9. apríl 2003
miðvikudagur, 9. apríl 2003
Stjórnarfundur 09. apríl 2003
Mættir á fundinn: Jón Sigurbjörnsson, Anton
Haraldsson, Ísak Örn Sigurðsson, Matthías Þorvaldsson, Erla
Sigurjónsdóttir, Haukur Ingason, Kristján Már Gunnarsson, Elín
Jóhannsdóttir og Stefanía Skarphéðinsdóttir.
1. Skýrsla forseta
Forseti sagði frá því að drög að fjárhagsáætlun fyrir næsta
starfsár 2003-2004 muni að öllum líkindum fylgja með næstu
fundargerð. Annars væru forráðmenn framhaldsskólanna á fullu að
keppa sín á milli í bridge og yrði það vonandi til að efla
bridgeáhugann meðal framhaldsskólanema. Þegar hefðu ótrúlega margir
nemendur MH sýnt því áhuga að taka bridge sem valfag á næsta
skólaári.
|
2. Skýrsla framkvæmdarstjóra
Stefanía sagði frá því að úttekt á húsnæði sambandssins væri vel
á veg komin og myndi trúlega ljúka fyrir páska.
Ekkert að frétta af Mjóddarmálinu, en þar er Björgvin lögfræðingur
í samningum og beðið eftir tilboði.
Undirbúningur fyrir Íslandsmótið í tvímenning er í fullum gangi og
verður það haldið í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.
Stefanía skýrði einnig frá því að Bikarkeppni Norðurlanda verði
haldin í maí og eru íslensku bikarmeistarnir á leið þangað.
Samþykkt einróma að styrkja þá eins og gert hefur verið.
Stefanía sagði líka frá Íslandsmóti framhaldsskóla sem tekið er upp
á ný og fram fer 12. apríl, en þar mætti búast við þátttöku ca 10
sveita.
|
3. Sumarbridge - tilboð opnuð
Tvö tilboð höfðu borist vegna sumarbridge 2003.
Annað var frá Sveini Rúnari og Guðlaugi Sveinssyni en hitt frá
Matthíasi Þorvaldssyni, sem vék af fundi á meðan málið var
afgreitt.
Ákveðið var að taka tilboði Sveins Rúnars og Guðlaugs, þar sem það
var kr. 155.000 hærra en tilboð Matthíasar.
Með tilboði Sveins og Guðlaugs kom athugasemd vegna spilagjafar,
þar sem dýrara er að fá Mitchell gjöf.
|
4. Íslandsmót í sveitakeppni
a) Viðhorfskönnun í Borgarnesi
Gerð var viðhorfskönnun í undanúrslitum sveitakeppninnar í
Borgarnesi hvað varðar staðsetningu keppninnar og kom þar fram að
fyrir höfuðborgarbúa virðist staðsetningin skipta mestu máli.
Matthías lýkur vinnslu könnunarinnar og síðan verða niðurstöðurnar
lagðar fyrir mótanefnd sem skilar svo áliti á næsta fundi.
b) Úrslitin
Úrslitin í sveitakeppni verða spiluð á Hótel Loftleiðum um páskana
og var ákveðið að sýna sem flesta töfluleiki. Stefaníu var falið að
annast þetta.
|
5. Breytingar á keppnisreglugerðum.
Tillögur laga- og keppnisreglunefndar
a) Íslandsmótið í tvímenningi.
b) Íslandsmótið í sveitakeppni.
Lögð var fram meðfylgjandi tillaga laga- og keppnisreglunefndar
(Anton Haraldsson, Jón Baldursson, Sveinn Rúnar).
Jón byrjaði á að þakka nefndinni fyrir vel unnin störf en síðan
spunnust fjörlegar umræður um málin. Kom þar sterklega fram
ágreiningur um hvort einhver ætti rétt á þátttöku þó hann hefði
verið í efstu sætunum árið áður og bent á þá staðreynd, að í öðrum
íþróttagreinum þyrfti folk alltaf að taka þátt í allri keppninni,
en ekki koma beint inn í úrslitin.
Stefanía hrósaði vinnu nefndarinnar og hugmyndum á bakvið
tillögurnar. Hún sagði tvímenningsmótið greinilega vera orðið
þreytt mót og þar þyrfti nýja línu.
Tillaga um að liður 3.3 d) verði felldur niður og lið 3.3 b) breytt
úr 20 pörum í 26
- tekin til afgreiðslu á næsta stjórnarfundi.
Tillaga um að láta bráðabirgðaákvæðið þar sem 4 efstu sveitir í
hverjum riðli spili í úrslitum gilda almennt. (ekki vera
bráðabirgðaákvæði)
- tekin til afgreiðslu á næsta stjórnarfundi.
|
6. Norðurlandasamstarf
Fundur vegna Norðurlandasamstarfs verður haldinn 10. maí n.k.
Svíar eru formenn og eru með 4 tillögur sem þeir leggja fyrir á
fundinum.
a) Óbreytt samstarf
b) Svíar, Danir og Norðmenn haldi NM til skiptis og hin löndin fái
ferðastyrk.
c) NM verði alltaf haldin í S-Svíþjóð og verði Finnar Íslendingar
og Færeyingar styrktir til mótsins.
d) Hætta áframhaldandi samstarfi.
Ákveðið að Stefanía mætti á fundinn og styðji áframhaldandi
samstarf.
|
7. Landsliðsmál
Anton skýrði frá því að æfingar stæðu yfir af fullum krafti
vegna Norðurlandamótsins bæði í opnum flokki og kvennaflokki og að
búið væri að fækka pörum í kvennaflokki. Hann leggur til að ekki
verði send sveit yngri spilara á NM í sumar sökum tímaleysis
unglinganna. Var þetta samþykkt.
|
8. Fræðslumál
Erla sagði frá að æskulýðsfulltrúi Hafnarfjarðar hefði móttekið
bréf frá forseta B.S.Í. Matthías og Ljósbrá eru búin að hringja í
alla framhaldsskóla og er þar mikil vinna í gangi. Einnig kom fram
að brýnt væri að vera í góðu sambandi við
fræðslumiðstöðvarnar.
|
9. Önnur mál
Haukur lagði fram tillögur vegna heimasíðu, teknar fyrir á næsta
fundi.
b) Ályktun barst frá B.R. vegna félagakerfisins, sem þeim þykir
ekki skila sínu hlutverki til fulls, Ákveðið að athuga hvort Ólafur
Steinason Bf. Selfoss gæti ekki orðið félögunum innan handar, þar
sem hann notar kerfið með góðum árangri og er ánægður með það.
Einnig kom fram að Matthías hefur gert heimasíðu fyrir SÁÁ í
félagakerfinu og verður hún sett inn á næstu dögum.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 20.00
|