Stjórnarfundur 21.ágúst 2013
8. Fundur í stjórn Bridgesambandi Íslands, haldinn 21. ágúst, 2013 kl. 16.00
Mætt voru Jafet, Ólöf, Garðar, Guðný, Helga og Jörundur
Árni Már og Örvar boðuðu forföll
1. Fundargerð síðasta fundar samþykkt
2. Mótaskrá fyrir veturinn 2013-2014 er komin á netið. Nú þegar hefur mótanefnd borist alvarlegar athugasemdir vegna erfiðleika við að koma fyrir undankepni í kjördæmunum fyrir Íslandsmótið í sveitakeppni. Formaður mótanefndar greindi frá tillögum mótanefndar til að leysa þennan vanda. Paramótið í tvímenningi sem sett er á helgina 15.-16. febrúar veldur þessum vanda. Frá þessu var greint á spjallinu í dag og vonast er til að fá viðbrögð væntanlegra þátttakenda í mótinu. Aðaltillaga mótanefndar gengur út á að færa þetta mót til helgarinnar 22.-23.mars. Stjórn er tilbúin að styðja þessa breytingu en þó hinkra og fá viðbrögð bridgespilara við þessu. Einnig er mjög mikilvægt að slík breyting fengi góða kynningu enda búið að setja mótaskrá á netið.
Mótanefnd hefur einnig fjallað deildakeppni. Gagnleg umræða hefur farið fram á spjallinu, tillögur liggja fyrir um að fækka liðum í hverri deild og keppt verði í þremur deildum og sex lið verði í 1. deild og einnig í 2. deild. Aðrar sveitir keppa í þriðju deild.
3. Landsliðsmál. Næsta verkefni er EM í Búlgaríu í júní 2014. Jafet stakk upp á að halda sér við svipað skipulag og síðast, unnið verði með átta para æfingateymi í opna flokknum til að æfa fyrir þetta verkefni, umsjón hafi GPA. Einnig verði æfingamót fyrir valin pör sem valin verða fyrir lok febrúar. Ekki er víst að kvennalið verði sent á EM. Stjórn BSÍ er opin fyrir því að sveit eldri spilara keppi á EM en lofar ekki nema mjög takmörkuðum fjárstuðningi við það. Þeir sem hafa áhuga á slíku verða að fjármagna dæmið nánast að fullu. Jafet greindi frá því að klúbbar erlendis hafi verið myndaðir utan um svona verkefni. Vonast er til að litlar breytingar verði á landsliðsnefnd.
4. Kynning á bridge - Stjórn BSÍ mun láta birta auglýsingu í Morgunblaðið, svipaða og fór í blöðin fyrir ári, þó reiknað með að mynd af Norðurlandameisturum fylgi með. Reynslan af þessu var góð í fyrra, mun meiri aðsókn í Bridgeskólann.
5. Kennsla í skólum. Reiknað er með því að áfram verði kennsla í Rimaskóla enda afar góður stuðningur skólastjórnenda þar við verkefnið. Einnig verður kennsla í Kvennaskóla og munu Helga og Guðný halda áfram sínu góða sjálfboðaliðastarfi í tengslum við bæði þessi verkefni.
6. Jafet sýndi stjórninni bréf sem hann hefur skrifað til menntamálaráðherra. Þar greinir hann frá hinum stórfellda niðurskurði á fjárveitingum sem BSÍ mátti sætta sig við. Miklar vonir eru bundnar við að einhver leiðrétting fáist. Einnig reiknar Jafet að hann fái fund með ráðherra til að fylgja þessari málaleitan eftir. Einnig greindi Jafet frá því að menntamálaráðherra sendi árnaðaróskir og bauð spilurum og þjálfurum ásamt mökum til samsætis í ráherrabústaðnum um miðjan júní til að fagna Norðurlandameistartitilinum.
7. Ársþing. Undirbúningur fyrir ársþingið 20. okt er hafinn. Uppgjör ársreikninga miðar við að starfsárið endi 31.ágúst. Rætt var um hvort ástæða væri til að heiðra einstaklinga, heiðursmerkjanefnd (yfirleitt skipuð forseta BSÍ og fyrri forsetum) hefur hingað til séð um það val en einnig er það á valdi stjórnar að fjalla um það. Einnig þarf að huga að framboðum til nýrrar stjórnar BSÍ.
8. Húsnæðismál. Ekkert hentugra húsnæði hefur fundist, en fasteignasölur hafa kíkt á ýmsa valkosti án árangurs. Hins vegar er stjórnin sammála um að minniháttar andlitslyftingu á húsnæðinu að Síðumúla 37 og skoða breytingu eða lagfæringu á eldhúsi.
9. Næstu tveir fundir eru fyrirhugaðir mánudagana 16. sept og 14. okt kl 16.00.
Jörundur Þórðarson ritari