Grant Thornton bikarmeistari

mánudagur, 19. september 2022

Grant Thornton bar öruggan sigur úr býtum á Sölufélagi Garðyrkjumanna í úrslitaleik Bikarkeppni Bridgesambands Íslands. Sölufélagsmenn spiluðu bara fjórir bæði undanúrslit og úrslit þar sem þeir höfðu misst menn í veikindi og meiðsl. Sölufélagið hafði sigur í undanúrslitum á spútnik sveit Formannsins þrátt fyrir að hafa lent stórt undir í fyrstu lotu.

Grant Thornton sló út ríkjandi bikarmeistara í J.E. Skjanna í hörkuleik í undanúrslitum. Segja má að leið Grant Thornton að titlinum hafi ekki verið auðveld. Strax í 16. liða úrslitum dróst sveitin gegn Íslandsmeisturunum í Hótel Norðurljósum. Grant vann þann leik nokkuð örugglega en þess ber þó að geta að fyrirliði þeirra Norðurljósamanna, Hlynur Angantýsson, gat ekki spilað með þann leik. Sveit Norðurljósa var þó stjörnum hlaðin með þá Gunnlaug Sævarsson, Kristján Má Gunnarsson, Karl Karlsson og Hermann Friðriksson innanborðs.

Í átta liða úrslitum dróst svo Grant Thornton gegn ofursveit InfoCapital með þá Sverri Ármannsson, Matthías Þorvaldsson, Sigurbjörn Haraldsson, Jón Baldursson, Aðalstein Jörgensen og Bjarna Einarsson. Jón Baldurs gat ekki tekið þátt í leiknum sem varð alveg gríðarlega spennandi. Grant tók snemma stóra forystu en InfoCapital saxaði á forystuna og allt gat gerst þegar síðustu spilin voru spiluð. Endaði leikurinn með naumum sigri Grant sem komst áfram í undanúrslit.

Það var ljóst þegar dregið var í undanúrslit að lukkan ætlaði Grant Thornton svo sannarlega ekki að fara auðveldu leiðina. Dróst sveitin gegn J.E.Skjanna ehf sem ætlaði ekki að gefa bikarinn eftir svo auðveldlega. Var sveitin skipuð þeim Karli Sigurhjartarsyni, Sævari Þorbjörnssyni, Guðlaugi R Jóhannssyni, Erni Arnþórssyni og Snorra Karlssyni. Fyrir undanúrslitin hafði sveitin fengið undanþágu þar sem Sævar gat ekki spilað með og fékk þá Guðmund Pál Arnarsson og Þorlák Jónsson til liðs við sig. Varð leikur Grant Thornton og J.E.Skjanna ehf æsispennandi og lauk með naumum sigri Grant Thornton. Yfir 1000 manns horfðu á leikinn í beinni útsendingu þegar mest var.

Í úrslitaleiknum dró Sölufélagið að sitja fast í norður í opna sal í fyrstu lotu. En tölfræðimeistarar Bridgesambandsins vildu meina að sú sveit sem byrjar í norður í opna sal hafi oftar unnið sigur. En leikurinn varð aldrei spennandi.

Grant Thornton yfirspiluðu Sölufélagið sem gafst upp eftir 3 lotur 98 impum undir. Sást í úrslitaleiknum að Sölufélagsmenn voru orðnin þreyttir eftir að hafa spilað án þess að skipta inná öll undanúrslitin og svo úrslitaleikinn.

Í Sölufélaginu spiluðu Ísak Örn Sigurðsson, Jón Þorvarðarsson, Kjartan Ingvarsson, Gunnlaugur Karlsson, Stefán Jónsson og Ásmundur Örnólfsson. Það var fyrirliði Grant Thornton, Guðmundur Snorrason sem tók við bikarnum úr hendi forseta Bridgesambandins, Brynjari Níelssyni. Aðrir í sveitinni voru Hrannar Erlingsson, Sveinn Rúnar Eiríksson, Stefán Stefánsson og Magnús E. Magnússon.

Þetta var frábær helgi, fjölmargir sem komu við í Síðumúla til að fylgjast með og ótrúlegur fjöldi sem fylgdist með á BBO í beinni útsendingu.

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar