Lög BSÍ, samþykkt 20. febrúar 2022

Lög BSÍ á prentvænu formi má finna hér

Lög BSÍ

Samþykkt 20. febrúar 2022

1. kafli. Nafn og tilgangur.

1. grein.

Nafn sambandsins er BRIDGESAMBAND ÍSLANDS, skammstafað BSÍ. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein.

Tilgangur sambandsins er:

Að vera æðsti aðili í landinu um bridgemálefni og stuðla að útbreiðslu og kynningu á bridge.

Að halda árlega Íslandsmót í bridge þar sem öllum félagsmönnum er heimil þátttaka. Á Íslandsmóti skal keppa í tvímenningskeppni og sveitakeppni, svo og öðrum greinum sem stjórn ákveður hverju sinni. Að ákveða hvar, hvenær og á hvern hátt skuli taka þátt í keppni við erlenda aðila. Að sjá um innkaup á spilum, bókum, áhöldum og eyðublöðum og selja þau á hóflegu verði. Að sjá um að alþjóðalögum í bridge sé fylgt í keppni sambandsfélaganna og spilarar sýni háttvísi í samskiptum sínum. Að vinna að sem bestu samstarfi milli sambandsfélaga og skera endanlega úr deilumálum, sem kunna að rísa milli þeirra. Að hafa forgöngu um að efla innra starf og veita aðildarfélögum alla mögulega aðstoð sem að gagni mætti koma.

2. kafli. Aðildarsambönd, félög og félagar.

3. grein.

Öll bridgefélög á Íslandi geta öðlast aðild að Bridgesambandi Íslands, enda skuldbindi þau sig til að hlýta lögum sambandsins, reglum þeim og úrskurðum, sem sett eru á ársþingi eða af stjórn. Gildir þá einu hvort félagið stendur fyrir borðspilamennsku eða einungis spilamennsku á netinu. Inntökubeiðni skal lögð fyrir stjórn og öðlast félagið full réttindi að fengnu samþykki hennar. Félag innan BSÍ skal einnig vera aðili að svæðasambandi sem er samband félaga í sama kjördæmi. Félög sem eingöngu eru starfrækt eru á netinu hafa sjálfdæmi um það hvaða svæðasambandi þau tilheyra. Svæðasambönd skulu annast undankeppni fyrir Íslandsmót eftir þeim reglum sem BSÍ setur hverju sinni. Stjórn BSÍ hefur heimild til að ákveða að Íslandsmót séu opin og ekki þurfi að ávinna sér sérstakan rétt til þátttöku í gegnum svæðamót.

Kjördæmi BSÍ eru þau kjördæmi sem landinu var skipti í við alþingiskosningar á árabilinu 1959 – 1999. Þau eru Reykjavík, Reykjanes, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland og Suðurland.

4. grein.

Allir skráðir félagsmenn hafa rétt til þátttöku í Íslandsmótum. Félagsmaður telst vera í því félagi, þar sem hann er skráður á skrá meistarastiganefndar.

3. kafli. Stjórn og sambandsþing.

5. grein.

Á milli ársþinga er æðsta vald í málefnum sambandsins í höndum stjórnar, sem skipuð skal 5 mönnum og 2 varamönnum sem kosnir eru á ársþingi. Forseta skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Varastjórn skal boðuð á stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.  Varamenn komi inn í stjórn eftir uppröðun uppstillingarnefndar á ársþingi eða atkvæðamagni, ef um þetta er kosið.  Stjórnin skal á sínum fyrsta fundi skipta með sér verkum og skipa í eftirtalin störf innan stjórnarinnar: Varaforseti, gjaldkeri og ritari. Stjórninni er heimilt að mynda þriggja manna framkvæmdaráð innan stjórnarinnar, sem annast daglega stjórn sambandsins í umboði og eftir framkvæmdaáætlun stjórnarinnar. Stjórninni skal heimilt að ráða framkvæmdastjóra sem annist daglegan rekstur í umboði stjórnar.

Stjórnin skal framfylgja ályktunum og ákvörðunum sambandsþings og vera félögum og samböndum til aðstoðar um bridgemálefni. Eftir að ný stjórn kemur saman skal hún skipa í meistarastiganefnd, mótanefnd, dómnefnd og laga- og keppnisreglnanefnd. Skal hver þessara nefnda vera skipuð 3 mönnum, að dómnefnd undanskilinni sem skipuð er 9 mönnum. Stjórnin skal að auki skipa þrjá varamenn í mótanefnd. Nefndirnar skulu vera sem mest sjálfstæðar í störfum sínum. Í ákvörðunum sínum skulu þær vera bundnar af alþjóðlegum bridgereglum og almennum reglum sem ársþing og stjórn setja í formi reglna eða reglugerða.

Verksvið meistarastiganefndar er að skrá, breyta og lagfæra meistarastig allra spilara. Þá skal hún ákveða stigagjöf í mótum á vegum BSÍ. Mótanefnd skal hafa yfirumsjón með öllum mótum sem haldin eru á vegum BSÍ. Verkefni dómnefndar er að fjalla um og ákvarða hvort farið hefur verið eftir keppnisreglum við sagnir og úrspil. Formaður eða varaformaður í forföllum formanns skal sjá til þess að starfhæfur dómur sé til staðar á mótum sem BSÍ stendur fyrir. Dómnefnd telst fullskipuð með þremur mönnum en heimilt er að fjölga í dómnum ef hún telur ástæðu til. Dómnefnd skal færa til sérstakrar bókar niðurstöður sínar. Laga- og keppnisreglunefnd skal hafa yfirumsjón með öllum breytingum á lögum og keppnisreglum. Telji hún ástæðu til breytinga á lögunum leggur hún fram tillögur sínar fyrir stjórn BSÍ til framlagningar á ársþingi eða til ákvörðunar ef um er að ræða breytingar á reglugerð sem sett er af stjórn. Við meðferð mála hjá nefndum sambandsins skal eftir því sem kostur er, taka mið af almennum stjórnsýslureglum og gæta þess í hvívetna að mál, sem komi til kast þeirra, hljóti réttláta og hlutlausa umfjöllun. Hver nefnd skal birta á bridge.is þær ákvarðanir sem eru teknar.

6. grein.

Ársþing fer með æðsta vald í málefnum sambandsins og skal haldið fyrir 1. apríl ár hvert. Stjórnin boðar til þess með þriggja vikna fyrirvara, en dagskrá skal send út með einnar viku fyrirvara. Óski einstök félög eða einstaklingar eftir því, að bera fram tillögu um lagabreytingar á þinginu, skal félagið senda þær til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársþing og skal þeirra getið í útsendri dagskrá. Rétt til setu á þinginu eiga fulltrúar allra félaga sem aðild eiga að BSÍ. Fjöldi þingfulltrúa ræðst af stærð félags og má vera einn hið fæsta og aldrei fleiri en níu hjá stærstu félögunum. Við ákvörðun um stærð félags skal miðað við meðaltal 10 mannflestu spilavikur félagsins í reglulegri starfsemi starfsárið á undan. Við ákvörðun um þingfulltrúa skal vera einn fyrir fyrstu 20 félagsmenn, annar fyrir næstu 20 félagsmenn o.s.frv. Formenn svæðasambanda eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt.

Kjörbréf skulu staðfest með undirskrift formanns eða ritara félagsins. Hver fulltrúi hefur eitt atkvæði, en getur þó farið með umboð fyrir annan fulltrúa frá sama félagi. Stjórninni er heimilt að bjóða gestum til þingsins sem áheyrnarfulltrúum.

7. grein.

Á sambandsþingi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:

  1. Þingsetning.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara, svo og 3ja manna kjörbréfanefndar.
  3. Kjörbréf þingfulltrúa athuguð og úrskurðuð.
  4. Kosning 3ja manna uppstillinganefndar og annarra nefnda ef þurfa þykir.
  5. Stjórn gefur skýrslu um starfsemi sambandsins frá síðasta þingi.
  6. Formenn fastanefnda gefa skýrslu um starfsemi nefndanna.
  7. Reikningar sambandsins lagðir fram með athugasemdum endurskoðenda til úrskurðar.
  8. Lagabreytingar.
  9. Kosning aðalstjórnar og varastjórnar samkvæmt 5. grein.
  10. Kosning löggilts endurskoðanda.
  11. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga sambandsins og tveggja til vara, sbr.
  12. Ákvörðun árgjalds.
  13. Önnur mál, sem löglega eru fram borin.

8. grein.

Aukaþing má halda, ef meirihluti stjórnar telur það nauðsynlegt. Skylt er stjórn að boða til aukaþings, ef þess er óskað af félögum, sem í eru 1/3 hluti allra félagsmanna. Til aukaþings skal boða með þriggja vikna fyrirvara.

9. grein.

Reiknings- og starfsár sambandsins er 1.janúar til 31. desember. Ársreikningi sambandsins skal fylgja eignaskrá. Tveir skoðunarmenn reikninga, sem kosnir eru til tveggja ára í senn á ársþingi, skulu yfirfara reikninga sambandsins.

4. kafli. Ýmis aðildarákvæði.

10. grein.

Hvert félag skal árlega greiða árgjald til BSÍ, samkvæmt ákvörðun ársþingsins og skal árgjaldið vera ákveðin krónutala á hvern spilara á hverju spilakvöldi. Það er skilyrði fyrir þátttöku í Íslandsmóti, að viðkomandi félag hafi greitt árgjald sitt til Bridgesambandsins. Stjórnin ákveður þátttökugjald í mótum sínum. Þátttökugjöld og aðgangseyrir að mótum sambandsins renna til BSÍ. Gjalddagar árgjalda skulu vera tveir, 15.jan. og 15.júní.

11. grein.

Hvert félag skal fyrir 1.feb senda stjórn BSÍ skýrslu um félagatölu sína. Þá skal hvert félag senda BSÍ upplýsingar um stjórnarmenn sína sem og samskiptaupplýsingar þeirra (sími + netfang) þegar breytingar verða. 

 

5. kafli. Innlend og erlend mót.

12. grein.

Stjórnin sér um að Íslandsmót séu haldin árlega. Almennar keppnisreglur skulu samþykktar á ársþingi og nægir einfaldur meirihluti til breytinga á þeim. Stjórnin skal sjá um, að fyrir hvert mót á þess vegum sé í gildi sérstök reglugerð.

13. grein.

Stjórnin ákveður alfarið á hvern hátt skuli velja keppendur til þátttöku í leiki við erlenda aðila á vegum sambandsins. Bridgesambandið skal taka þátt í ferðakostnaði þeirra spilara, sem taka þátt í keppni við erlenda aðila á þess vegum, samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Stjórn er heimilt að greiða kostnað sem keppendur verða fyrir og verðlauna keppendur með fjárframlögum.

6. kafli. Dómnefndir.

14. grein.

Öll svæðasambönd skulu skipa 3ja manna dómnefnd, sem hefur lögsögu innan síns svæðis um öll mál er varða túlkun á bridgelögum og keppnisreglugerðum. Úrskurði svæðisdómnefndar er hægt að áfrýja til Dómstóls BSÍ sbr. 15. gr. Mál er varða óheiðarleika eða ósæmilega framkomu skal tafarlaust tilkynna forseta og framkvæmdastjóra sambandsins með skriflegum hætti.

15. grein.

Úrskurðum eða ákvörðunum nefnda skv. 5. gr., að undanskilinni dómnefnd, má skjóta til Dómstóls BSÍ, svo og úrskurðum svæðissambanda sbr. 14. gr. Í Dómstól BSÍ skulu eiga sæti sjö menn kosnir á þingi sambandsins til tveggja ára í senn. Stjórn skipar formann og varaformann. Að jafnaði skulu þrír sitja í dómstólnum við afgreiðslu mála sem til hans er skotið. Formaður og í forföllum hans varaformaður, kallar dómstólinn saman og ákveður hverjir skuli taka sæti í honum. Ef formanni þykir ástæða til getur hann ákveðið að allur dómstóllinn fjalli um mál.

Svo mál verði tekið fyrir hjá Dómstól BSÍ skal lögð fram trygging sem skal vera kr. 25.000.- Falli úrskurður kæranda í hag skal fjárhæðin endurgreidd en ella skal tryggingin renna til BSÍ, nema nefndin ákveði annað.

Kærufrestur til Dómstóls BSÍ  er sjö sólarhringar frá því ákvörðun nefnda eða svæðasambands lá fyrir og skal dómstóllinn úrskurða í málinu innan sjö daga.

Fyrir Dómstól BSÍ skal lögð fram skrifleg kæra ásamt greinargerð. Ef kæruatriði snertir annan aðila/aðra aðila skal þeim gefinn kostur á að gera skriflega grein fyrir afstöðu sinni til málefnisins. Ef dómstóllinn telur ástæður til getur hann kallað fyrir dómstólinn kæranda og þá aðra sem málið snertir.

Dómstóll BSÍ tekur sjálfstæða ákvörðun eða leggur sjálfstætt mat á á þau mál sem til hans er skotið og getur endurskoðað úrskurði undirnefnda og skal úrskurður hans vera endanleg niðurstaða.

7. kafli. Úrskurðarvald í félagslegum þrætum.

16. grein.

Félögum og einstökum félagsmönnum innan félaganna er skylt að hlíta úrskurðum og ákvörðunum stjórnar, innan þess ramma sem lög sambandsins mæla fyrir um hverju sinni.

8. kafli. Lagabreytingar.

17. grein.

Lögum þessum verður ekki breytt nema á þingi sambandsins sem boðað hefur verið til á sama hátt og reglulegs sambandsþings, enda hafi lagabreytinga verið getið í dagskrá þingsins og þær hlotið 2/3 hluta greiddra atkvæða.

 

               Þannig samþykkt á ársþingi Bridgesambands Íslands 20. febrúar 2022

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar