Ársþing 16.okt. 2016

mánudagur, 24. október 2016

                                             Ársþing BSÍ 16.okt. 2016
Ársreikningur 2016

68. Ársþing Bridgesambands Íslands 2016 haldið sunnudaginn 16.október kl. 13-16

Þingsetning: Jafet Ólafsson forseti BSÍ setti þingið og bauð fundarmenn velkomna. Stungið var upp á Guðmundi Baldurssyni sem fundarstjóra og Árna Má Björnssyni sem ritara og samþykkti fundurinn það með lófataki.

Guðmundur Baldurrsson tók við fundarstjórn og fékk uppástungur um þrjá í kjörbréfanefnd, Kristján Má Gunnarsson Kristján Snorrason og Ingimund Jónsson og nefndin tók strax til starfa og vék af fundi til að fara yfir kjörbréfin. Stungið var upp á þremur í uppstillingarnefnd þeim Garðari Garðarssyni, Páli Valdimarssyni og Stefáni Vilhjálmssyni og var það samþykkt.

Fulltrúar félaga á ársþinginu voru 20 :

B.f. Muninn                1          2 atkv.             Garðar Garðarsson

B.f. Kópavogs            3          3 atkv.                Jörundur Þórðarson, Hjálmar S. Pálsson,

Ingvaldur Gústafsson

B.f. Hafnarfjarðar       1          2 atkv.             Sigþrúður Blöndal

B.f  Borgarfjarðar       1         2 atkv              Ingimundur Jónsson.

Bf. Reykjavíkur          4          4 atkv.             Guðný Guðjónsdóttir, Sigrún Þorvarðardóttir,

                                                           Páll Valdimarsson, og Guðmundur Baldursson

Bf. Akureyrar              1        2 atkv.              Stefán Vilhjálmsson

Miðvikudagsklúbb.     4         4 atkv.             Sveinn R. Eiríksson, Guðrún Jörgensen,

Bf. Breiðfirðinga         2         3 atkv.             Ingibjörg Guðmundsdóttir (2),  Garðar V.

Jónsson.                                                               

Bf. Selfoss                   2         2 atkv.            Kristján Már Gunnarsson, Símon Sveinsson

Bf. Sauðárkróks          1         1  atkv.            Kristján Snorrason

Áheyrnafulltrúar voru þrír: Vigfús Pálsson, Þórður ingólfsson og Kristján Þorsteinsson.

Skýrsla forseta um störf stjórnar Bridgesambandsins

  • Stjórn BSÍ sem kjörin var á ársþingi Bridgesambandsins þann 18. október 2015 hélt 10 fundi á starfstímabili sínu. Stjórnin skipa: Jafet S. Ólafsson forseti, Guðný Guðjónsdóttir varaforseti, Árni Már Björnsson ritari, meðstjórnendur eru Guðmundur Snorrason og Ingimundur Jónsson, varamenn eru Anna Guðlaug Nielsen og Júlíus Sigurjónsson. Ólöf Þorsteinsdóttir er sem fyrr framkvæmdastjóri. Helstu verkefni verða tilgreind hér á eftir, þau eru svipuð ár eftir ár, sumum verkefnum verður að sjálfögðu aldrei lokið, en áherslur eru mismunandi eftir því sem tímarnir líða og breytast.

Helstu verkefni:

  • Lögð áhersla á að fá fleiri til að spila bridge, stuðla að kynningu í framhaldsskólum til að fá meiri endurnýjun meðal ungs fólks. Ónóg endurnýjun er vandamál sem flest bridgesambönd í Evrópu glíma við, margar þjóðir hafa þó náð athyglisverðum árangri að fá fleira ungt fólk til að spila bridge, má þar nefna Danmörku, Pólland, Holland og Ísrael. Í þessum tilgangi var útbúinn bæklingur fyrir nokkrum árum og er enn verið að dreifa honum. Kennsla fór fram í þremur skólum, gekk það misjafnlega en þó má fullyrða að tekist hafi að kveikja áhuga unglinga í Menntaskólanum í Kópavogi. Einnig var kennt á Selfossi og í Borgarfirði og gekk það ágætlega. Það verður að segjast eins og er að spilaáhugi er takmarkaður meðal ungmenna, sem skýrist af því að þetta er tölvu- og farsímakynslóðin. Kynningarstarfinu verður haldið áfram í vetur og meira lagt í það og vonandi ber það árangur. Nýliðabridge var tekið upp og var ágæt aðsókn að því. Á síðast liðnum vetri var auglýst að frítt væri í Bridgeskólann fyrir 25 ára og yngri og var það endurtekið nú í haust. Greiðir sambandið kostnað við þessa ungu nemendur. Nokkrir hafa skilað sér í gegnum Bridgeskólann. Þessa starfsemi þarf að efla enn frekar og verður meira fjármagn sett í hana á komandi vetri.

  • Aukin kynning á bridge í fjölmiðlum. Ágætlega tókst til við kynningu á Reykjavík Bridgefestival í janúar 2016. En alltaf þarf að hafa töluvert fyrir því að fá fjölmiðla til að fjalla um bridge. Morgunblaðið birtir alltaf úrslit úr mótum og er það að þakka Arnóri Ragnarssyni og Guðmundur Páll er með sinn fasta dálk sem gleður margan manninn í morgunsárið yfir kaffibollanum. Á síðast liðnu vori tókst samkomulag við Fréttablaðið um að birta tvöfaldan dálk um bridge í helgarblaðinu, Ísak Sigurðsson hefur séð um þetta og Bridgesambandið greiðir kostnaðinn. Ég sendi ítrekað skeyti á Fréttablaðið og bað um að fjallað yrði um Bridgehátíðina, ekki einn stafur þrátt fyrir loforð ritstjóra, reyndar stöðugt verið að skipta um þá. Það var ekki fyrr en ég setti mig í samband við aðalkonuna, fulltrúa eigandans, Kristínu Þorsteinsdóttur, að viðtal kom við mig í Fréttablaðinu, læt það fylgja hér með.

  • Reynt að ná fram leiðréttingu á opinberum fjárframlögum, en samanburður við önnur sérsambönd er bridgesambandinu mjög í óhag ef farið er yfir fimm síðustu árin. Þarna höfum við unnið góða sigra, má þakka það góðum skilningi menntamálaráðherra á gildi bridge sem eftirsóknarverðrar íþróttar fyrir fólk á öllum aldri. Árið 2015 hækkaði framlagið til Bridgesambandsins úr 8 í 10 mkr. Í fjárlögum 2016 var framlagið hækkað í 13 mkr. og vonandi fer það í 14,5 mkr árið 2017.

  • Mótaskrá - undirbúningur og framkvæmd móta. Mótanefnd bar hitann og þungann af uppsetningu mótaskrár og sér framkvæmdastjóri okkar síðan um undirbúning og framkvæmd og kallar fólk til eftir þörfum, þetta hefur gengið eins og vel smurð vél. Alltaf eru þó skiptar skoðanir um niðurröðun móta. Mótaskrá ber þess líka merki að nokkrar helgar fara undir undirbúning landsliðsins, sem taka þarf tillit til.

  • Húsnæðismál - leit að betra og hentugra húsnæði fyrir sambandið er enn til athugunar. Við höfum fengið tilboð frá fjárfestum í húseign sambandsins en höfum hafnað öllum tilboðum. Við samþykktum þó að láta fara fram endurhönnun á húsnæðinu þannig að eina hæð mætti byggja ofan á og heimild væri fyrir tengingu við húsið á horninu. Þetta gæti sennilega aukið verðmæti húseignar sambandsins um 6 mkr. Ekkert verður gert í sölumálum nema búið sé að finna nýtt og betra húsnæði. En úrval af hentugu húsnæði er takmarkað.

  • Reykjavík Icelandair Bridge Festival - mót í janúar 2016. Met þátttaka var í mótinu og eru tekjur af því mikilvægar í fjáröflun sambandsins. Menntamálaráðherra setti mótið með glæsibrag og fékk það góða umfjöllun í fjölmiðlum. Hótel Natura (Hotel Loftleiðir) er að verða of lítið fyrir þetta mót og hefur verið kannað að flytja mótið í Hörpuna og standa viðræður yfir um það mál. En Harpan kostar sitt. Undirbúningur er þegar hafinn fyrir mótið í janúar 2017 sem verður á Natura en það verður sennilega í síðasta skipti, hótelið er einfaldlega að ýta okkur út.

  • Evrópumeistaramótið í Búdapest í júní 2016. Landsliðið skipuðu þeir Sveinn Rúnar og Þröstur Ingimarsson, Aðalsteinn Jörgensen og Birkir Jón Jónsson, Magnús E. Magnússon og Þorlákur Jónsson, Fyrirliði var Ragnar Hermannsson en hann hafði um veturinn séð um þjálfun liðsins ásamt fleirum og sérstakur aðstoðarmaður var Anna Þóra Jónsdóttir. Liðið náði sér aldrei almennlega á strik og endaði í 12 sæti. Framkvæmd mótsins var með miklum ágætum og mótsstaðurinn góður.

  • Heimsleikarnir í Wroclaw í Póllandi í september 2016 - ákveðið var að senda til keppninnar lið bæði í opnum flokki og í kvennaflokki. Lið Íslands í opna flokknum skipuðu Aðalsteinn Jörgensen og Birkir Jón Jónsson, Snorri Karlsson og Karl Sigurhjartarson, Sveinn R. Eiríksson og Þröstur Ingimarsson, fyrirliði var Sveinn Rúnar. Kvennaliðið skipuðu Anna Guðlaug Nielsen og Helga Helena Sturlaugsdóttir, Annar Ívarsdóttir og Guðrún Óskarsdóttir, Svala Pálsdóttir og Arngrunnur Jónsdóttir, fyrirliði var Jafet Ólafsson sem jafnframt var aðalfararstjóri. Magnús Magnússon sá um þjálfun og undirbúning kvennaliðsins. Ísland stóð sig mjög vel í opna flokknum til að byrja með og var í 2.-4. sæti fyrstu dagana, síðan seig liðið nokkuð niður töfluna og endaði í 7. sæti í sínum 16 liða riðli, en fimm eða sex efstu liðin komust áfram. Kvennanliðið átti við ramman reip að draga og endaði í 14. sæti, við unnum þó Dani.

  • Evrópska Bridgesambandið. Jafet var kjörinn í stjórn þess á fundi í Króatíu sumarið 2014, haldnir voru þrír stjórnarfundir á árinu, auk þess sem starfað var í nefndum og er Jafet formaður í markaðs- og útbreiðslunefnd sambandsins. BSÍ mun á næsta ári fá styrk að fjárhæð 3.000 evrur til markaðsátaks. Með setu í stjórninni er komin góð tenging við öll stærstu bridgesamtök Evrópu og vonandi eiga fleiri góðir punktar eftir að skila sér til Íslands.

  • Landsliðsmál. Í haust var í fyrsta skipti sent kvennalið í stóra alþjóðlega keppni síðan 2008, þessu starfi þarf að halda áfram. Magnús Magnússon sér um þjálfun fyrir konur sem vilja taka þátt í landsliðsverkefnum frá nóvember og fram á vor. Norðurlandamótið er eina stóra verkefnið á næsta ári, en líklegt er að sveitir verði einnig sendar á önnur mót. Ákveðið var af stjórn sambandsins að keppt verði um tvö pör í hvorum flokki til að komast í landsliðið. Stjórn sambandsins hefur samþykkt að kanna áhuga á að senda öðlinga lið á næsta Evrópu mót þ.e. senior flokk, eldri en 60 ára, og hefur verið samþykkt að sambandið greiði móttsgjöld, en þátttakendur þyrftu að sjá um annan kostnað. Nú er verið að kanna hverjir hefðu áhuga á þátttöku. Fyrir þinginu liggur tillaga um skipun nefndar og mun stjórn sambandsins staðfesta hana strax að loknu þingi.

  • Samningar við flugfélög. Sambandið er með þokkalega góðan afsláttarsamning við Icelandair og s.l. vor var hann endurnýjaður til næstu þriggja ára. Ekki hefur náðst samningur við WOW en áfram verður reynt.

  • Fjárhagur sambandsins er mjög sterkur og eru nú í sjóði um 4. mkr. Fyrir ári síðan voru allar skuldir sambandsins greiddar upp eins og sést á ársreikningi. Síðasta spilaár var mjög kostnaðarsamt, bæði Evrópumót og Heimsleikar féllu inn á sama starfsárið, samt komum við út með hagnaði. Mjög mikilvægt er að Bridgesambandið sé fjárhaglega sterkt, um leið og hallar á í fjármálum þá er voðinn vís í starfseminni og stjórnin hefur haft það að leiðarljósi.

  • Auglýsingamál. Á síðasta ári var starfsemi Bridge- sambandsins auglýst með tveimur hálfsíðu auglýsingum í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Bridgeskóli Guðmundar var einnig auglýstur sérstaklega. Í haust var þetta endurtekið. Auglýsingar þessar eru góð aðferð til að vekja athygli á starfseminni og auka áhuga á bridge og verður þessu haldið áfram.

  • Kennsla í bridge í fyrirtækjum. Haft var samband við fjölda fyrirtækja og bauðst sambandið til að útvega kennslu í bridge fyrir starfsfólkið. Þetta var sérstaklega tekið fram í auglýsingunni sem getið var hér að framan. Ómar Olgeirsson og Guðmundur Páll eru ávallt tilbúnir að taka að sér svona verkefni. Góð afsókn er að Bridgeskólanum, og vonandi skila þeir spilarar sér út í bridgestarfið

  • Eldri borgarar. Bridge er vinsælt meðal þeirra eldri og samkomulag er um að félög eldri borgara spili bridge í húsnæði Bridgesambandsins tvo daga í viku, frá kl. 13.00 til kl. 17.00. Mikil ánægja er með þessa spilamennsku og aðstöðuna hjá sambandinu.

  • Kjördæmamótið var haldið á Hallormsstað og var framkvæmd þess með miklum ágætum. Færeyingar mættu eins og svo oft áður. Sigurvegarar þetta árið varð sveit Reykjaness og verður næsta Kjördæmakeppni haldin á suðurlandi í maí 2017.

  • Norðurljósamótið á Siglufirði. Þetta er nýtt mót sem haldið var upp úr miðjum september, bæði var spilað í tvímenningi og sveitakeppni, há peningaverðlaun voru í boði. Framkvæmd mótsins var með miklum ágætum og væntanlega á þetta mót bara eftir að vaxa og erlendir spilarar munu koma í auknum mæli.

  • Ný heimasíða, bridge.is. Hafin er vinna við gerð nýrar heimasíðu fyrir sambandið og stefnt að því að taka hana í notkun fyrir næsta ársþing. Þetta er andlitslyfting, nýjar myndir settar inn og mikið af eldra efni hverfur þá úr gagnagrunninum. Heimsíðan gegnir ágætlega sínu hlutverki en það þarf að nútímavæða hana.

  • Slagorð um bridge. Í upphafi árs var byrjað að setja í hverri viku slagorð um bridge og má finna þetta undir sérlið á heimasíðunni og ætlunin er að halda því út árið, mörg frumleg slagorð hafa komið fram og ætlum við að veita verðlaun fyrir það besta.

  • Á ársþinginu mun undirritaður fjalla nánar um einstaka liði, ítarlega umfjölun um öll mót, þátttöku og úrslit móta má finna í árskýrslunni.

  • "Bridge gerir lífið skemmtilegra" er okkar kjörorð og vonandi heldur það áfram að færa sem flestum gleði og ánægju.

Jafet fór yfir ársreikninga sambandsin, reksturinn gekk vel á síðasta ári, hagnaður var um miljón króna þrátt fyrir mjög þungt ár í rekstri þar sem landslið voru bæði send á Evrópumeistaramótið í Búdapest og á heimsleikana í Wroclaw í Póllandi.

Jafet minntist sérstaklega á að nú þessa dagana eru liðin 25 ár frá sigri okkar Íslendinga á Bermúdaskálinni 10. október í Yokohama í Japan 1991. Verður að því tilefni efnt til móttöku í nóvember þar sem þeim aðilum sem helst komu að undirbúningi og framkvæmd sem leiddi til þessa árangur verður boðið og einnig bauð Jafet þinggestum á móttökuna. 

Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga

Fundarstjór gaf nú orðið til fundarmanna sem vildu spyrja um ársskýrsluna og ársreikninga.

Nokkrar spurningar komu sem var svarað af forseta og stjórn. Það sem m.a. var rætt um var:

  • Mörgum er tíðrætt um að BSÍ leggi enn meiri áherslu á Bridge kynningu og kennslu fyrir ungt fólk. Jörundur ræddi um Mini Bridge, að nota það sem upphaf á kynningu fyrir Bridge í skólum og Ingibjörg Guðmundsdóttir sagði frá þeirri leið sem farin væri hjá Breiðfirðingum að byrja kynningu á spilamennsku með félagsvist. Kennsla úti á landi/Akureyri hefur gengið illa.

  • Kynning á félaginu var rædd og var bent á að leita þurfi nýrra leiða eins og auglýsingar á netinu til að vekja athygli á Bridge, ekki væri nóg að setja inn auglýsingar nokkrum sinnum á ári í helstu dagblöðin.

  • Landsliðsmál voru rædd og sér í lagi val á landsliði kvenna. Kom fram veruleg óánægja með hvernig var staði að vali í landsliðið, sérstaklega þriðja parinu. Í svari Jafets kom fram að Landsliðsnefnd hafi valið þriðja parið eftir að hafa skoðað ýmsa þætti sem vert væri að hafa í huga. Í umræðunni um Landsliðsmál var því velt upp hvort hún beitti of íhaldssömum vinnubrögðum og spurt hvort þyrfti að skipta henni út eða hressa uppá hana.

  • Nokkrir kvöddu sér hljóðs og lýstu yfir ánægju með störf stjórnar BSÍ og rekstrarafkomu.

Fundarstjóri bar upp reikningana til samþykktar eða synjunar og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

Formenn fastanefnda skýra frá starfsemi nefndanna.

Enginn formaður fastra nefnda gerði grein fyrir störfum nefnda.

Kosningar:

Stefán Vilhjálmsson bar upp tillögu uppstillingarnefndar að stjórn BSÍ 2016-2017

Forseti: Jafet Ólafsson

Stjórn: Guðný Guðjónsdottir, Árni Már Björnsson, Ingimundur Jónsson og Anna Guðlaug Nielsen

Meðstjórnendur: Ingibjörg Guðmundsdóttir og Birkir Jón Jónsson.  

Fundarstjóri óskaði eftir frekari framboðum sem ekki komu.

Fundarstjóri bar þá tillögur uppstillingarnefndar undir fundinn og voru þær samþykktar með lófataki.

Löggiltur endurskoðandi: Samþykkt tillaga um Guðlaug R. Jóhannsson

Skoðunarmenn reikninga: Ari Kr. Sæmundsen og Sigurjón Harðarson.

Dómstóll BSÍ: Tillaga um eftirfarandi samþykkt: Bjarni H. Einarsson, Guðmundur Baldursson, Helgi Bogason, Kristján Már Gunnarsson Jón Þorvarðarson, Ragnar Magnússon, Pétur Guðjónsson.

Ákvörðun árgjalds: Tillaga um óbreytt árgjald, það er 130 kr. var samþykkt.

Önnur mál:

Sigrún Þorvarðardóttir kom með þá hugmynd að BSÍ fengi einhvern til þess að vekja athygli á Bridge í fjölmiðlum og stakk uppá Aðalsteini Jörgensen í því sambandi, að han yrði gerður að sérstökum fjölmiðlafulltrúa BSÍ. Var tekið undir þörf á aukinni fjölmiðlaumfjöllun og þeirri þörf að "matreiða" fréttir í blöð og aðra fjölmiðla.

Jafet Ólafsson nefndi þá hugmynd að koma  á sérstöku Senior landsliði og senda á mót eins og Evrópumótið. Margar þjóðir gera þetta og er víð mikil keppni um að komast í þetta heldrimanna lið. Til að kanna þetta nánar er lagt til að eftirfarandi aðilar verði settir í undirbúningsnefnd: Björn Theodórsson, Guðmundur Baldursson, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Karl Sigurhjartarson og Árni Már Björnsson.

Páll Valdimarsson lagði fram í fjarveru Rúnars Einarssonar erindi um breytingu á Keppnisreglugerð BSÍ grein 2.3.4 lið. þess efnis að lagt er til að aðeins verði horft til nýjustu meistarastigaskráa við röðun sveita. Horft verði til allra í sveitinni og ekki verði bætt við stigum frá seinustu 5 ára. Breytingin þótti óljós og ekki nægjanlega vel sett fram og var lagt til að vísa tillögunni til stjórnar BSÍ og hún skoði nánar og hafi samband við málshefjanda. Var fólk almennt sammála að fara varlega í breytingar sem snúa að Íslansmóti og vanda þar til verka.

Jörundur Þórðarson bendir á að við gerð mótaskrár þurfi að horfa til þess að þau mót sem gefa Íslansmeistara titil séu ekki höfð í upphafi tímabilsins heldur færð aftar.

Garðar Garðarsson greindi frá stöðu Alfreðssjóðs. Sjóðurinn var settur á laggirnar til styrktar yngri spilurum, tæp hálf milljón er í sjóðnum. Eftir talsverða umræðu þingmanna um sjóðinn var samþykkt að það fé sem er í sjóðnum verði afhent stjórn BSÍ til kennslu og kynningu á íþróttinni.

Stefán Vilhjálmsson nefndi þá stöðu að erfitt getur verið fyrir félög að skipa í sveitir í Kjördæmamótinu. Endurskoða þurfi reglugerðir með tilliti til stöðunnar í dag.

Vigfús Pálsson kom með þá frétt inn á þingið að von er á nýjum Bridge lögum sem þýða þarf uppá nýtt. Undirbúa þarf þessa vinnu og fá til þess öfluga þýðendur.

Jafet Ólafsson fékk orðið að lokum og þakkaði þeim sem hverfa úr stjórn BSÍ og bauð nýja aðila velkomna. Hann nefndi það að ráða þurfi til kennslu í a.m.k. tvö ár einstakling sem er tilbúin að fara í þessa vinnu innan framhaldsskólanna og jafnvel meðal yngri einstaklinga. Hann gerði að lokum að umtalsefni húsnæðið í Síðumúlanum, hversu vel það er nýtt mikið líf í því alla daga. Leitin að nýju húsnæði stendur þó enn yfir og tilboðum verður ekki tekið fyrr en hentugt húsnæði finnst.  

Að lokum þakkaði Jafet þingfulltrúum fyrir fundarsetuna.

Fundi slitið skömmu fyrir kl.16:00

Fundarritun: Árni Már Björnsson

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar