28. nóvember 2005
Stjórnarfundur BSÍ 28.nóvember 2005
Mættir: Guðmundur Baldursson, Ísak Örn Sigurðsson, Kristján Blöndal, Helgi Bogason, Hrafnhildur Skúladóttir, Halldóra Magnúsdóttir, Ómar Olgeirsson, Páll Þórsson, Frímann Stefánsson.
Ekki mættir: Sveinn Rúnar Eiríksson, Svala Pálsdóttir.
1. Skýrsla forseta
Guðmundur minntist á 3 nýleg mót. Telur að deildakeppnin hafi heppnast vel og paramótið en óvenju fá pör í Íslandmóti kvenna.
Búið er að ná samningum við Mitchell um sjoppuna.
Stefanía Sigurbjörnsdóttir er byrjuð að vinna í bókhaldinu. Ekki hefur verið gott skipulag á bókhaldinu eftir að fyrrum framkvæmdastjóri hætti en er nú komið í góðan farveg.
Minnt er á að framhaldsþingið verður 18.desember og er það í höndum gömlu stjórnarinnar að klára bókhaldið fyrir síðasta ár.
Búið er að kaupa tölvu sem er hugsuð fyrir bókhaldið og getraunadeildina. Framkvæmdastjóri hefur hina tölvuna fyrir sig.
Getraunadeildin hefur nýlega fengið greiðslur frá Íslenskri getspá, alls um 1,5 milljónir.
Sótt var um 12 milljóna styrk til fjárlaganefndar. Nýlega kom svar frá fjárlaganefnd að Bridgesamband Íslands hlýtur 12 milljónir í styrk en í fyrra var þessi upphæð 9,5 milljónir.
2. Skýrsla framkvæmdastjóra
Samningur getraunadeildar við Siglingafélagið Brokey rennur út núna um áramót. Búið er að sækja um til íslenskrar getspár að Bridgesambandið sé skráð fyrir getraununaáheitum. Bridgesambandið er ekki í ÍSÍ og því var gerður samningur við Brokey upphaflega.
Ísak spyr hvort eigi að kaupa aðra spilagjafavél fyrir Bridgehátíð. Arnar hefur bent á að það sé mikilvægt að hafa aðra spilagjafavél til vara ef hin bilar. Hún kostar á milli 200 og 300 þúsund. Þetta er samþykkt.
Simon Gillis sem spilar við Boye Brogeland hafði samband vegna vandræða með flugmiða. Þeir voru búnir að panta miðana fyrir löngu en stutt síðan þeir komust að því að búið er að breyta tímasetningum á bridgehátíð. Búið er að breyta dagsetningum á flugmiðunum en óheppilegt að svona mál komi upp.
3. Bridgehátíð
Kristján Blöndal hefur tekið sæti í bridgehátíðarnefnd og greinir frá stöðu mála.
Hjördís Eyþórsdóttir kemur með sveit. Ekki búið að fá lokasvar frá Zia Mahmood og Alan Sontag. Jón Baldursson er á haustleikunum í Bandaríkjunum að vinna í því að finna sveitir. Þetta ætti að skýrast mjög fljótlega.
Sænska landsliðið hefur líst yfir áhuga á að koma og munu þeir fá frí keppnisgjöld en ekki flug og hótel.
Verið er að skoða með tilboð hjá Flugleiðum fyrir erlendar sveitir
Á Norðurlandamótinu í Danmörku síðasta sumar bauð Kristján fyrrverandi forseti Peter Hecht á Bridgehátíð og rætt var um að par/pör frá Íslandi fengju að taka þátt í Hecht Cup sem er firnasterkt tvímenningsmót haldið í Danmörku í september. Þetta þarf að ræða nánar í bridgehátíðarnefnd en hún virðist ekki hafa vitað af þessu boði fyrr en nýlega.
Kristján útskýrir ástæðuna fyrir breyttum tímasetningum á bridgehátíð: Ástæðan var að flogið var til Bandaríkjanna á mánudögum á árum áður en nú er það ekki vandamál. Flest stór bridgemót klárast á sunnudögum, innlend mót sem erlend. Kynna þarf tímasetningarnar vel til að lágmarka misskilning.
Stjörnutvímenningur verður miðvikudaginn á undan sjálfri Bridgehátíðinni. Kristján Blöndal mun fá fyrirtæki til að kaupa pör á 30 þúsund. Hluti af því sem safnast fer í verðlaun, hluti til BSÍ og Kristján mun taka smá þóknun. Áætlað er að um 14 pör taki þátt, þar af um 6-7 íslensk. Heimsmeistararnir frá 1991 nokkur landsliðspör.
Ekki er búið að ákveða hvar stjörnutvímenningurinn verður spilaður.
Ræða þarf við sjónvarpsstöðvar um að gera stjörnutvímenning og Bridgehátíð góð skil. Páll leggur til að gerður verði sérstakur þáttur um Bridgehátíð.
Það hefur verið rætt við Mary Pat Frick um gerð mótsblaðs á Bridgehátíð. Hún hefur ekki gefið svar en hún vill spila svo ekki víst að úr þessu verði. E.t.v. væri hægt að gera eitt blað í byrjun en ekki alla dagana. Þarf að skoða betur.
Kristján leggur það til að allri stjórninni verði boðið út að borða með erlendum gestum en ekki bara hluti af henni eins og oft hefur verið.
Thomas Brenning frá Svíþjóð hefur boðist til að koma með Bridgemate-tölvur til að reikna út Bridgehátíðina. Spilarar slá sjálfir inn úrslit á litla tölvu og þetta sparar innslátt á úrslitum. Úrslit liggja strax fyrir. Þessi tækni hefur verið notuð á Evrópu- og heimsmeistaramótum undanfarið með góðum árangri. Það þarf að fara að gera Brenning tilboð fljótlega. Bridghátíðarnefnd hefur lagt til að hann fái 2000$, flug og hótel fyrir hann og konu hans. Ef okkur líst vel á þessa útreiknitækni þá verður í framhaldi rætt um kaup á þessum tölvum.
4. Undankeppni Íslandsmóts í sveitakeppni - spilastaður
Ísak er búinn að kanna nokkra möguleika, m.a. Hótel Örk og Grand Hotel. Ekki laust þar. Rætt um að skoða Hótel Loftleiðir, Hótel Selfoss og e.t.v. hús Taflfélags Reykjavíkur. Ef það gengur ekki þyrfti að athuga hvort Síðumúli 39 er laus.
5. Landsliðsmál
Opinn flokkur
Búið er að ræða við Björn Eysteinsson. Hann er tibúinn til að vera landsliðseinvaldur en það yrði dýrara en venjulega. Um 2-3 milljónum dýrara en venjulega en Björn og Guðmundur Eiríksson hafa ákveðnar fjáröflunarleiðir í huga til að ráða við þennan aukakostnað. Þeir myndu sjálfir sjá um það. Á næsta ári eru 15 ár frá því Íslendingar unnu Bermúdaskálina og tilefni til að leggja mikið í landsliðsmál. Björn hefur ákveðin pör í huga og ef þau gefa ekki kost á sér þá er hann ekki tilbúinn að taka þetta að sér. Landsliðsmenn munu fá bónusgreiðslur fyrir góðan árangur á Evrópumótinu næsta sumar. T.d. 100 þúsund fyrir 12.sæti og 250 þúsund ef Ísland kemst á topp 5, þ.e. á heimsmeistaramótið. Það skýrist fljótlega hvort Björn mun taka þetta að sér en gera þarf ráðstafanir ef það gengur ekki.
Kvennalandslið
Halldóra leggur til að spilað verði um sæti í landsliðinu, segir almennan áhuga sé fyrir því hjá konum miðað við það sem hún hefur heyrt. Það mætti hugsa sér að taka meðaltal úr nokkrum stærstu mótunum, ekki bara innbyrðis keppnir kvenna sem gilda. Halldóra telur að ekki hafi tekist vel til í fyrra því ekki var staðið við það fyrirkomulag sem var lagt upp með en þá var lagt upp með það að árangur í nokkrum stærstu mótunum myndi hafa áhrif á val í liðið. Helgi Bogason bendir á að gerð hafi verið skýrsla um kvennalandslið. Þessa skýrslu þarf að skoða. Almennt eru stjórnarmenn sammála um að senda kvennalandslið og gera meira úr þjálfun en verið hefur, ekki bara nokkra mánuði rétt fyrir mót. T.d. mætti hugsa sér að 10 pör yrðu á reglulegum æfingum. Guðmundur og Halldóra munu skoða málin fyrir næsta fund og koma með tillögu með fyrirkomulag og þjálfara.
Yngri spilarar
Ómar hefur verið með æfingar og keppnir fyrir yngri spilara á miðvikudögum og leggur Guðmundur til að svo verði áfram.
Eftir áramót verður Guðmundur Páll með byrjendanámskeið fyrir skólafólk.
Ómar bendir á að ekki er neitt mót á næsta ári fyrir landslið yngri spilara en hins vegar er opið heimsmeistaramót í tvímenningi í lok júni.
Þessi mál þarf að ræða nánar síðar.
6. Önnur mál
Páll kemur með tillögu að Íslandsmóti í bötlertvímennigi sem er tvímenningur með sveitakeppnisútreikningi og hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Fundarmenn taka vel í að prófa það. Væntanlega þarf lagabreytingu til að koma með nýtt Íslandsmót en hægt væri að gera tilraun í vor. Finna þarf hentugan tíma.
Garðar og vélar hafa sótt um styrk vegna helgarmóts í Uppsala í Svíþjóð. Skoða þarf hvort fordæmi eru fyrir því að veita styrk í mót af þessu tagi. Fundarmenn sammála um að það sé annað ef sótt er um styrk á opin Evrópumót eða heimsmeistaramót. Framkvæmdaráð mun skoða þetta mál.
Næsti fundur mánudaginn 12.desember kl. 17:30
Ómar Olgeirsson