5. apríl 2005

þriðjudagur, 5. apríl 2005

Stjórnarfundur BSÍ 05. apríl 2005

Mættir á fundinn: Kristján B Snorrason, Erla Sigurjónsdóttir, Helgi Bogason, Jóhann Stefánsson, Sveinn R Eiríksson, Kristján Blöndal, Matthías Þorvaldsson og Guðmundur Ólafsson. Fjarverandi: Einar H Jónsson, Ólafur Steinason.

1. Ráðning framkvæmdastjóra

Niðurstaða fundar Matthíasar, Kristjáns Bl. og Sveins um hvort fýsilegra væri að hafa tvo starfsmenn hjá BSÍ (eða einn og hálfan) en einn varð var ekki afgerandi. Forseti sagði frá því að hann hefði ekki haldið fund með þeim aðila sem var efstur á lista varðandi framkvæmdastjórastarfið. Rökstuddi hann þá ákvörðun og óskaði eftir umræðu um hana. Eftir nokkrar umræður lagði hann svo fram tillögu um að hætta við ráðningu framkvæmdastjóra að sinni og var það samþykkt samhljóða. Stjórnin ákvað að ráðinn skyldi starfsmanður á skrifstofu til að byrja með, en svo væri rétt að bíða og sjá hvernig færi með þá umleitan til yfirvalda að fá styrkveitingu til fræðslu- og kynningarfulltrúa. Forseti kanni hvort lagabreytingar þarf til á næsta þingi, verði endanleg niðurstaða sú að leggja niður framkvæmdastjóraembættið.

2. Skrifstofan

Forseta falið að klára samninga við Indu Hrönn Björnsdóttur, til næstu 3ja mánaða (út júní).

3. Yngri spilarar

Kristján forseti og Erla héldu fund með Bjarna H Einarssyni um undirbúnings- og fyrirliðamál yngri spilara fyrir NM í sumar. Ekki náðust samningar í fyrstu tilraun, en þau fá nú umboð til að reyna til þrautar, að vísu innan ákv. marka.

Erindi barst um Evrópumót Háskólaliða sem haldið verður í 9. sinn nú síðsumars (24.-29. ágúst nk), að þessu sinni í Hollandi. Mótið er fyrir spilara sem fæddir eru frá 1. janúar 1977 til 31. des 1987. Gisting pr. sveit kostar 75 þús kr og var samþykkt að óska eftir umsóknum með það fyrir augum að bjóða uppihald og gistingu, en spilarar sjái sjálfir um að greiða flugfarið.

4. Bridgehátíðarnefnd

Hlutverk nefndarinnar rætt. Stjórnin ákvað að skipa nýja Bridgehátíðarnefnd. Varaforseti beðinn að taka sæti í nefndinni, honum var einnig falið að kanna hvort mótsstjóri síðustu Bridgehátíðar, Elín Bjarnadóttir, sé tilbúin til nefndarstarfa og að finna annan/aðra til samstarfs. Bókaðar þakkir til fyrri nefndar, hér sé alls ekki verið að lýsa vantrausti á störf hennar.

5. Starfslýsingar

Matthías og Sveinn Rúnar þurfa að fara að skila af sér tillögum um starfslýsingar fyrir hin ýmsu störf. Hefur setið á hakanum.

6. Veitingasalan og Sumarbridge 2005

Stjórnin samþykkti að rekstur Sumarbridge 2005 yrði nú í höndum BSÍ. Rekstur veitingasölunnar einnig, í sumar, en stefnt að því að bjóða rekstur hennar út í haust. Helgi, Matthías og Sveinn ákveði hvernig Sumarbridge 2005 verði háttað, hvaða þjónusta verður í boði fyrir spilara o.s.frv.

7. Bókhaldsmál

Vignir Hauksson tók að sér að ganga frá launum og vsk fyrir síðasta tímabili, mun vonandi taka að sér bókhald BSÍ.

8. Önnur mál

Matthías kom með tillögu um að skrifstofa BSÍ endurveki Firmakeppni BSÍ, safni sveitum, hringi í fyrirtæki og mótið fari fram laugardaginn 14. maí. Tillagan var samþykkt. Ákveða þarf tilhögun mótsins, keppnisgjald, verðlaun o.s.frv. Mótanefnd og skrifstofan vinni saman að þessu, hratt, því stutt er í mót.



Kristján forseti greindi frá símtali við fulltrúa eldri borgara Glæsibæ, en þeir höfðu sýnt áhuga á að nýta sér húsnæði BSÍ til dagspilamennsku. Nú hafði þetta breyst, vegna bílastæðaskorts og er ætlunin að kaupa nýtt húsnæði undir starfsemi eldri borgara. Forseti fær umboð stjórnar til að þreifa áfram á hugsanlegu samstarfi, e.t.v. varðandi þetta nýja húsnæði.

9. Óklárað frá síðasta fundi

Fjáröflunarmál voru ekki tekin fyrir, þó það hafi staðið til, skv. síðustu fundargerð. Verða rædd næst, 12. apríl.
********
Ganga þarf frá árlegri styrkbeiðni til ríkisvaldsins. Hér telur stjórnin líklegast til árangurs að sækja um aukið fjármagn í tengslum við e.k. tímabundið átak, tengt fræðslu-, útbreiðslu- og kynningarmálum BSÍ. Ákveðið að framkvæmdaráð fái Jóhann Stefánsson o.fl. sér til aðstoðar við að klára þessa styrkbeiðni og að hún liggi fyrir á næsta fundi (12. apríl nk.) - Framkvæmdaráð klárar þetta
********
Enn er ekki endanlega ljóst hvar í Reykjaneskjördæmi Kjördæmamótið 2005 verður haldið. - Erla klárar þetta
********
Heimasvæði - Sveinn er að vinna í þessu
********
Myndir í húsnæði BSÍ - Sveinn ætlar að reyna að finna þær
********
Landsleikjatal - Sveinn er að vinna í þessu
********
Næsti fundur verður eftir viku, þriðjudaginn 12. apríl.

Fleira ekki skráð af því sem rætt var,
fundi slitið kl. 19:15



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar