Leikir dagsins 18.júní - pitill frá EM

föstudagur, 17. júní 2016

EM- pistill - Dagur 3

Ísland - Króatía
Lengi getur víst vont versnað og þessi dagur var alls ekki eins og við höfðum vonast eftir. Maggi og Láki hvíldu í fyrsta leiknum sem var gegn Króatíu í morgun og segja má að okkar menn hafi hreinlega ekki mætt til leiks og andstæðingarnir leikið við hvurn sinn fingur. Þegar rykið hafði loks sest sátu Íslendingar eftir með sárt ennið og 4.44 stig. Liðið var í 23. sæti eftir þessa umferð.

...

Ísland - Noregur
Maggi og Láki komu inn á fyrir Þröst og Svenna. Þessi leikur var sýndur á BBOog bauð upp á ýmislegt forvitnilegt. Eftir að hafa gefið út 11 impa í fyrsta spili fór heldur að ganga betur enda var hvorugt liðið að spila sinn besta brids. Ef ekki hefði komið til varnarslys gegn 3NT hefði þessi leikur samt unnist örugglega en þegar upp var staðið skiptu frændþjóðirnar stigunum nokkuð jafnt á milli sín 9.09 gegn 10.91. Við þetta hífðist íslenska liðið upp um tvö sæti og sat í 21. sætinu.

Ísland - Rúmenía
Alli og Birkir hvíldu þennan leik og segja má að þessi leikur hafi verið arfaslakur. Pörin voru ekki að spila sinn eðlilega brids og skringilegar tölur litu dagsins ljós. Þessi frammistaða þýddi að Ísland fékk einungis 2.55 stig gegn 17.45 stigum andstæðingsins. Liðið vermir því 23.sætið að nýju.

Á morgun hefst kvennakeppnin og við það færist spilamennskan í opna flokknum af annari hæð upp á þá fjórðu. Það er því mín einlæga von að gæði íslensku spilamennskunnar færist einnig upp um leið.

Þá þurftum við að hlusta á einlægan fögnuð Ungverja þegar við skoruðum fyrir þá jöfnunarmarkið í fótboltanum. En það þýðir ekkert að hengja haus, bara standa á fætur og berjast til baka. Koma svo Áfram Ísland!

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar