13. nóvember 202

miðvikudagur, 13. nóvember 2002

Stjórnarfundur 13. nóvember 2002

Mættir á fundinn: Jón Sigurbjörnsson, Stefanía Skarphéðinsdóttir, Matthías Þorvaldsson, Erla Sigurjónsdóttir, Elín Jóhannsdóttir, Anton Haraldsson, Ísak Örn Sigurðsson og Kristján Már Gunnarsson. Fjarverandi: Birkir Jónsson, Haukur Ingason, Kristján Örn Kristjánsson.

1. Skýrsla forseta.

Forseti skýrði frá því að beðið hafi verið um hækkun á fjárveitingu frá Alþingi úr 3 milljónum króna í 10 milljónir króna. Hann sagði mjög mikilvægt að koma bridge inn í framhaldskólana sem valfagi og hefur átt í viðræðum við aðila til þess að ná fram þeim markmiðum.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra.

Stefanía sagði frá því að Landstvímenningur yrði spilaður 16. nóvember á 9 stöðum á landinu. Athugulir spilarar hafa vakið athygli á því að á yfirstandandi spilaári verður Íslandsmótið í parasveitakeppni haldið tvívegis og voru vangaveltur um hvern ætti að titla Íslandsmeistara og þá fyrir hvaða ár. Bridgefélag Hornafjarðar er komið með heimasíðu, fyrst félaga í gegnum félagakerfið og allmörg félög eru komin með félagakerfið í notkun.

3. Laga og keppnisreglunefnd.

Anton lagði til að í nefndina yrðu kosnir: Jón Baldursson og Svein Rúnar Eiríksson og samþykkti stjórnin það einróma.
Anton sagði að megináhersla nefndarinnar yrði lögð á Íslandsmótið í tvímenningi, Íslandsmótið í sveitakeppni og að yfirfara reglugerð í bikarkeppni svo og að yfirfara almenna keppnisreglugerð.

4. Fræðslumál.

Matthías lagði fram drög að áætlun fyrir fræðslu- og útbreiðslustarf BSÍ.
Undir þessum lið var mikil umræða og bar öllum saman um að þetta væri eitt aðalforgangsmál stjórnarinnar en um leið kom fram að til þess að hægt væri að gera eitthvað í málinu þyrfti aukafjárveiting ríkisins að koma til. Stefnt er að því að geta byrjað þetta fræðslustarf strax í janúar árið 2003 og þá þarf að vera búið að taka ákvörðun um með hvaða hætti fræðslan eigi að vera, hvaða kennsluefni eigi að nota, staðsetning fræðslu og fleira.

5. Landslíðsmál.

Anton skýrði frá stöðu mála og sagðist ekki sjá grundvöll fyrir að ráða þjálfara í flokk yngrispilara strax, þar sem í þeim flokki væru aðeins 4 spilarar og þar af 2 með reynslu. Vildi hann hafa þennan flokk áfram í biðstöðu.
Anton lagði einnig til að gengið verði til samninga við Guðmund Pál um þjálfun í opnum flokki og yrði hann þar landsliðseinvaldur fram yfir Evrópumót 2004 og mætti athuga hvort yngri spilarar gætu tekið þátt í þeirri þjálfun að einhverju leyti.
Varðandi kvennaflokk lagði Anton einnig til að gengið yrði til samninga við landsliðseinvald sem byrjaði undirbúning í febrúar n.k. og þjálfaði liðið fram yfir Norðurlandamót 2003 og byrjaði síðan aftur í okt. og þjálfaði liðið fram yfir Evrópumót í Malmö 2004. Þessi tillaga var samþykkt og Jóni og Stefaníu falið að ganga til samninga við væntanlega landsliðseinvalda.

6. Fjármál.

Kristján Már sagðist vera að kynna sér fjármálin og sagði þau í besta lagi, kerfið væri einfalt og skilvíst.

7. Fjölmiðlar.

Ísak skýrði frá því að í bígerð væri að athuga hvort hægt væri að gefa út fréttaannál eftir starfsárið. Hann sagði að af nógu væri að taka og að það væri bara spurning um framkvæmd.

8. Heimasíða.

Athugasemd kom um að uppfæra þyrfti heimasíðuna oftar. Samþykkt að BSÍ greiði vistunarsvæði fyrir heimasíður bridgefélaganna.

9. Önnur mál.

a) Bréf vegna dóms á Íslandsmóti kvenna í tvímenningi lagt fram og vísað til formanns dómnefndar.
b) Komið var á framfæri kvörtun vegna aðstöðuleysis í tölvumálum þegar getraunadeildin er að störfum, en Stefanía sagði að verið væri að vinna í þeim málum.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19,15Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar