10. janúar 1996

miðvikudagur, 10. janúar 1996

Stjórnarfundur BSÍ 10. janúar 1996

Mættir á fundinn: Kristján Kristjánsson forseti, Guðmundur Páll Arnarson, Ólafur Steinason, Ragnar Magnússon, Sigrún Pétursdóttir, Stefanía Skarphéðinsdóttir, Þorsteinn Berg, Sólveig Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri og Elín Bjarnadóttir fráfarandi framkvæmdastjóri.

1. Fræðslumál.

Guðmundur Páll greindi frá því að fyrirhugað væri að halda ókeypis námskeið fyrir 12-16 ára unglinga í febrúar nk. Leitað verður til eftirfarandi aðila um stuðning: Samvinnuferða/Landsýnar, Bridgefélags Reykjavíkur, BSÍ og Bridsskólans.

2. Landsliðsmál.

Guðmundur Sveinn var fjarverandi, en frá honum lá tillaga þar sem hann mælti með því að kvennalandslið yrði sent á Norðurlandamót í vor, en ákvörðun um þátttöku á ÓL nk. haust verði frestað um sinn. Var það samþykkt.

3. Bridgehátíð.

Tvímenningur Bridgehátíðar verður með Barometer/Monrad-sniði og hámarksþátttaka er 120 pör. Keppnisgjald verður óbreytt frá fyrra ári, eða 10 þúsund á par.

4. Bridgesagan.

Þórði Sigfússyni miðar vel að safna bridsefni úr gömlum dagblöðum. Hann reiknar með að ljúka söfnun fram til 1960 í fyrsta áfanga (fjórir mánuðir).

5. Útbreiðslumál.

* Kristján Kristjánsson greindi frá fundi þriggja stjórnarmanna (KK, GPA og ÞB) með stjórn Bridgefélags Reykjavíkur þriðjudaginn 9. janúar. Fundurinn var gagnlegur og þar komu fram hugmyndir um samvinnu á ýmsum sviðum. BR lýsti yfir áhuga á að fjölga síðum í textavarpi, svo nýta nætti textavarpið til að greina frá úrslitum í mótum BR. Var samþykkt að fela Önnu Ívarsdóttur og Elínu Bjarnadóttur að kanna málið með það að markmiði að auka rými bridshreyfingarinnar á textavarpinu.

* Þorsteinn Berg taldi í framhaldi af þeim fundi, að stjórn BSÍ væri svolítið einangruð og ætti að leitast við að kynna hinum almenna félagasmanni störf sín betur. Taldi Þorsteinn til dæmis að fundargerð bærist ekki nógu víða. Var samþykkt að fela framkvæmdastjóra að útbúa upplýsingamöppur, sem lægju fyrir í setustofum í Þönglabakka.

* Umsókn um húsnæðisstyrk barst frá Bridsfélagi Suðurnesja, Bridsfélaginu Muninn og Hestamannafélaginu Mána, en þessi þrjú félög hafa sameiginlega reist 400 fermetra félagsheimili að Mánagrund. Húsið var að mestu leyti byggt í sjálfboðavinnu, en húgögn vantar fyrir 1,2 milljónir, svo hægt sé að hefja þar starfsemi.

Var samþykkt að styrkja félögin til kaupa á einu borði og fjórum stólum.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar