29. mars 2005

þriðjudagur, 29. mars 2005

Stjórnarfundur BSÍ 29. mars 2005

Mættir á fundinn: Kristján B Snorrason, Erla Sigurjónsdóttir, Helgi Bogason, Einar H Jónsson, Sveinn R Eiríksson, Kristján Blöndal, Matthías Þorvaldsson og Guðmundur Ólafsson. Fjarverandi: Jóhann Stefánsson, Ólafur Steinason.

1. Skýrsla forseta

Forseti setti fundinn kl 17:25 og sagði skýrslu sína að öllu leyti samtvinnaða við aðra fundarliði, að þessu sinni. Matthías skipaður fundarritari, í fjarveru Ólafs.

2. Íslandsmótið í svk, úrslit

Framganga Ljósbrár Baldursdóttur í nýliðnu Íslandsmóti í sveitakeppni hefði verið með þeim hætti að rétt væri að veita viðurkenningu fyrir slíkt með einhverjum viðeigandi hætti, síðar.

Forseti gat þess að þó boðsbréf hefðu verið send forsvarsmönnum þeirra fyrirtækja sem studdu sveitir til keppni, hefði mæting verið lítil, líklega vegna skamms fyrirvara. Þó hefðu þessi bréf mælst vel fyrir á a.m.k. tveim stöðum, sem er auðvitað gott.

Niðurstaða stjórnar var sú, eftir allnokkrar umræður, að úrslitin hefðu verið undirmönnuð af starfsfólki. Það hafi einna helst komið fram í ónógum fréttaflutningi (textavarpið illa nýtt, RÚV flutti engar fregnir, engar sjónvarpsmyndavélar sáust á svæðinu, GÓU-mótið illa kynnt fyrirfram og enn verr eftirá), auk þess vantaði starfsfólk í flutninga, eftir mótið. Stjórn telur að hér sé helst um að kenna tímabundnu reynsluleysi og að það vanti skýrari verk- og vinnuferla.

Fámennt þótti á spilastað í lok mótsins. Til að sporna við því ákvað stjórnin að bæta á næsta ári einni laugardags-spilalotu við GÓU-mótið, henni lyki um hálftíma áður en sveitakeppnin kláraðist og yrði svo sameiginleg verðlaunaafhending.

Mótsblað var skrifað á meðan úrslitin stóðu yfir og þótti það frábært framtak. Því var bókað sérstakt þakklæti til Ómars Olgeirssonar fyrir óeigingjörn störf hans við mótsblaðið.

3. Ráðning framkvæmdastjóra - skrifstofan, bókhald, uppgjörsmál

Annar þeirra umsækjenda sem ákveðið hafði verið að ræða áfram við (á síðasta fundi, 22. mars sl.) var búinn að draga starfsumsókn sína til baka. Ekki reyndist unnt að ræða við hinn umsækjandann fyrir þennan fund.

Þá vaknaði sú hugmynd á nýjan leik, að e.t.v. mætti skoða betur þann möguleika að hafa eitt og hálft stöðugildi á skrifstofu BSÍ, en ekki bara eitt. Mikilvægt sé þó að kostnaður aukist ekki úr hófi við þessa tilhögun. Ákveðið var að Sveinn Rúnar, Kristján Blöndal og Matthías kæmu með drög að svona tveggja starfsmanna útfærslu á næsta fund.

Ráðningartími þeirra sem hafa unnið á skrifstofunni undanfarið er liðinn. Í ljósi þess var ákveðið að forseti tæki að sér að ræða við Indu um að fylla áfram í skarðið á skrifstofunni, a.m.k. í apríl og maí.

Bókhaldsmál eru orðin brýn, uppgjör móta einnig. Ákveðið að Helgi Bogason tali við Vigni Hauksson um að taka að sér bókhald BSÍ.

Fjáröflun var enn og aftur rædd, Kristján Blöndal lýsti yfir vonbrigðum með að ekkert hafi gerst í fjáröflunarmálum á þessu tímabili, sama með tíð síðustu stjórnar. Hann ítrekaði að ólíklegt væri að nokkuð myndi gerast í fjáröflunarmálum á meðan menn ættu að vinna slíka vinnu í sjálfboðavinnu. Kristján forseti minntist á nauðsyn þess að lagt væri strategískt út í svona vinnu, kortleggja þá sem líklegir væru til að styrkja starfið, áður en lagt væri til atlögu. Ákveðið að taka þetta aftur upp á næsta fundi.

4. Kvennabridge - endanleg afgreiðsla landsliðsnefndar

Matthías kynnti í stuttu máli þá endanlegu niðurstöðu landsliðsnefndar kvenna að afgreiða málið sem rætt var á síðasta fundi (22. mars sl.) þannig að landsliðið stendur óbreytt. Þessi niðurstaða hefur verið kynnt öllum þeim bridskonum sem hlut áttu að máli.


5. Styrkbeiðni til ríkisvaldsins

Ganga þarf frá árlegri styrkbeiðni til ríkisvaldsins. Hér telur stjórnin líklegast til árangurs að sækja um aukið fjármagn í tengslum við e.k. tímabundið átak, tengt fræðslu-, útbreiðslu- og kynningarmálum BSÍ. Ákveðið að framkvæmdaráð fái Jóhann Stefánsson o.fl. sér til aðstoðar við að klára þessa styrkbeiðni og að hún liggi fyrir á næsta fundi (5. apríl nk.)

6. Yngri spilarar

Stjórnin fékk heimsókn frá Bjarna H Einarssyni á síðasta fundi (22. mars sl.) í kjölfar bréfs frá honum (sem að vísu inniheldur nokkrar staðreyndavillur sem verða leiðréttar síðar). Stjórnin kann vel að meta áhuga Bjarna og eldmóð, Kristján forseti og Erla taka að sér að klára undirbúnings- og fyrirliðamál yngri spilara fyrir næsta fund. Ekki þykir stjórn ástæða til að ráða manneskju á föst laun hjá BSÍ vegna yngri spilara starfs á þessum tímapunkti, réttara sé að skoða slíkt með haustinu.

7. NM í opnum flokki í sumar

Á síðasta fundi (22. mars sl.) var ákveðið að kanna fyrst til hlítar möguleikann á því að skipa NM-liðið Eyktar-deildarkeppnisspilurum í sumar, en leita ella til sveitar Skeljungs. Eykt reyndist ekki möguleiki og verður því leitað til Skeljungsmanna, skv. ákvörðun meirihluta stjórnar á umræddum fundi (22. mars). Kristján forseti mun ræða við Skeljungsmenn fyrir næsta stjórnarfund (5. apríl).

8. Eldri borgarar í Síðumúlann?

Erindi barst frá eldri borgurum í Glæsibæ, hvort möguleiki væri á flutningi í Síðumúlann. Þetta eru gleðitíðindi og mun fulltrúi frá þeim hitta Svein Rúnar, Kristján forseta og Erlu, í vikunni, og fæst niðurstaða í þetta mál vonandi fyrir næsta fund.

9. Kjördæmamótið í lok maí

Nokkur umræða fór fram um hvernig að kjördæmamótum væri staðið hjá samböndunum og hvort þau þyrftu jafnvel stuðning hjá BSÍ. Erla ætlar að kynna sér fyrir næsta fund hvort mótið verður í Reykjanesbæ, Hafnarfirði eða annars staðar í Reykjaneskjördæmi hinu forna.

10. Heimasvæðið á Netinu

Sveinn Rúnar er að vinna í að fá heildartilboð frá 2-3 aðilum og mun leggja þau fyrir stjórn þegar þau liggja fyrir.

11. Önnur mál

Kristján forseti ítrekaði þann vilja sinn að setja upp myndir af bridgespilurum víðsvegar um húsnæðið. Matthías mundi eftir safni gamalla mynda sem hékk í miðsalnum í Þönglabakka, textað af Þórði heitnum Sigfússyni. Sveinn Rúnar ætlar að kanna hvar þessar myndir gætu verið, því þær myndu sóma sér afar vel í Síðumúlanum.

Landsleikjatal íslenskra bridgespilara ku vera til allt fram til 1997 en ekki eftir þann tíma. Sveinn Rúnar ætlar að taka að sér að klára þetta dæmi og halda tímatal í leiðinni.

Næsti fundur verður eftir viku, þriðjudaginn 5. apríl.

Fleira ekki skráð af því sem rætt var,
fundi slitið kl. 19:25.Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar