4.fundur 22.des. 2008

sunnudagur, 11. janúar 2009

4. fundur nýrrar stjórnar BSÍ haldinn kl. 15.00 mánud. 22. des. 2008


Mættir Þorsteinn Berg forseti, Garðar Garðarsson, Guðný Guðjónsdóttir, Jörundur Þórðarson, Ólöf Þorsteinsdóttir, Páll Þórsson, Ragnheiður Nielsen og Sveinn R. Eiríksson.

> 1.  Skýrsla framkvæmdastjóra Frá síðasta fundi hefur eitt mót farið fram: Íslandsmót í bötler-tvímenningi, þann 6. des.2008, Síðumúla 38.  Spilaðar voru 11 umferðir með 5 spilum milli para. Fjöldi keppenda voru 23 pör. Útreikningur:  Reiknuð er meðalskor í spili . Mismunur á skori pars og meðalskori er umreiknað í impa. Frábær keppnisstjóri Sveinn Rúnar Eiríksson.  Íslandsmeistarar síðasta árs stórspilararnir Jón og Þorlákur náðu ekki að verja titil sinn. Hlynur og Hermann gulltryggðu sig í lokaumferð með risaskori 24 impum.

> Þrjú efstu pör: Hlynur Angantýsson - Hermann Friðriksson 74, Kristján B Snorrason - Jón Ágúst Guðmunds   55, Kristján Blöndal - Karl Sigurhjartarson 49

> 2.  Norðurlandamót unglinga (Guðný, Ragnheiður, Ólöf). Eftir að hafa verið í sambandi við nokkra aðila og fengið ágæt tilboð frá þeim (Laugarvatn, Hótel Örk, Selfoss og 2 eða fleiri staðir í Reykjavík þá var meginniðurstaðan að hagkvæmast væri að nýta húsnæði Bridgesambandsins fyrir spilamennsku, gisting og morgunmatur yrði á hótel Vík í Síðumúlanum og matur yrði frá Múlakaffi  (Askur kom líka til greina).  Hægt væri að bjóða 30.000 króna pakka á spilara (4 gistinætur + þrisvar hádegis- og kvöldmatur + spilagjöld) skírdagur 9. apríl til og með páskadagur 12. apríl. Mótinu ætti að ljúka með verðlaunaafhendingu kl 18.00. Nokkur umræða var um hvort hægt væri að bjóða upp á einhverja dagskrá að loknu móti en nánast allt er lokað á páskadag. Hugsanlega hægt að hafa opið í húsnæði BSÍ.

> Sveinn samdi um "running score" fyrir unglingamótið (600 evrur).  Í leiðinni nefndi hann að hann hafði fengið kunningja til að líta á og hreinsa gamla spilagjafavél. Reikningur fyrir vinnu ekki kominn.  Árangurinn var sá að nú er hægt að nota vélina, hann stakk upp á því að spilagjafavélarnar væru hreinsaðar reglulega, það myndi auka endingu. Það að senda vélarnair í viðhald til erlends framleiðsluaðila er afar óhagstætt en hefur verið gert.

> 3.  Samskipti við alþingi. Eftir að fjárlaganefnd lækkaði styrk til BSÍ um 7,5 milljónir var öll starfsemi BSÍ í uppnámi. Framkvæmdastjóri samdi mikið bréf til fjárlaganefndar sem sent var til nefndarinnar og bar það góðan árangur. Framlag ríkis verður því 13,5 milljónir á næsta ári og verður þá heildarlækkun 10%. Þetta þýðir að starfsemin á að geta verið eðlileg en gæta verður ýtrasta aðhalds í rekstri.

> Samskipti við Reykjavíkurborg: Ólöf og Jörundur áttu bókaðan tíma hjá Helga Þór Jónassyni daginn eftir. Þau áttu ágætt viðtal við hann í nýju glæsilegu húsnæði Reykjavíkurborgar að Borgartúni 10-12. Hann sagði okkur að við værum á réttum tíma með fasteignaskattinn. Núna er borgin að endurskipuleggja sínar styrkveitingar og munu líklega bjóða öllum íþróttafélögum (sem uppfylla ákveðin skilyrði s.s. ekki rekin í ágóðaskyni) sömu kjör sem sennilega verði 80% afsláttur á fasteignaskatti. Þetta yrði auglýst í janúar og þá yrðum við að sækja um. Ársreikningar þurfa að vera með.

> 4.  Fjármál sambandsins.  Ólöf gerði grein fyrir helstu kostnaðarliðum. Meðal kostnaðarliða eru: laun keppnisstjóra, kostnaður af hýsingu heimasíðu, rafmagn og hiti, öryggisvarsla (Securitas) og tryggingar (TM), nettenging, sími, laun framkvæmdastjóra, bókara og ræstitæknis, viðgerð á uppþvottavél, fasteignagjöld, húsgjöld.

> Niðurstaðan var að reyna að lækka marga af þessum póstum, talið var að

> of hátt gjald væri greitt í mörgum tilvikum, sjálfsagt að krefjast lækkunar ella leita að öðrum samstarfsaðila. Ragnheiður telur að lækka megi kostnað vegna heimasíðu um 40-50%. Sumir voru á því að óþarfi væri að vera með öryggisþjónustu en aðrir töldu að það að hafa hana ætti að lækka tryggingar auk þess sem þessi þjónusta væri of hátt verðlögð og krefjast ætti lækkunar eða tilboða frá öðrum. Flestir töldu einnig að tryggingagjöld væu of hátt verðlögð, þetta er póstur sem þarf að fylgjast með á hverju ári. Ekki var rætt um símakostnað þótt full ástæða sé til þess. A.m.k. 4 símafyrirtæki eru á markaðinum og hefur undirritaður sjálfur skipt nýlega um viðskiptaaðila með góðum árangri. (Heimasíminn frítt í alla aðra heimasíma, gsm frítt í alla gsm hjá sama félagi, ódýrastir í aðra gsm, niðurhal á neti, markaðshlutdeild er 46 þúsund símar) Hugsanlega hægt að fá auglýsingu.

> Framkvæmdastjóri greindi frá því að fjölmiðlavakt hefði verið sagt upp enda varla stætt á öðru meðan yfirdráttur er og fjárhagsstaða svona erfið. Á móti kemur að sjoppan mun greiða fyrir aðstöðu með því að aðstoða við þrif sem gæti lækkað kostnað vegna þrifa, framkvæmdastjóri var einnig tilbúinn að liðka þar til.

> Björn Eysteinsson er ekki enn búinn að rukka 2 eða 3 styrktaraðila (Evrópumót). Einnig óinnheimtur ferðakostnaður.

> Eftirfarandi liðir ekki ræddir:

> gerð fjárhagsáætlunar,

> fella hugsanlega niður þátttöku Íslands í erlendum mótum þetta árið.

> 5.  Sveinn tók að sér að skoða hvaða þjónustu BSÍ getur boðið upp á. (Í framhaldi af viðræðum við Vilhjálm forseta borgarstjórnar). Hann er ekki búinn að fullmóta sínar tillögur og bréf þar um. Í þessum tillögum gæti verið boðið upp á kennslu kl. 10-13 og spilamennsku kl 13-17. Þess utan er spurning um námskeið vegna þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá, þetta myndi auðga flóru þeirra námskeiða sem boðið væri upp á.

> 6.  Vandi í sambandi við Bridgehátíð.  Rekstur flugfélagsins Icelandair og Icelandair hótel er kyrfilega aðskilinn. Hótelið hefur boðið okkur upp á 72 fríar gistinætur eins og undanfarin ár. þetta má segja ágætt tilboð. Fram að þessu hefur flugfélagið alltaf boðið okkur allnokkrar fría flugmiða og höfum við því getað boðið nokkrum hátt skrifuðum bridgespilurum á mótið enda mikill vegsauki fyrir mótið. Alger viðsnúningur hefur orðið og samkvæmt síðustu fréttum er enga flugmiða að hafa. Þrátt fyrir þetta verður ekki komist hjá því að bjóða Brenning og nokkrum bridgespilurum hefur nú þegar verið boðið frítt flug. Þetta er afar slæmt mál því búast má við að allur flugkostnaður, sem við þurfum að greiða, verður halli á mótinu. Örlítill gróði var á síðustu Bridgehátið. Bridgehátíðarnefndin er að leita leiða til að mótið verði áfram í plús eða standi a.m.k. undir sér. Vonast er til að stjörnutvímenningur standi undir sér með því að selja aðgang að sterkum félaga.

> Vinningsupphæð hefur fengið að halda sér í íslenskum krónum talið. Það hins vegar þýðir lækkun í erlendri mynt. Ekki er heldur reiknað með því að bjóða stjórn eða öðrum  í mat.

> Í  Bridgehátíðarnefnd eru Kristján Blöndal, Jón Baldursson, Gunnlaugur Karlsson og Sveinn R. Eiríksson.

> 7.  Önnur mál.

> Rætt var um staðsetningu Íslandsmótsins í tvímenningi 7.-8. mars. Erfitt er að halda það í húsakynnum BSÍ ef fjölmennt verður vegna þrengsla. Ekki laust í Grand hótel, tilboð hjá Loftleiðum óljóst, fleiri möguleikar ófrágengnir.

 Sveinn vakti athygli á námskeiði sem haldið verður í Róm helgina 29.-31.janúar. Þetta námskeið er m.a. fyrir þá sem að fræðslumálum koma Eftirfarandi heimasíður segja betur frá þessu:  5th NBO Administrators' Seminar ,  Rome, Italy,   29 January - 1 February 2009

 http://www.eurobridge.org/departments/seminars/2009NBOSeminar/PresLett

 er.pdf http://www.eurobridge.org/index2.html  : og velja síðan

 "Departments" / "Directing" / "Courses" síða sem segir frá síðustu keppnisstjóra námskeiðum.

 http://www.eurobridge.org/index2.html  og velja síðan "Departments/ Seminars / NBO Administrators' Seminars  Þá má sjá fyrri námskeið sem haldin hafa verið.

Sveinn telur að þessi námskeið séu mjög þýðingarmikil.  

Kveðja

Jörundur

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar