LÍFLEGT - pistill frá Ísak

fimmtudagur, 17. mars 2022

Íslenskir áhugamenn um bridge hafa verið áhugasamir og duglegir að spila, nú þegar veiran hefur aðeins verið að losa tökin. Spilarar hafa verið „að sjá ljós við enda ganganna“ og fagna því að geta loks aftur spilað bridge í spilasölum.

Flest spilafélög landsins hafa aftur hafið spilamennsku í spilasölum sínum og menn reyna að svala þorsta sínum. Menn hafa ekki aðeins látið duga að spila hérlendis. Frændur okkar Færeyingar hafa um síðustu ár haldið sína eigin Bridgehátíð, með íslensku Bridgehátíðina að fyrirmynd. Íslenskir keppendur hafa jafnan fjölmennt á hátíð þessa, enda skemmtileg og Færeyjarnar alltaf skemmtilegt að heimsækja.

Bjarni Hólmar Einarsson hefur oftsinnis farið á þetta mót og spilað við góðan vin sinn, Færeyinginn Boga Simonsen. Þeir hafa oft unnið þetta mót (Bjarni tvisvar og Bogi þrisvar, Bjarni gat ekki mætt 2020) og gerðu það einnig þegar mótið var haldið 10.-13. mars síðastliðinn. Færeyskt par náði öðru sætinu, Símun Lassaberg og Pól E. Egholm og Íslendingarnir Gunnlaugur Sævarsson og Ómar Olgeirsson enduðu í þriðja sæti.

Litlu munaði á þremur efstu sætunum og var baráttan um efsta sætið mestmegnis á milli þessara para. Öll þessi pör verða sennilega með í þessari skemmtilegu keppni á næsta ári. Bjarni og Bogi fögnuðu oftsinnis góðu skori, en ekki alltaf. Pörin Bjarni og Bogi (NS) mættu Gunnlaugi og Ómari (AV) í annarri lotu keppninnar. Þá kom þetta skemmtilega spil fyrir. Austur var gjafari og NS á hættu:

 

                   Norður

                   K953

                   DG1054

                   Á5

                   65

 

Vestur                                   Austur

ÁD74                                     G86

Á62                                        K93

1096                                      K32

Á102                                      KG93

                   Suður

                   102

                   87

                   DG874

                   D874

 

Það þarf ekki alltaf lengd í trompi til að taka refsingu. Hagstæðar hættur voru fyrir hendi og þegar Ómar opnaði í vestur á einu grandi, kom Bjarni inn á grandið með tveimur laufum sem sýndi báða hálitina. Gunnlaugur ákvað að veðja á refsinguna og hitti vel þegar NS áttu enga samlegu í hálitunum.

Samningurinn endaði í tveimur hjörtum dobluðum í norður og Gunnlaugur hóf leikinn á því að spila kóngnum í laufi út. Þegar „þokunni létti“ fengu þeir Gunnlaugur-Ómar 800 stig í dálkinn fyrir þrjá niður. Það dugði þó ekki til að hafa sigurinn af Bjarna og Boga í þessari tvímenningskeppni.

Stjórn Bridgesambands Íslands hefur ákveðið að opið verði fyrir allar sveitir að taka þátt í undanúrslitum í sveitakeppni 2022. Stjórn BSÍ er þannig að nýta heimild sem fékkst á ársþinginu 20. febrúar síðastliðinn. Spilaðir verða tólf leikir, 12 spil hver eftir monrad. Tólf efstu sveitirnar vinna sér rétt til þátttöku í úrslitum íslandsmótsins dagana 21.-24. apríl.

 

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar