Fundargerð ársþings 2005

sunnudagur, 16. október 2005
Fundargerð ársþings BSÍ, 16. október 2005   Dagskrá


1.    Þingsetning
2.    Kosning fundarstjóra, fundarritara svo og þriggja manna kjörbréfanefndar.
3.    Kjörbréf þingfulltrúa athuguð og úrskurðuð.
4.    Kosning 3ja manna uppstillinganefndar og annarra nefnda ef þurfa þykir.
5.    Stjórn gefur skýrslu um starfsemi sambandsins frá síðasta þingi.
6.    Formenn fastanefnda gefa skýrslu um starfsemi nefndanna.
7.    Reikningar sambandsins lagðir fram með athugasemdum endurskoðenda til úrskurðar.
8.    Lagabreytingar.
9.    Kosning aðalstjórnar og varastjórnar samkvæmt 5. grein.
10.  Kosning áfrýjunarnefndar skv. 15. grein.
11.  Kosning löggilts endurskoðanda.
12.  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga     sambandsins og tveggja til vara, sbr. 9. grein.
13.  Ákvörðun árgjalds.
14.  Önnur mál, sem löglega eru fram borin.

 Fundargerð

  1. Kristján B. Snorrason setur þingið. Gefur ekki kost á sér áfram. Minnist látinna félaga.

  2. Helgi Bogason kosinn fundarstjóri og Frímann Stefánsson fundarritari. Kjörbréfanefnd skipuð, Ólafur A. Jónsson, Guðlaugur Bessason og Sigtryggur Sigurðsson.

  3. Ólafur A. Jónsson gerir grein fyrir störfum kjörbréfanefndar. Mættir eru fulltrúar með umboð 22. manna, en 57 fulltrúar höfðu seturétt á þinginu.

  4. Uppstilingarnefnd skipuð: Ómar Olgeirsson, Ólafur Steinason, Helgi Bogason.

  5. Skýrsla stjórnar flutt af Kristjáni forseta. Hann skýrði málefni fráfarandi framkvæmdastjóra sem voru stokkuð upp. Framkvæmdastjóri sagði upp frá 1. febrúar sl. og starfsmenn ráðnir í hennar stað til bráðabirgða. 1. október var Ísak Örn Sigurðsson ráðinn framkvæmdastjóri. Kristján var á því að mikilvægt væri að senda alltaf landslið út. Í því er fólginn heiður. Minntist einnig á nauðsyn þess að taka vel á móti erlendum gestum sem hingað komi til lands. Kristján taldi að búa þurfi til vinnuferli fyrir Bridgehátíð. Minntist á fræðslumálin og að sennilega megi betur gera í þeim málum, en jafnfram var Kristján vongóður um að fjárveiting fáist frá fjárveitingavaldinu til 2-3 ára um nauðsynlegt fjármagn til ráðningar fræðslufulltrúa í hálft starf. Ómar Olgeirsson gaf út mótsblað á Íslandsmótinu í sveitakeppni sem þótti vel heppnað. Kristján talaði um að leggja þurfi meiri áherslu á erlendi samskipti. Leggur til kaup á bridgetölvunum "Bridgemate" fyrir Bridgehátíð. Minntist einnig á að Félagakerfið muni batna eftir áramót og ný heimasíða Bridgesambandsins væri handan við hornið, gæti verið sett á laggirnar í næstu viku. Varpaði fram þeirri spurningu hvort stefna beri að netmóti í bridge á Íslandi þar sem Swan games forritið yrði notað. Minntist á að unga fólkið sé mjög áhugasamt um að notfæra sér nýjustu tækni. Kristján vék að vali á landsliðum og það væri alltaf umdeilt, valið þurfi að vera vel rökstutt og sanngjarnt. Hann minntist jafnframt á nauðsyn þess að fá ljósmyndaskreytingar á vegg Bridgesambandsins í Síðumúla. Einnig að skoða þurfi hugmyndir um nýtt húsnæði, taldi húsnæðið í Síðumúla óhentugt á marga vegu, meðal annars vegna skorts á bílastæðum. Kristján minntist á að starf forseta væri viðamikið og það var hans skoðun að starfið ætti að vera hluta til launað. Færeyingar hafa sótt um að fá að taka þátt í kjördæmamótinu og væri það góð hugmynd, þá myndu 10 "kjördæmi keppa" og bæta þyrfti við einu kjördæmi á Íslandi sem gæti kannski verið landsliðin. Kristján þakkaði að lokum fráfarandi stjórn og öðrum fyrir samstarfið á tíma hans sem forseta. Efnt var til umræðna undir þessum dagskrárlið og tók Ólafur A. Jónsson til máls. Ræddi málefni eldri borgara og versnandi stöðu bridge. Gylfi Baldursson frá BR minntist á að þegar BR hefði tekið ákvörðun um að eldri borgarar yrðu aðeins rukkaðir um hálft spilagjald, hefði það ekki skilað sér í aukningu eldri borgara. Gylfi minntist á nauðsyn réttarar markaðssetningar og vildi meina að bridgespilarar væru lélegir markaðssetjar. Bridgesambandi Íslands vanti málgagn. Hann vil jafnframt umbuna stórnarliðum innan Bridgesambandsins. Páll Þórsson sté í pontu og kvartaði um að hann hefði oft sótt þing Bridgesambands Íslands og því miður heyrði hann alltaf sömu tugguna. Minnst væri á ýmislegt gottt en aðgerða væri þörf. Mikilvægt væri að ná upp betri stemningu meðal bridgespilara og að gera þurfi vel við alla þá sem spili. Kristján forseti tók aftur til máls og minntist á þörfina til að nýta betur húsnæði BSÍ yfir daginn. Kristján Blöndal gat um nauðsyn þess að gera bridgemót skemmtileg og vill að eitthvað verði gert til að þjónusta betur eldri borgara. Kristján Blöndal sagðist einnig vera stuðningsmaður þess að veitt verði á mótum aukaverðlaun fyrir ákveðna hópa (konur. Yngri spilara, eldri spilara o.s.frv.). Eiríkur Hjaltason vill að bætt verði viðmót gagnvart yngri spilurum sem mæti oft óviðunandi hegðun við spilaborðið. Eiríkur sagði að landslið í keppnir væru nauðsynleg, en val á þeim væru oft undarleg. Kristján forseti sté aftur í pontu og vill að eftirlit með "nýliðum" verði sett í verklýsingu keppnisstjóra. Hann minntist einnig á að Danir hefðu boðið þremur íslenskum sveitum á Bridge Festival í Vingsted næsta sumar. Viðskiptaháskólinn að Bifröst hefði einnig boðist til þess að gera úttekt á húsnæði og fleira í rekstrarþáttum BSÍ án nokkurs gjalds. Ísak Örn gat þess varðandi samskipti við fjölmiðla að það sé nauðsynlegt fyrir aðila innan bridgehreyfingarinnar að framreiða allt fréttaefni fulltilbúið í fjölmiðlana - án þess fengist lítið sem ekkert birt.

  6. Næsta dagskrárliður var skýrsla mótanefndarmanna um starfsemi nefndanna. Sveinn Rúnar gat þess að 10 undanþágubeiðnir hafi verið teknar fyrir og engum úrskurðum áfrýjað. Kristján B. Snorrason, formaður laga- og keppnisreglunefndar, gat þess að reglugerð deildarkeppninnar hefði verið uppfærð á netinu. Til skoðunar hafi komið að í einstaka tilfellum verði gefin viðvörun á dobl, þegar þýðingin er óvenjuleg. Kristján gaf einnig skýrslu um starfsemi Heiðursmerkjanefndar og gat þess að ekki stæði fyrir nein útnefning á þessu þingi. Ómar Olgeirsson úr Meistarastiganefnd nefndi að komið hefðu fram hugmyndir um að leggja meira áherslu á stigakerfið og viðurkenningar fyrir unna áfanga. Það væri af hinu góða. Meistarastiganefnd yrði virkari í þá átt í framtíðinni.-Dómnefnd. Sveinn Rúnar sagðu afgreiðslur hafa gengið vel. Vinnulag og meðferð mála þufti að vera skýrt

7.  Gjaldkeri sagði frá að aðeins uppkast að reikningum væri hægt að        leggja fyrir þar sem þeir væru ekki tilbúnir og að í þeim væru augljósar villur. Lagði til að þeir yrðu samþykktir með fyrirvara (dró síðar til baka). Kristján S. skýrði málið. Sagði mann hafa verið fenginn í verkið sem alls ekki hefði staðið við sitt og líkti þessu við skemmdarverk. Lýsti málsatvikum í smáatriðum m.a. að ítrekað var ekki staðið við loforð um skil og hefðu reikningar lokst borist síðla nætur kvöldið fyrir þing ókláraðir. Samt hefði sá hinn sami gefið sér tíma til að taka þátt í einmenningnum um helgina. Ólafur Steinason sagði ekki hægt að samþykkja reikningana og að framhaldsþing þyrfti. Kristján Már sammála því. Kristján forseti líka sammála. Ekki hægt að samþykkja ranga reikninga. T.d. ætti BSÍ að vera í hagnaði en reikningar sýndu annað. Ólafur A. Jónsson sagði ekki hægt að samþykkja reikninga svona. Guðmundur gjaldkeri segir ýmsa misbresti á tekjuhlið. Leggur til framhaldsþing. Helgi Boga fundarstjóri las upp tillögu sem gerð hafði verið um framhaldsþing þar sem 7. liður væri tekinn fyrir sunnudaginn 6.nóv kl 9.00. Hún var samþykkt.

8. Engar lagabreytingar

9. Kosningar. Guðmundur Baldursson var kosinn nýr forseti BSÍ með lófataki. Tillaga uppstillingarnefndar fyrir stjórnarkjör var samþykkt.

Tillaga uppstillingarnefndar var eftirfarandi:

 Forseti: Guðmundur Baldursson
Aðalstjórn til 2 ára: Kristján Blöndal, Halldóra Magnúsdóttir, Ómar Olgeirsson.
Aðalstjórn til 1. árs: Hrafnhildur Skúladóttir, Páll Þórsson
Varastjórn til 1 árs: Sveinn Rúnar Eiríksson, Svala Pálsdóttir, Frímann Stefánsson.
Eftir situr á seinna ári: Helgi Bogason

 10. Óbreytt nefnd samþykkt.

 11. og 12. Samþykkt.

13. Óbreytt árgjald með möguleika stjórnar á lækkun til ákveðinna hópa samþykkt.

14. Önnur mál.

Guðmundur Baldursson þakkar traustið og líst vel á samstarfsfólk í stjórninni.
Frímann Stefánsson óskar nýrri stjórn góðs og býður spilara velkomna á kjördæmamót á Hótel KEA, Akureyri næsta vor. Vonast til að sjá þar Færeyinga. Kristján forseti vill breyta reglugerð kjördæmamóts, fjölga sveitum í 10 og fá þar Færeyinga og e.t.v. eina sveit skipaða landsliðunum.

 Gylfi Baldursson vill ekki að heiðursmerki sé aðeins hægt að veita fólki á lífi. Vill eins konar "Hall of Fame"

Kjartan spyr: Munum við þurfa að fara til Færeyja? Kristján forseti telur ekki koma til þess. Kjartan leggur einnig til að heimakjördæmi borgi ekki keppnisgjöld þar sem dýrt sé að halda mótin.

 Helgi Bogason ber upp tillögu um að þingið veiti umboð til að fjölga sveitum á kjördæmamóti í 10 og var hún samþykkt. Helgi Bogason ber einnig upp tillögu um að þingið vísi til laga- og keppnisreglugerðarnefndar að fella niður keppnisgjöld heimakjördæmis á kjördæmamótum og var hún samþykkt.

Eiríkur Hjaltason vildi endurskoða fyrirkomulag Íslandsmótsins í tvímenningi og urðu umræður um stöðu þess fyrr og síðar. Ýmsir tóku til máls til varnar núverandi kerfi m.a. Frímann Stefánsson, Páll Þórsson og Sveinn Rúnar Eiríksson.

Samþykkt var að veita Ásmundi Pálssyni heiðursmerki BSÍ

Kristján S þakkar fyrir sig  og óskar nýjum forseta og nýrri stjórn til hamingju.

Guðmundur Baldursson frestar þingi til 6.nóvember kl 9.00.

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar