13. desember 1995

miðvikudagur, 13. desember 1995

Stjórnarfundur BSÍ 13. desember 1995

Mættir á fundinn: Kristján Kristjánsson forseti, Ásgrímur Sigurbjörnsson, Guðmundur Páll Arnarson, Guðmundur Sveinn Hermannsson, Ólafur Steinason, Ragnar Magnússon, Sigrún Pétursdóttir, Stefanía Skarphéðinsdóttir, Þorsteinn Berg; einnig Elín Bjarnadóttir fráfarandi framkvæmdastjóri og nýráðinn framkvæmdastjóri sambandsins, Sólveig Kristjánsdóttir.

1. Guðmundar Kr. Sigurðssonar minnst.

Stjórnin vottaði minningu Guðmundur Kr. Sigurðssonar virðingu með því að rísa úr sætum.

Kristján Kristjánsson greindi frá því að BSÍ myndi minnast Guðmundar opinberlega með grein í Morgunblaðinu.

2. Fræðslumál.

Lesið var bréf frá Einari Guðmundssyni, þar sem hann segir sig úr stjórn BSÍ og afsalar sér öðrum trúnarðarstörfum fyrir sambandið. Stefanía Skarphéðinsdóttir mun taka að sér starf gjaldkera, en Jakob Kristinsson kemur í stað Einars inn í meistarastiganefnd.

3. Bridgehátíð 1996.

Samþykkt var að fela mótanefnd að ganga endanlega frá keppnisfyrirkomulagi tvímennings Bridgehátíðar og ákveða fjölda spila.

4. Landsliðsmál.
Opinn flokkur:

Forseti greindi frá því að Björn Eysteinsson hefði verið ráðinn landsliðsfyrirliði opna flokksins frá 1. janúar 1996 fram yfir Evrópumót 1997.

Ragnar Hermannsson verður aðstoðarmaður Björns.

Kvennaflokkur: Málin rædd, en engar ákvarðanir teknar. Guðmundur Sv. Hermannsson og Stefanía Skarphéðinsdóttir ætla að leggja á ráðin og setja fram tillögur um skipan landsliðsmála kvenna á næsta stjórnarfundi.

Flokkur yngri spilara: Fjórir spilarar hafa verið valdir til þátttöku á vikumóti í Hollandi í janúarbyrjun (Pepsi Cola Cup): Ljósbrá Baldursdóttir, Stefán Jóhannsson, Hlynur T. Magnússon og Halldór Sigurðarson. Með í för verður Ragnar Hermannsson. Hollenska bridssambandið greiðir gistingu og uppihald. BSÍ ábyrgist ferðakostnað, en samþykkt var að leita til bridsfélaga viðkomandi spilara um styrkveitingu.

5. Ráðning framkvæmdastjóra.

Kristján Kristjánsson greindi frá því að gengið hafi verið frá ráðningarsamningi við nýjan framkvæmdastjóra BSÍ, Sólveigu Kristjánsdóttur. Var Sólveig boðin velkomin til starfa.

6. Varðveisla gamalla bridsgagna.

Samþykkt var tillaga um að stofna bóka- og ljósmyndasafn, sem fengi með tímanum aðstöðu í hinum óinnréttaða enda Þönglabakka. Fyrstu verkefni verða (1) að safna saman öllu efni sem ritað hefur verið um brids á íslensku, (2) safna ljósmyndum, sem sýna sögu bridsíþróttarinnar á Íslandi. (Bestu myndirnar verða síðan stækkaðar, rammaðar inn og hengdar upp í salarkynnum sambandsins, þar sem veggpláss er ærið.)

Kr. 100 þúsund verður veitt til þessa verkefnis í fyrstu atrennu og hefur Þórður Sigfússon verið ráðinn tímabundið til að afla heimilda og flokka.

7. Göngugata við Mjódd.

Kröfur hafa verið settar fram á BSÍ um að taka þátt í kostnaði vegna byggingar göngugötu í Mjóddinni. Guðmundur Sv. Hermannsson greindi stjórninni frá málavöxtum. Björgvin Þorsteinsson hrl. hefur fylgst með málinu fyrir hönd BSÍ og vinnur hann nú að greinargerð. Ákvarðanir verða teknar um framhald þegar hún liggur fyrir.

8. Önnur mál.

*Samþykkt var að halda samráðsfund með stjórn Bridgefélags Reykjavíkur, þriðjudaginn 9. janúar nk., kl. 16.30 í Þönglabakka.

* Elín Bjarnadóttir vildi koma á framfæri hvatningu til formanna félaganna að kynna fundargerðir sambandsins betur, sérstaklega mál er varða hinn almenna spilara.Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar