8. febrúar 2005

þriðjudagur, 8. febrúar 2005

Stjórnarfundur BSÍ 08. febrúar 2005

Mættir á fundinn: Kristján B. Snorrason, Erla Sigurjónsdóttir, Jóhann Stefánsson, Ólafur Steinason, Einar Jónsson, Sveinn Rúnar Eiríksson , Kristján Blöndal, Matthías Þorvaldsson og Guðmundur Ólafsson. Helgi Bogason mætti kl. 17:50.

1. Ráðning nýs framkvæmdastjóra

Rætt um hvernig standa á að því. Kristján forseti býst jafnvel við því að nokkur fjöldi umsókna gæti komið um starfið. Hann telur ráðlegt að fá utanaðkomandi aðila til að sjá um ráðningarferlið, auglýsingar, viðtöl og þess háttar. Fram komu hugmyndir um að handvelja starfsmann án auglýsingar. Nokkrar umræður urðu um málið, en síðan var samþykkt samhljóða að að fá ráðningarskrifstofu í málið.

2. Ákvörðun um prókúruhafa sambandsins.

Stjórnin samþykkti formlega að Kristján forseti fái prókúru fyrir BSÍ, á meðan ekki er búið að ráða framkvæmdastjóra, og sjái um daglegan rekstur sambandsins. Einnig samþykkt að Kristján sæki um vínveitingaleyfi fyrir BSÍ, því það er veitt einstaklingi fyrir hönd fyrirtækis, og er á nafni fyrrverandi framkvæmdastjóra.

3. Dagleg viðvera á skrifstofu

Stjórnin samþykkti að Einar Jónsson verði ráðinn tímabundið til að vera á skrifstofunni á meðan ekki er búið að ráða nýjan framkvæmdastjóra. Ef hann þarfnast hjálpar, þá skal hann leita til stjórnar eftir henni.

4. Ráðstefna á Ítalíu 3. - 6. febrúar hjá EBL.

Kristján forseti sagði að enginn hafi verið sendur á ráðstefnuna, vegna þess að enginn átti þess kost að fara.

5. Bridgehátíð 2005

Búið er að fá vilyrði frá starfsfólki um að taka að sér mótstjórn, keppnisstjórn og útreikning. Guðmundur lagði fram fjárhagsáætlun fyrir Bridgehátíðina. Gert er ráð fyrir nokkrum hagnaði af mótinu, og eru helstu ástæður hærri mótsgjöld og hagstætt gengi dollara.

6. Önnur mál

Yngra unglingalandslið: Hópur ráðgjafa telur að 4-6 spilarar séu fyrir hendi í þennan flokk.

Næsti fundur verður 15. febrúar. Þar verða á dagskrá landsliðsmál, fræðslumál og Bridgehátíð.
Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 18:50.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar