20. janúar 2004

þriðjudagur, 20. janúar 2004

Stjórnarfundur 20. janúar 2004

Mættir á fundinn: : Kristján B. Snorrason, Matthías Þorvaldsson, Kristján Már Gunnarsson, Erla Sigurjónsdóttir, Ísak Örn Sigurðsson, Kristján Blöndal, Guðmundur Ólafsson, Una Árnadóttir og Stefanía Skarphéðinsdóttir. Fjarverandi: Jóhann Stefánsson og Helgi Bogason.

1. Skýrsla forseta

Forseti lýsti ánægju sinni með samstarfið og ræddi um að mörg verkefni væru í gangi en nú væru liðnir 3 mánuðir af starfsárinu og tímabært að líta yfir farinn veg og þá blasti það við, að herða þyrfti róðurinn til að starfið væri sýnilegra og ljúka þyrfti smærri málum.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra

Stefanía sagði frá því að skil á meistarastigum frá félögum hafi gengið óvenjuvel þessi áramót og þau eru komin inn á heimasíðuna.

Fjögur svæðamót voru haldin síðustu helgi og hefur þátttakan aukist töluvert og endurspeglar hún uppsveifluna sem er í gangi. Má t.d. nefna að 14 sveitir spiluðu á Vesturlandi.

Ánægjulegt er að segja frá því að Mímir og Námsflokkar Hafnarfjarðar eru að bjóða upp á bridgenámskeið. Kennarar eru Heimir Halfdánarson og Bjarni Einarsson.

Ákveðið hefur verið að bjóða eldri borgurum á höfuðborgarsvæðinu að spila hjá okkur 11. febrúar n.k.

Borist hefur boð á mót í Ísrael en það var afþakkað þar sem það ber upp á sama tíma og Bridgehátíðin.

Búið er að ganga frá ferðinni til Yokohama og munu bræðurnir Sigurbjörn og Anton Haraldssynir fara með Þresti Ingimarssyni og Bjarna Einarssyni.

3. Bridgehátíð

Óvenjumikil skráning hefur borist erlendis frá, þar af margir þekktir spilarar.
Sveit frá Ítalíu hefur þegið boð á Bridgehátíð, en Zia kemur ekki að þessu sinni.

4. Fræðslumál

Matthías kynnti yfirlit yfir stöðu fræðslumála BSÍ. Brigekennsla á vorönn 2004 er í boði hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands, Menntaskólanum í Kópavogi, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Menntaskólanum við Sund. Samtals eru þetta rúmlega 100 nemendur í þessum 4 skólum að læra bridge. Undirbúningsvinna er í gangi hjá fræðslufulltrúa að fjölga framhaldsskólum sem bjóða upp á bridgekennslu næsta haust. Ef það gengur eftir þá munu þeim fjölga talsvert.

Spilamennska byrjar aftur eftir jólafrí þann 21. janúar n.k. hjá BR yngri spilurum

5. Landsliðsmál

Samþykkt á fundinum að heimila framkvæmdastjórn að semja við Einar H. Jónsson um að þjálfa kvennalandslið fyrir Evrópumótið í júní 2004.

Allir stjórnarmenn voru sammála um að það þarf að vinna að stefnumótun fyrir kvennabridge til framtíðar. Forsetinn benti á að það gæti verið gagnlegt að fá aðila utan stjórnarinnar í þá stefnumótunarvinnu.

6. Önnur mál

Matthías var með fyrirspurn um hvernig gengi að fá beintengingu og fleiri síður í textavarpinu. Það er beðið eftir nýjum hugbúnaði, en Stefanía fylgir því máli reglulega eftir.

Búið er að lagfæra félagakerfið og Kristján Már sagði að Ólafur Steinason væri að gera aðgengilegar leiðbeiningar. Einnig var rætt um að setja jafnvel á heimasíðuna lista yfir félög sem nota kerfið og gaman að fylgjast með því að fleiri félög bætast við.

Guðmundur Ólafsson kom með tillögu um að sett verði í reglugerð að á öllum svæðamótum eigi að vera keppnisstjórar sem eru viðurkenndir af Bridgesambandinu. Þessari tillögu mun Guðmundur koma á framfæri á næsta ársþingi.

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl. 18:20



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar