8. október 2003
miðvikudagur, 8. október 2003
Stjórnarfundur 08. október 2003
Mættir á fundinn: Jón Sigurbjörnsson, Erla
Sigurjónsdóttir, Kristján Már Gunnarsson, Stefanía
Skarphéðinsdóttir, Elín Jóhannsdóttir, Matthías Þorvaldsson og Ísak
Örn Sigurðsson
1. Skýrsla forseta
Starfsemi þessa starfsárs einkenndist af samheldni þeirrar
stjórnar sem nú lætur af störfum. Strax í upphafi starfsárs gerðum
við stefnumörkun sem við höfum starfað eftir. Ákveðnum verkefnum
var þannig skipt milli stjórnarmanna:
Varaforseti: Matthías Þorvaldsson
Gjaldkeri: Kristján Már Gunnarsson
Ritari: Elín Jóhannsdóttir
Landsliðsumsjón: Anton Haraldsson
Lög og reglugerðir: Anton Haraldsson
Félagaumsjón: Birkir Jónsson
Fréttafulltrúi: Ísak Sigurðsson
Fræðslumál: Matthías og Erla Sigurjónsd.
Umsjón heimasíðu: Haukur Ingason
Meðstjórnandi: Kristján Örn Kristjánsson
Fræðslumál:
Aðaláherslan var lögð á fræðslumál ungmenna. Rætt var við fulltrúa
menntamálaráðuneytisins og fengin skrifleg yfirlýsing um að
bridgekennsla væri viðurkennd sem valgrein í framhaldsskólum og
hófst kennsla í nokkrum skólum í haust og aðrir hafa í hyggu að
byrja um nk. áramót. Ljósbrá Baldursdóttir var ráðin sem
fræðslufulltrúi BSÍ frá janúar til maí 2003 og hóf störf aftur í
ágústmánuði og gerður hefur verið samningur við hana fram í maí
2004. Mikil kynning á bridge hófst strax í byrjun þessa árs og voru
haldin námskeið fyrir grunn- og framhaldsskólanema sem kostuð voru
af BSÍ. Nú hefur Bridgefélag Reykjavíkur og BSÍ stofnað bridgefélag
yngri spilara og samkvæmt mótaskrá næsta starfsárs er gert ráð
fyrir framhaldsskólamóti en það var endurvakið í mars 2003 eftir
langt hlé.
Guðmundur P Arnarson hefur staðið fyrir almennri kennslu í bridge
og fullnægt eftirspurn að okkar mati.
Heimasíða:
Gerður var samningur um að öll bridgefélög fái aðgang að heimasíðu
fyrir sitt félag án greiðslu, en BSÍ hefur boðið aðstoð við
uppsetningu. Brýnt er fyrir forsvarsmönnum félagana að nýta sér
þennan möguleika til þessa að halda utan um starfsemi síns félags
og einnig til þess að góð heildarmynd af starfsemi bridgefélaga sé
ávallt að finna á heimasíðu BSÍ. Ísak Örn hefur tekið saman annál
fyrir þetta starfsá,r sem settur hefur verið inn á heimasíðu BSÍ,
en gert er ráð fyrir að á heimasíðum bridgefélaganna og
svæðasambandanna verði hægt að nálgast þessar upplýsingar fyrir
almenning í framtíðinni.
Fréttaþjónusta
Mikil og góð uppfjöllun um bridge í fjölmilðlum hefur ekki hvað
síst áhrif á vinsældir þessarar íþróttar en samkvæmt samantekt
Matthíasar hefur dregið úr fréttaflutingi um bridge á undanförnum
árum og verðum við að gera átak í þeim efnum.
Rætt var við forsvarsmenn bridgefélaga eldri borgara um að þau
gerðust aðildarfélagar að BSÍ með 50% afslætti m.v. almennan
félaga. Málið er í athugun og kemur til kasta næstu stjórnar að
fylgja því máli eftir.
Landsliðsmál.
Ráðnir voru landsliðseinvaldar bæði í opnum flokki og kvennaflokki.
Ekki náðist að manna landslið yngri spilara sem þó höfðu
Norðurlandameistaratitil að verja og er það miður.
Guðmundur P Arnarson var ráðinn fyrirliði og þjálfari í opnum
flokki fram yfir Evrópumótið í Svíþjóð í júní 2004 en liðið varð í
3. sæti á Norðurlandamótinu, sem haldið var í Færeyjum í vor. Oft
höfum við sigrað í opna flokknum á NL.mótum svo þessi árangur var
allt að því vonbrigði, sem sýnir hversu miklar væntingar við gerum
til okkar manna.
Hluti af æfingaprógrammi landsliðsins var að taka þátt í fyrsta
Opna Evrópumótinu sem haldið var í Frakklandi í júní 2003 og var
árangur okkar manna ekki eins og væntingar stóðu til, enda markið
sett hátt eins og áður er getið. Til þess að efla áhuga og þjálfun
okkar bestu spilara hefur landsliðseinvaldurinn í opnum flokki sett
í mótaskrá keppni í hæsta gæðaflokki sem tekur yfir 3 helgar í
október og nóvember til þess að auðvelda val á landsliði fyrir
Evrópumótið 2004.
Ragnar Hermannsson var ráðinn þjálfari í kvennaflokki fram yfir
NL.mótið í maí 2003. Landsliðið varð í næstneðsta sæti og því ljóst
að taka þarf ákvarðanir til lengri tíma um hvernig gott landslið í
kvennaflokki verður byggt upp og kemur það í hlut næstu stjórnar að
leggja línurnar í þeim efnum.
Íslandsmót.
Mikil skoðanaskipti hafa átt sér stað um fyrirkomulag og
staðsetningu Íslandsmóta. Gerð var könnun í Borgarnesi þegar
síðasta undankeppni í sveitakeppni var spiluð og mótaði stjórnin
sér skoðun á málinu í samræmi við þær niðurstöður. Næsta
undankeppni í sveitakeppni verður haldin í húsnæði BSÍ við Síðumúla
og salur í næsta húsi tekinn á leigu. Úrslitin verða spiluð á Hótel
Loftleiðum um páskana eins og áður. Lögð verður fyrir þetta þing
breyting á reglugerð þar sem gert er ráð fyrir sama fjölda sveita í
undanúrslitum en í fjórum riðlum þar sem 3 efstu sveitirnar komast
áfram eða samtals 12 í úrslit. Úrslitin verði síðan spiluð þannig
að fyrri hluta þess móts lýkur á föstudagskvöld en 4 efstu
sveitirnar spila til úrslita á laugardag. Rætt hefur verið um hvort
koma megi á öðru móti til hliðar við Íslandsmótið á sama tíma til
að auka umfang mótsins.
Þátttaka í Íslandsmót í tvímenning hefur dregist saman undanfarin
ár svo brýnt er, þótt ekki sé nema breytinganna vegna, að breyta
til. Lagt er til að gera veg svæðamótanna sem mestan með því að
leggja af undankeppnina en fjölga pörum sem hafa unnið sér rétt inn
í úrslitin frá svæðasamböndunum. Gert er ráð fyrir að 56 pör spili
í úrslitunum, sem verða tvískift líkt og í sveitakeppninni, þannig
að 24 pör spili um Íslandsmeistaratitilinn seinni hluta
mótsins.
Fjármál.
Eins og fram kemur í framlögðum reikningum standa tekjur undir
kostnaði að meðtöldum vöxtum og afskriftum og er það í samræmi við
þau markmið sem við settum okkur. Leigutekjur af húsnæði eru 5% af
fasteignamati þegar tillit er tekið til skrifstofuaðstöðu og þeirra
móta sem haldin eru í húsnæðinu en ekki reikningsfærð, sem
réttlætir þá fjárfestingu sem liggur í húsnæðinu að Síðumúla 37.
Unnið hefur verið að því á árinu að fá veitingaleyfi fyrir
starfsemi BSÍ og er verið að ganga frá því endanlega þessa
dagana.
Á fjárlögum ríkisins er gert ráð fyrir 8 milljón króna framlagi til
BSÍ á árinu 2004 eða sömu upphæð og okkur var úthlutað fyrir
síðasta starfsár.
Með auknum heimsóknum á heimasíðu BSÍ verður auðveldara að fá
auglýsingar á forsíðuna og hefur VÍS þegar gert samning til 3ja ára
og er það von mín að þarna verði um aukinn tekjustofn að ræða í
framtíðinni.
Rekstrar- og fjárhagsáætlun er nú gerð í maí fyrir komandi starfsár
en síðan gert ráð fyrir að hún sé endurskoðuð þegar ný stjórn tekur
við.
Að lokum vil ég þakka stjórnarmönnum og öðrum nefndarmönnum fyrir
mikið og óeigingjarnt starf svo og framkvæmdastjóra fyrir gott
samstarf. Einnig vil ég sérstaklega nefna Þórð Sigfússon, Jón
Stefánsson, Torfa Ásgeirsson og Jóni Baldursson en þeir hafa lagt
fram mikla og óeigingjarna vinnu í þágu BSÍ á undanförnum
árum.
|
2. Skýrsla framkvæmdastjóra
Stefanía skýrði frá því að að úttekt hjá byggingafulltrúa væri
loksins lokið.
Hún sagði Breiðfirðinga vera að hefja spilamennsku aftur eftir
nokkurt hlé og hefðu þeir hug á að verða aðilar að BSÍ.
Ekki sagði hún nýliðabridge hafa farið vel af stað því einungis 3
pör hefðu mætt á fyrsta kvöldið.
Hún sagði ársreikninga BSÍ tilbúna og sýndu þeir kr. 800.000 í
nettó hagnað. Helstu niðurstöðutölur reikninganna voru
skýrðir.
Framkvæmdastjóri sagði líka frá því að í s.l. viku hafi verið
fundur húseigenda í Síðumúla 37 og hafi verið ákveðið að stofna
húsfélag í framhaldi af honum. Ljóst er að viðgerðir á þaki eru
aðkallandi skv. úttekt Almennu Verkfræðistofunnar. Meðal annars
þarf að skipta um þakjárn og verður leitað eftir tilboðum í þetta
verk.
Að lokum þakkaði Stefanía Jóni forseta fyrir vel unnin störf á s.l.
ári þar sem Jón gefur ekki kost á sér áfram til formennsku.
|
3. Ársþing
Stefanía sagði undirbúning undir ársþing BSÍ sem haldið verður
19. okt. n.k. vera í fullum gangi. Stjórnin mun leggja fram tvær
breytingatillögur vegna Íslandsmóta í sveitakeppni og tvímenningi.
Ekki er víst að Anton geti mætt á þingið til að fylgja tillögunum
eftir, en ef ekki mun hann senda greinagerð um þær, en einhver
annar stjórnarmaður leggja þær fram.
|
4. Verksvið mótanefndar
Rætt var um hvert verksvið mótanefndar eigi að vera. Getur
mótanefnd ógilt úrskurð keppnisstjóra og er það t.d. í verkahring
nefndarinnar að túlka keppnisreglugerðir? Ákveðið að fela formanni
næstu áfrýjunarnefndar að taka á málinu.
|
5. Önnur mál
Matthías varpaði fram hugmynd um að halda
framhaldsskólakennaramót samhliða framhaldsskólamóti. Voru
fundarmenn sammála um að þetta gæti verið skemmtileg
uppákoma.
Erla ræddi um meistarastiganefnd, hvort hún ætti nokkuð að þurfa að
starfa nema í tengslum við ný mót sem haldin eru.
Fyrirspurn hafði borist frá Akureyri v/ ferðastyrks á landsliðsmót,
en sú fyrirspurn kemur of seint þar sem þau mót eru þegar
hafin.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:00
|