stigum fær eina stjörnu, 2000 stig þá 2 stjörnu, 3000 stig 3 stjörnur osfrv. Nú eru stórmeistarar með 500 stig orðnir talsvert margir. Sambærilegt stjörnukerfi er á Norðurlöndum.

Minna þarf félög á að biðja BSÍ að taka út látna félaga úr meistarastigaskránni. Garðar kynnir hugmynd um að byrjendur fengju 1 bronsstig fyrir að mæta, þ.e. þeir spilarar sem ekki hafa fengið laufnál(200 bronsstig). Þetta gæti vakið áhuga nýliða að fá umbun fyrir að mæta. Varðandi nýliðun þá minnist Garðar á að á Suðurnesjum sé Hjálmtýr Baldursson með 12 manna námskeið, þar af eru 8 konur.

7.       Reikningar sambandsins lagðir fram með athugasemdum.

Þorsteinn Berg ber upp reikningana í fjarveru Stefaníu Sigurbjörnsdóttur bókara BSÍ.

Fundarstjóri gefur orðið laust fyrir umræður um reikninga og störf nefnda

Gunnlaugur Karlsson  landsliðsnefnd og bridgehátíðarnefnd:

Verið er að lengja Bridgehátíð, síðast var í fyrsta spilað hjá Bridgefélagi Reykjavíkur og Miðvikudagsklúbbnum á Hótel Loftleiðum. Komið hefur upp hugmynd um að bæta við bridgehátíð eldri borgara. Þannig að mótið er að þróast í að vera festival í heila viku.

Varðandi erlenda gesti þá er erfitt fyrir þá að finna út hvenær og hvar þeir geta spilað. Öll síðan er á íslensku fyrir utan enska síðu um Bridgehátíð. Mætti setja upp hlekk á ensku með upplýsingum um bridgefélögin, spilastað og tíma.

Það mætti kynna betur að þegar flug er pantað hjá Iceland Express í gegnum hlekk á bridge.is sé verið að styrkja Bridgesambandið.

Landsliðsnefnd - Gunnlaugur telur að skiptir miklu máli að hafa 5-6 pör í A-hópi og skapa verkefni fyrir þau. Til dæmis hafi komið í ljós að æfingamót í Bonn og Hollandi hafi skilað sér í að pörin sem fóru á Evrópumótið komu vel æfð til leiks. Leggur til að haldið verði áfram á sömu braut.

Erla Sigurjónsdóttir - Líst vel á bridgehátíð eldri spilara. Vill að haldið sé utan um stig látinna spilara, e.t.v. sérstök skrá, þannig að stigin týnist ekki a.m.k.

Helgi Bogason - Lýsir yfir ánægju með árangur á rekstri sambandsins og minnir á að verið sé að skera niður í fjárlögum og erfitt verði að fá hærri úthlutun. Líst vel á samstarf við skáksambandið, væri æskilegt að vera á 1.hæð og með næg bílastæði. Síðumúli ekki hentugt húsnæði.

Frímann Stefánsson - Minnir á tillögu sína um ítarlegri flokkun á stórmeisturum og býður sig fram í meistarastiganefnd. Lýsir yfir áhyggjum af nýliðun, þó að þátttaka hafi verið betri fyrir sunnan þá eru bridgefélög á Norðurlandi í vandræðum. Þetta sleppur á Akureyri en bridgefélagið á Húsavík er hætt og við það að hætta á Dalvík.

Sveinn Rúnar Eiríksson - Minnir á að dýrt að breyta meistarastigaforritinu. Mætti hugsanlega búa til nýtt kerfi er hagstætt tilboð fæst.

8.       Lagabreytingar.

Sveinn Rúnar Eiríksson og Jörundur Þórðarson með tillögu um að heiti á áfrýjunarnefnd verði breytt í dómstóll BSÍ. 6. Kafli, 14. og 15. grein.

Þetta var samþykkt.

9.       Kosning aðalstjórnar og varastjórnar skv. 5. grein

Árni Már kynnir tillögu uppstillingarnefndar:

Jafet S. Ólafsson forseti

Jörundur Þórðarson

Sveinn Rúnar Eiríksson

Guðný Guðjónsdóttir

Garðar Garðarsson

Varamenn:

Kristinn Kristinsson

Árni Már Björnsson

Samþykkt með lófataki.

10.   Kosning áfrýjunarnefndar BSÍ skv. 15. grein.

Gerð er tillaga um:

Þorsteinn Berg

Helgi Bogason

Kristján Már Gunnarsson

Guðmundur Baldursson

Jón Þorvarðarson

Ragnar Magnússon

Bjarni H. Einarsson

Samþykkt með lófataki.

 

11.   Kosning löggilts endurskoðanda.

Mælt með Guðlaugi R. Jóhannssyni. Samþykkt með lófataki.

12.   Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.

Mælt með Páli Bergssyni og Hallgrími Hallgrímssyni.

Til vara Sigurjón Harðarsson og Helgi Bogason. Samþykkt með lófataki.

13.   Ákvörðun árgjalds.

Óbreytt hausagjald 110 kr/spilara á hverju spilakvöldi.

14.   Önnur mál, sem löglega eru fram borin.

Þorvaldur Pálmason - Þakkar stjórn BSÍ og sér í lagi Þorsteini Berg fyrir vel unnin störf, óskar nýjum forseta og stjórn til hamingju með kjörið.

Fræðslunefnd- Settur var á fót kynningar- og fræðsluvefur, gagnagrunnstengdur vefur. Vefurinn heitir Bridgetorg og finna má hlekka á heimasíðu bridge.is. Finna þarf leiðir til að nýta frekar og efla nýliðun og fræðslustörf.

Sveinn Rúnar - Umferð um heimasíðu hefur aukist um 72% milli ára fyrir tímabilið 14.8-16.10 sem dæmi(dreift á þingfulltrúa) Fleiri félög sem setja inn úrslit og fréttir á bridge.is. Um 2100 heimsóknir voru á bridge.is lokadaginn á Evrópumótinu.

Kristján Már Gunnarsson - Minnir á að taka þarf föstum tökum á útbreiðslumálum. Gert var átak í framhaldsskólum þegar Jón Sigurbjörnssn var forseti, gott mál að standi til að gera nýtt svona átak. Sem dæmi þá sér Helgi Hermannsson um námskeið í FSU á Selfossi.

Hugmynd að hafa deildakeppnina á einni helgi, erfiðara fyrir landsbyggðasveitir að taka þátt þegar tvær helgar. Einnig mætti fyrirkomulagið vera þannig að sveitir fari á milli deilda eftir fyrri helgina.

Erla Sigurjónsdóttir - Fá þarf einhvern til að halda áfram að skrifa sögu BSÍ sem Þórður Sigfússon var byrjaður á. Það eiga að vera til gögn frá honum hjá BSÍ.

Vigfús Pálsson - Búið er að þýða nýju bridgelögin en ekki búið að gefa þau út. Er í prófarkalestri en öll skjöl eru nú aðgengileg á bridge.is.

Þorsteinn Berg - Fyrirspurn frá Ásgrími Sigurbjörnssyni:

Varðandi bikarkeppni. Ef sveit á útileik langt í burtu er þá ekki sjálfgefið að eigi heimaleik næst?

Sveinn Rúnar svarar fyrirspurn: Búið að breyta þannig að núna bara talið hvor sveitin hafi átt fleiri útileiki. U.þ.b. 10 ár síðan var hætt að nota reglu um kílómetra.

Ólöf Þorsteinsdóttir les upp ávarp frá Jafet S. Ólafssyni nýkjörnum forseta BSÍ sem gat því miður ekki komist á þingið.

Ólöf afhendir Þorsteini Berg blómvönd og þakkar fyrir samstarfið.

Þorteinn Berg þakkar framkvæmdastjóra og stjórn fyrir samstarfið og slítur þinginu.

 

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar