Ársþing BSÍ 18.október 2015

mánudagur, 26. október 2015

Ársreikningur 

Ársþing BSÍ 18.okt. 2015

67. Ársþing Bridgesambands Íslands 2015 haldið sunnudaginn 18.október kl. 13-16

Þingsetning: Jafet Ólafsson forseti BSÍ setti þingið og bauð fundarmenn velkomna. Stungið var upp á Guðmundi Baldurssyni sem fundarstjóra og Árna Má Björnssyni sem ritara og samþykkti fundurinn það með lófataki.

Guðmundur Baldurrsson tók við fundarstjórn og fékk uppástungur um þrjá í kjörbréfanefnd, Brynjólf Gestsson, Guðrúnu Jörgensen, Jörund Þórðarson og nefndin tók strax til starfa og vék af fundi til að fara yfir kjörbréfin. Stungið var upp á þremur í uppstillingarnefnd þeim Kristjáni Má Gunnarssyni, Stefáni Vilhjálmssyni og Eiði Mar Júlíussyni og var það samþykkt.

Fulltrúar félaga á ársþinginu voru 21 og áheyrnafulltrúar voru þrír: Sigrún Þorvarðardóttir, Anna Guðlaug Nielsen og Þórður Ingólfsson. Frá stjórn BSÍ sátu fundinn Jafet Ólafsson, Árni Már Björnsson, Helga Bergman, Garðar Garðarsson, Ingimundur Jónsson, Guðný Guðjónsdóttir og framkvæmdastjóri sambandsins Ólöf Þorsteinsdóttir.

Fulltrúar félaga sem sóttu þingið:

B.f. Muninn                1          2 atkv.        Sigurjón G. Ingibjörnss

B.f. Kópavogs             3         3 stkv.        Jörundur Þórðarson, Hjálmar S. Pálsson, Eiður Mar

        Júlíusson

B.f. Hafnarfjarðar      1          2 atkv.         Erla Sigurjónsdóttir

B.f  Borgarfjarðar       2          2 atkv.                    Þorvaldur Pálmason, Ingimundur Jónsson.

Bf. Reykjavíkur           4          4                            Rúnar Einarsson, Guðný Guðjónsdóttir, Júlíus                                                                 Sigurjónsson, Rúnar Einarsson                       

Bf. Akureyrar              1          2 atkv.        Stefán Vilhjálmsson (2)

Miðvikudagsklúbb.     4          4 atkv.        Sveinn R. Eiríksson, Guðrún Jörgensen, Guðlaugur

                                                                    Sveinsson, Hrannar Erlingsson

Bf. Breiðfirðinga        3          3 atkv.         Ingibjörg Guðmundsdóttir, Kristinn Andrésson,

                                                                    Garðar V. Jónsson.

Bf. Selfoss                   2          2 atkv.        Kristján Már Gunnarsson, Brynjólfur Gestsson

Skýrsla forseta um störf stjórnar Bridgesambandsins

Stjórn BSÍ sem kjörin var á ársþingi Bridgesambandsins þann 19. október 2014 hélt 10 fundi á starfstímabili sínu. Stjórnina skipa: Jafet S. Ólafsson forseti, Guðný Guðjónsdóttir varaforseti, Árni Már Björnsson ritari, meðstjórnendur eru Ingimundur Jónsson, Helga Bergmann, Garðar Garðarsson og Guðmundur Snorrason. Ólöf Þorsteinsdóttir er sem fyrr framkvæmdastjóri. Helstu verkefni, sem verða tilgreind hér á eftir, eru svipuð ár eftir ár. Sumum verkefnum lýkur náttúrlega aldrei, en áherslur breytast eftir því sem tímarnir líða.        

Helstu verkefni:

  • 1. Að stuðla að kynningu á bridge í framhaldsskólum til að fá meiri endurnýjun meðal ungs fólks. Hæg endurnýjun er vandamál sem flest bridgesambönd í Evrópu glíma við, Hollendingar og Ísraelsmenn hafa þó náð athyglisverðum árangri að fá ungt fólk til að spila bridge. Í þessum tilgangi var útbúinn bæklingur fyrir rúmum þremur árum og er enn verið að dreifa honum. Kennsla fór fram í þremur skólum, gekk það misjafnlega en þó má fullyrða að tekist hafi að kveikja áhuga unglinga í Grafarholti og Menntaskólanum í Kópavogi. Einnig var kennt á Selfossi og í Borgarfirði og gekk það ágætlega. Það verður að segjast eins og er að spilaáhugi er takmarkaður meðal ungmenna, sem skýrist af því að þetta er tölvu- og farsímakynslóðin. Kynningarstarfinu verður haldið áfram í vetur og meiri áhersla lögð á það, sem vonandi ber árangur. Nýliðabridge var tekið upp og var ágæt aðsókn að því.

  • 2. Að auka kynningu á bridge í fjölmiðlum. Vel tókst til við kynningu á Reykjavík Bridgefestival í janúar 2015, RÚV birti alllanga frétt með viðtölum og sama gerði Stöð2. En alltaf þarf að hafa töluvert fyrir því að fá fjölmiðla til að fjalla um bridge. Morgunblaðið birtir alltaf úrslit úr mótum og er það að þakka Arnóri Ragnarssyni og Guðmundur Páll er með sinni fasta dálk sem gleður margan manninn í morgunsárið yfir kaffibollanum. Enn er verið að reyna að fá Fréttablaðið til að fjalla um bridge, en þegar eitthvað mjakast áleiðis er skipt um menn í brúnni og þá þarf að byrja frá grunni. En málið er á borðinu hjá Fréttablaðinu. Skákin fékk smá dálk og við erum að biðja um það sama.

  • 3. Að ná fram leiðréttingu á opinberum fjárstuðningi - en samanburður við önnur sérsambönd er bridge-sambandinu mjög í óhag ef farið er yfir fimm síðustu árin. Þarna höfum við unnið góða sigra, má þakka það góðum skilningi menntamálaráðherra á gildi bridge sem góðri íþrótt fyrir fólk á öllum aldri. Árið 2015 hækkaði framlag til Bridgesambandsins úr 8 mkr í 10 mkr. Í frumvarpi til fjárlaga 2016 er framlagið hækkað í 13 mkr. Við erum að ná því marki að framlögin verði leiðrétt miðað við hvað þau voru fyrir árið 2008.

  • 4. Mótaskrá - undirbúningur og framkvæmd móta. Mótanefnd bar hitann og þungann af uppsetningu mótaskrár og sér framkvæmdastjóri okkar síðan um undirbúning og framkvæmd og kallar fólk til eftir þörfum, þetta hefur gengið eins og vel smurð vél. Alltaf eru þó skiptar skoðanir um niðurröðun móta. Mótaskrá ber þess merki að undirbúningur landsliðsins tekur þrjár helgar sem taka þarf tillit til.

  • 5. Húsnæðismál - leit að betra og hentugra húsnæði fyrir sambandið er enn til athugunar. Við höfum fengið tilboð frá fjárfestum í húseign sambandsins. Ekkert verður gert nema búið sé að finna nýtt og enn betra húsnæði. En úrvalið af góðu húsnæði er takmarkað.

  • 6. Reykjavík Icelandair Bridge Festival mót í janúar 2015. Met þátttaka var í mótinu og tekjur af því góðar fyrir sambandið, og eru tekjur af því mikilvægar í fjáröflun sambandsins. Menntamálaráðherra setti mótið með glæsibrag og fékk það góða umfjöllun í fjölmiðlum. Hótel Natura (Hótel Loftleiðir) er að verða of lítið fyrir þetta mót, því hefur verið kannað að flytja mótið í Hörpuna og standa viðræður yfir um það mál. En Harpan kostar sitt. Undirbúningur er þegar hafinn fyrir mótið 2016 sem verður á Natura. Bill Gates kom hingað til lands í júlí í sumar, og fékk hann í hendur bréf frá Bridgesambandinu þar sem honum var formlega boðið á Bridgehátíð. Hann er þekktur fyrir að vera ástríðufullur bridgespilari.

  • 7. Norðurlandamótið í Færeyjum í lok maí 2015. Landsliðið skipuðu þeir Jón, Baldursson, Sigurbjörn Haraldsson, Aðalsteinn Jörgensen, Bjarni Einarsson, Gunnlaugur Sævarsson og Kristján Már Gunnarsson, fyrirliði var Jón Baldursson en Jafet Ólafsson var honum til aðstoðar. Skemmst er frá því að segja að liðið varð Norðurlandameistari með glæsibrag í annað skipti í röð. Kvennalandsliðið skipuðu Ragnheiður Haraldsdóttir, Una Sveinsdóttir, Bryndís Þorsteinsdóttir og María Haraldsdóttir. Ólöf Þorsteinsdóttir var þeim til halds og trausts. Liðið lenti í 5. sæti á mótinu. Samhliða mótinu var haldinn fundur forseta og framkvæmdastjóra Bridgesambanda Norðurlandanna. En töluverð samvinna er milli sambandanna. Framkvæmd mótsins hjá Færeyingum var þeim til sóma.

  • 8. Evrópska Bridgesambandið, Jafet var kjörinn í stjórn þess á fundi í Króatíu sumarið 2014, haldnir voru þrír stjórnarfundir á árinu, auk þess sem starfað var í nefndum. Með setu í stjórnin er komin góð tenging við öll stærstu Bridgesamtök Evrópu og vonandi eiga góðir punktar eftir að skila sér til Íslands.

  • 9. Landsliðsmál. Evrópumótið verður í Búdapest júní 2016. Búið er að ganga frá landsliðsmálum í Opna flokknum, þar hafa 13 pör lýst yfir áhuga á landsliðssæti. Keppt verður þrjár helgar um sæti, auk þess sem landsliðsnefnd velur tvö pör. Ragnar Hermannsson mun halda utan um þjálfun liðsins. Kannað var hvort ekki væri áhugi á að senda kvennalið, og mættu 23 konur til fundar, þannig að mikill áhugi er fyrir hendi. Ekki hefur verið sent kvennalið á Evrópumót nú í ein 10 ár. Guðmundur Páll mun halda utan um þjálfun, en konurnar munu keppa tvær helgar um sæti í landsliðinu. Stjórn sambandsins hefur samþykkt að kanna áhuga á að senda öðlingalið þ.e. senior flokk eldri en 60 ára og hefur verið samþykkt að sambandið greiði móttsgjöld, en þátttakendur þyrftu að sjá um annan kostnað. Nú er verið að kanna hverjir hefðu áhuga á þátttöku.

  • 10. Samningar við flugfélög. Sambandið er með góðan samning við Icelandair, sem er aðalstyrktaraðili Icelandair Reykjavík Bridgefestival. Samningurinn var endurnýjaður síðastliðið sumar, og nú í október er verið að ganga frá nýjum samningi til næstu tveggja ára.

  • 11. Fjárhagur sambandsins er sterkur og góður hagnaður var á síðasta ári. En það er kostnaðarsamt starfsár framundan, Evrópumót og síðan Ólympíuleikar að ári. Það mun því ganga á þennan sjóði sambandsins. Mikilvægt er að Bridgesambandið sé fjárhaglega sterkt, um leið og hallar á í fjármálum þá er voðinn vís í starfseminni og stjórnin hefur haft það að leiðarljósi.

  • 12. Auglýsingamál. Á síðasta ári var starfsemi Bridge- sambandsins auglýst með tveimur hálfsíðu auglýsingum i Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Bridgeskóli Guðmundar var einnig auglýstur sérstaklega. Í haust var þetta endurtekið með auglýsingarnar auk þess sem DV var bætt við. Auglýsingar þessar eru góð aðferð til að vekja athygli á bridge og verður þessu haldið áfram.

  • 13. Bridgekennsla í fyrirtækjum. Haft var samband við fjölda fyrirtækja og bauðst sambandið til að útvega bridgekennslu í fyrir starfslið þeirra. Þetta var sérstaklega tekið fram í auglýsingunni sem getið var hér að framan. Ómar og Guðmundur Páll eru ávallt tilbúnir að taka að sér svona verkefni.

  • 14. Eldri borgarar. Bridge er vinsælt meðal þeirra og nú hefur tekist samkomulag um að félög eldri borgara spili bridge í húsnæði Bridgesambandsins tvo daga vikunnar frá kl. 13.00 til kl. 17.00. Mikil ánægja er með þessa spilamennsku og aðstöðuna hjá sambandinu.

  • 15. Kjördæmamótið var haldið í Stykkishólmi og var framkvæmd þess með miklum ágætum. Morgunblaðið fjallaði sérstaklega um mótið. Færeyingar mættu ekki í þetta skiptið enda var þá bara vika í Norðurlandamót í Þórshöfn. Næsta mót verður haldið á Egilsstöðum í maí 2016.

  • 16. Bridge í Hörpunni. Í tengslum við Menningarnótt var spilað á tveimur borðum í Hörpunni og gestum og gangandi boðið að prófa sig við græna borðið.

  • 17. Sumarbridge, góð aukning varð í sumarbridge eða um 20% fjölgun para milli ára, mjög oft voru um 40 pör að spila, spilað var mánudags- og miðvikudagskvöld og stjórnaði Sveinn Rúnar þessum kvöldum og fórst það sem fyrr vel úr hendi.

  • 18. Ný heimasíða bridge.is. Hafin er vinna við gerð nýrar heimasíðu fyrir sambandið og stefnt að því að taka hana í notkun í janúar 2016. Reyndar var stefnt að því að þessari vinnu væri lokið í ársbyrjun 2015. Þetta er andlitslyfting, nýjar myndir settar inn og mikið af eldra efni hverfur nú úr gagnagrunninum. Heimsíðan gengir ágætlega sínu hlutverki en það þarf nútímavæða hana.

Jafet fór yfir ársreikninga sambandsin, reksturinn gekk vel á síðasta ári, hagnaður var um 2,9 mkr, félagið er nánast að verða skuldlaust. En framundan er kostnaðarsamt starfsár

 "Bridge gerir lífið skemmtilegra" er okkar kjörorð og vonandi færir það mörgum gleði og ánægju.

Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga

Fundarstjór gaf nú orðið til fundarmanna sem vildu spyrja um ársskýrsluna og ársreikninga.

Nokkrar spurningar komu sem var svarað af forseta og stjórn. Það sem m.a. var rætt um var:

  • Þörf á að BSÍ legði áherslu á Bridge kynningu og kennslu fyrir ungt fólk,

  • Vanda til spilastaðar í úrslitum á Íslandsmóti.

  • Fyrirspurn kom um þá þjónustu sem BSÍ gæti veitt félögum.

  • Fyrirspurn kom um kostnað vegna landsliða á næst ári.

  • Hvernig má ná til ungra spilara - leita nýrra leiða.

Fundarstjóri bar upp reikningana til samþykktar eða synjunar og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

Formenn fastanefnda skýra frá starfsemi nefndanna.

Mótanefnd: Engin skýrsla

Meistarastiganefnd: Garðar Garðarsson sagði frá því að enginn fundur hafi verið haldinn í nefndinni. Hann velti síðan upp umræðu um meistarastiganálar, mismunandi væri hvernig og hvort félög veittu spilurum þessar nálar og jafnframt benti hann á að það vantaði einstaka nálar s.s. Stórmeistaranálar. Eigum við að halda áfram nálagjöfum eða ekki?

Heiðursmerkjanefnd: Engin tillaga barst.

Mótanefnd: Engin skýrsla barst.

Dómnefnd: Ekki þurft að kalla saman undandarin ár.

Laga og keppnisreglunefnd: Fá erindi hafa borist og mál þá yfirleitt leyst fljótt og vel rafrænt.

Lagabreytingar: Rúnar Einarssonf bar upp breytingatillögu á 6 gr. laga BSÍ þess efnis að færa tímasetningu á þingi BSÍ fram til maí í tengslum við kjördæma mót í stað október. Þar sem lagabreyting barst skrifstofu BSÍ ekki í tíma var þessum lagabreytingum vísað frá. Tillagan var þó tekin til umræðu og almennt var tekið undir sjónarmið flytjanda tillögunnar. Samþykkt var að fela stjórn BSÍ að útfæra þessa tillögu fyrir næsta þing.

Til umræðu var einnig tekin breyting á styrkleika flokkun sveit atil Íslandsmóts og var útfærsla á þeirri tillögu einnig vísað til stjórnar BSÍ.

Kosningar: Kristján Már Gunnarsson bar upp tillögu uppstillingarnefndar að stjórn.

Forseti: Jafet Ólafsson

Stjórn: Guðný Guðjónsdottir, Árni Már Björnsson, Ingimundur Jónsson og Guðmundur Snorrason. Meðstjórnendur Anna Guðlaug Nielsen og Júlíus Sigurjónsson.  

Fundarstjóri óskaði eftir frekari framboðum sem ekki komu.

Fundarstjóri bar þá tillögur uppstillingarnefndar undir fundinn og voru þær samþykktar með lófataki.

Löggiltur endurskoðandi: Samþykkt tillaga um Guðlaug R. Jóhannsson

Skoðunarmenn reikninga: Stefanía Sigurbjörnsdóttir og Ari Kr. Sæmundsen. Varamenn Sigurjón Harðarson og Hrannar Erlingsson.

Dómstóll BSÍ: Tillaga um óbreyttan dómstól samþykkt. Bjarni H. Einarsson, Guðmundur Baldursson, Helgi Bogason, Kristján Már Gunnarsson Jón Þorvarðarson, Ragnar Magnússon, Þorsteinn Berg.

Ákvörðun árgjalds: Tillaga um óbreytt árgjald, það er 130 kr., samþykkt

Önnur mál: Garðar Garðarsson greindi frá stöðu Alfreðssjóðs. Sjóðurinn var settur á laggirnar til styrktar yngri spilurum, tæp hálf milljón er í sjóðnum.

Umræða hélt áfram bæði um lagabreytingu Rúnars sem ekki varð og reglugerðabreytingu vegna styrkleikaflokkun sveita. Lagt var til að breytingum á styrkleikaflokkun sveita verði lokið fyrir svæðamótin sem hefjast í febrúar.

Þorvarður Pálmason sem setið hefur þing BSÍ í 40-45 ár kvaddi sé hljóðs og byrjaði á því að óska nýkjörinni stjórn BSÍ farsældar. Hann tók undir áður fram komna umræðu um þörfina á eflingu á nýliðafræðslu og spenntur fyrir kennsluefni frá Hollandi og Ísrael. Vill að BSÍ bjóði félögum uppá nútímavæðingu á fundarsetu eins og með Skype og að félög fái að koma að útliti vefsíðu BSÍ.

Þórður Ingólfson ræddi um erfiða stöðu keppnisstjóra, reyndir keppnisstjórar væru fáir sem setti stórmót eins og Flugleiðamótið í uppnám. Þórður vék einnig að framkvæmd með spilagjöf.

Rúnar Einarss velti því fyrir sér hvort skipa þyrfti yfir höfuð í nefndir þar sem aðeins tvær nefndir skiluðu skýrslu. Kalla frekar til nefndir eftir þörfum. Hann óskaði síðan eftir frekari upplýsingum um þá rannsókn sem Jafet vitnaði í um betri námsárangur Bridgespilara.

Jafet Ólafsson greindi frá að sú rannsókn sem hann væri að vitna í væri frá Svíþjóð komin og einnig hefði svipuð rannsókn verið gerð í Bandaríkjunum. Jafet nefndi síðan aðra rannsókn sem Danir hafa staðið að þar sem Bridge / spilamennska dragi úr hrörnun eins og Alseimer.

Að lokum sleit forseti fundi og þakkaði jafnframt þeim sem hætta í stjórn fyrir vel unnin störf og bauð nýja stjórnarmeðlimi velkomna. Hann sagði að það væri mikill metnaður innan Bridge hreyfingarinnar og stefnan er sett á að komast á næsta heimsmeistaramót en til þess þurfum við að vera í einu af efstu sætunum á Evrópumótinu í Budapest í júní á næsta ári.

Góður árangur léttir okkur starfið.

Fundarritun: Árni Már Björnsson

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar