Frétt frá landsliðsnefnd BSÍ
Skýrsla landsliðsnefndar til stjórnar Briddssambandsins frá fundi hennar 16. feb 2011.
Þann 16.febrúar 2011 tilkynnti Einar Jónsson landsliðsþjálfari í Bridge, í samráði við landsliðsnefnd, að hann hafi valið 4 pör úr A-hópnum í lokalandsliðshóp fyrir árið 2011 þar sem stærsta verkefnið verður þátttaka í úrslitum heimsmeistaramóts í sveitakeppni, Bermuda Bowl, í október 2011 sem haldið er í Hollandi
Pörin eru:
Aðalsteinn Jörgesen - Bjarni H. Einarsson
Jón Baldursson - Þorlákur Jónsson
Magnús E. Magnússon - Sigurbjörn Haraldsson
Þröstur Ingimarsson - Júlíus Sigurjónsson
Pörin sem einnig voru valin til þátttöku í A-hóp landsliðs, sl haust, Sveinn R. Eiríksson - Ómar Olgeirsson og Páll Magnússon - Ragnar Magnússon hafa verið valin til þess að taka þátt í Norðurlandamóti 2011. Þau mun jafnframt halda áfram undirbúningsvinnu á vegum landsliðsþjálfara.
Landsliðsþjálfari stefnir að því í samráði við landsliðsnefnd að velja 3ja para landslið eigi síðar 4-5 mánuðum fyrir heimsmeistaramótið í október.
Landsliðsnefnd er sammála Einari Jónssyni að velja ekki endanlegt landslið til þátttöku í heimsmeistarmótin 2011 á þessari stundu, þar sem mótið er í október n.k. og vill frekar að halda lengur úti skipulögðum verkefnum fyrir ofannefndan 4ra para hóp. Pörin munu halda áfram sameiginlegum æfingum, taka þátt í sérverkefnum og fara á mót erlendis. Þótt eitt þessara para muni ekki taka þátt í heimsmeistarmótinu finnst landsliðsnefnd og þjálfara mikilvægt að það sé par í jafn góðri æfingu og hin 3 pörin, sem koma til með að mynda endanlegt landslið, svo það geti komið sem varapar ef óvænt forföll verða.
Sú æfingalota, sem samið var um við Einar Jónsson, landsliðsþjálfara sl haust, fyrir A-hóp landsliðspara, er á enda í lok mars nk. Á þeim tímapunkti verða í samráði við landsliðsþjálfara, kynnt næstu skref í undirbúningi landsliðsins.
Rétt er að nefna að þátttaka para úr landsliðshóp er ráðgerð heima og erlendis á nokkrum mótum fram í september 2011. Næstu mót sem búið er að tilkynna þátttöku í eru: 2 pör til Kína á hið sterka og eftirsótta mót, Yeh Bros Cup Wuxi, 18.-22 apríl, 3 pör fara í boði Hollenska bridgesambandsins 20-22 maí á æfingamót með þátttöku hollenska landsliðsins. Þá er verið að athuga með þátttöku í tveimur öðrum mótum þ.e. BONN 1-5 júní, og Chairmans Cup í Svíþjóð í byrjun ágúst. Einnig er fyrirhugað að halda æfingamót hér á landi og bjóða einu eða tveimur landsliðum frá Norðurlöndunum. Þátttaka í fleiri æfingamótum er í athugun.
Í samráði við landsliðsþjálfara mun stjórn Bridgessambandsins velja landsliðsfyrirliða og liðsstjóra og kynna um svipað leyti og tilkynnt verður næsta æfingaáætlun landsliðsins eða um mánaðamótin mars/apríl.