Ársþing 20. október 2002

sunnudagur, 20. október 2002

54. ársþing BSÍ 20. október 2002

Mættir á fundinn:

1. Þingsetning. Kosning Fundarstjóra, fundarritara svo og þriggja manna kjörbréfanefndar.

Forseti Guðmundur Ágústsson, setti þingið um kl. 10.20. Bauð hann menn velkomna til fundar, tilnefndi sem fundarstjóra Sigtrygg Jónsson, sem tók þegar við fundarstjórn. Sigtryggur stakk upp á Þórði Sigfússyni sem fundarritara og í kjörbréfanefnd þeim Ólafi A. Jónssyni, Hjalta Elíassyni og Kjartani Ólasyni og var það samþykkt.
Kjörbréfanefnd tók þegar til starfa og á meðan kynnti Kristján Hauksson frá danska bridgesambandinu nýja Félagaforritið, sem bæði getur haldið utan um allar félaga- og stigaskrár og reiknað út hvers konar mót og skráð áunnin stig sjálfvirkt.

2. Kjörbréf þingfulltrúa athuguð og úrskurðuð.

Ólafur hafði orð fyrir kjörbréfanefnd. Höfðu 48 félög átt rétt á samtals 73 fulltrúum, en aðeins 17 þeirra tilkynnt um samtals 40 atkvæði. Nokkrir fóru með 2 atkvæði. Fulltrúar voru þessir:

Bf. Ísafjarðar Arnar Geir Hinriksson 1 atkv.
Bf. Muninn Þröstur Þorláksson 1 atkv.
Heiðar Sigurjónsson 1 atkv.
Bf. Suðurnesja Kristján Örn Kristjánsson 1 atkv.
Kjartan Ólason 1 atkv.
Bf. Hafnarfjarðar Erla Sigurjónsdóttir 1 atkv.
Sigurjón Harðarson 1 atkv.
Atli Hjartarson 1 atkv.
Bf. Borgarfjarðar Þorvaldur Pálmason 2 atkv.
Bf. Siglufjarðar Stefanía Sigurbjörnsdóttir 2 atkv.
Bf. Kópavogs Loftur Þór Pétursson 2 atkv.
Sigurjón Tryggvason 1 atkv.
Bd. Barðstrendinga Ólafur A. Jónsson 2 atkv.
Bf. Kvenna Elín Jóhannsdóttir 1 atkv.
Bf. Akureyrar Ragnheiður Haraldsdóttir 2 atkv.
Frímann Stefánsson 1 atkv.
Bf. Sauðárkróks Jóhann Stefánsson 2 atkv.
Bf. Selfoss Sigfús Þórðarson 2 atkv.
Bf. Fjarðarbyggðar Kristján Kristjánsson 2 atkv.
Bf. Geisli Óskar Elíasson 1 atkv.
Bf. Reykjavíkur Hjalti Elíasson 2 atkv.
Haukur Ingason 2 atkv.
Jón Baldursson 2 atkv.
Guðný Guðjónsdóttir 2 atkv.
Bf. Akraness Einar Guðmundsson 1 atkv.
Guðmundur Ólafsson 1 atkv.

Bf. Húsavíkur Sigurður Jón Björgvinsson mætti ekki

Að auki sátu þingið: Guðmundur Ágústsson, Anton Haraldsson, Birkir Jónsson, Ísak Örn Sigurðsson, Matthías Þorvaldsson og Stefanía Skarphéðinsdóttir.

3. Kosning þriggja manna uppstillingarnefndar og annarra nefnda ef þurfa þykir.

Í uppstillingarnefnd voru kosnir að tillögu fundarstjóra þeir Kristján Kristjánsson, Óskar Elíasson og Haukur Ingason.

4. Stjórnin gegur skýrslu um starfsemi sambandsins frá síðasta þingi.

Forseti flutti skýrslu stjórnar. Kvað hann aðalviðfangsefni ásins hafa verið flutning í nýtt húsnæði, mótamál og rekstur skrifstofu. Nýja húsið kostar fullbúið kr. 52 millj., sem kalla má gott, en það gamla var selt á kr. 86,5 millj. og varð því veruleg skuldalækkun af skiptunum. Þönglabakkinn er þó ekki alveg úr sögunni, því að tvær kröfur eru uppi: Vegna halla á gólfi og vegna reksturs göngugötu. Báðum hefur verið mótmælt og eru góðar líkur á að sleppa undan þeim. Árið var fremur dýrt þar sem tvö lið voru send á Evrópumótið. Árangur varð framar vonum í opna flokknum en undir væntingum í kvennaflokki. Báðir landsliðseinvaldarnir stóðu frammi fyrir því vandamáli að fá ekki til leiks ýmsa þá einstaklinga sem þeir vildu. "Það verður að vera hægt að senda sterkasta lið; ég sé fyrir mér greiðslur til spilaranna, en þó árangurstengdar" , sagði forseti. Ríkisstyrkur var kr. 10 millj. eins og árið áður, en í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru aðeins ætlaðar kr. 3 millj. Ljóst er að Bridgesambandið þarf á fræðslufulltrúa að halda. Forseti tilkynnti að lokum að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi starfa (svo sem vitað var áður). Taldi hann stöðu hreyfingarinnar betri nú en fyrir þremur árum; fyrirliggjandi verkefni væru til nokkurra ára og eins árs framlegning á starfi sínu því til lítils. Færði hann samstarfsmönnum þakkir, einkum Ólafi Steinasyni varaforseta og Stefaníu Skarphéðinsdóttur framkvæmdasjtóra.

5. Formenn fastanefnda gefa skýrslu um starfsemi nefndanna.

Talsmenn fastanefnda gerðu grein fyrir störfum nefndanna. Ísak Örn Sigurðsson fyrir mótanefnd í fjarveru Ólafs Steinasonar og fylgir skýrsla, Erla Sigurjónsdóttir fyrir dómnefnd og meistarastiganefnd og Kristján Kristjánsson fyrir laga- og keppnisreglunefnd, en tíðindalítið var hjá þrem hinum síðastnefndu. Fundarstjóri skaut inní, að sjálfur væri hann ásamt Mattíasi Þorvaldssyni í útbreiðslunefnd og væru þeir í félagi við Skáksamband Íslands á leið til fundar við menntamálaráðherra að ræða útbreiðslumál í skólum.

6. Reikningar samandsins lagðir fram með athugasemdum endurskoðenda til úrskurðar.

Framkvæmdastjóri kynnti reikninga sambandsins. Rekstrarkostnaður húsnæðis hefur minnkað talsvert og veruleg tekjuaukning varð af getraunum (kannski tímabundin). Útgjaldaaukning er aðallega vegna félagakerfisins og svo nýju heimasíðunnar.
Rekstur veitingasölunnar hefur verið á vegum BSÍ frá 15. maí og verður það áfram í vetur a.m.k.
Ólafur A. Jónsson lýsti áhyggjum af síminnkandi áhuga aðildarfélganna eða ráðamanna þeirra. Vanda þyrfti val á útbreiðslustjóra og borga honum þokkalega.
Þorvaldur Pálmason var áhyggjufullur yfir lítilli nýliðun, bridgefélögin væru að breytast í gamalmennaklúbba.
Arnar Geir Hinriksson sagði að Bf. Ísafjarðar væri að leggjast niður, en þar um slóðir spiluðu menn undir einu merki Umf. Geisla í Súðavík.
Jón Baldursson kvartaði undan vondri aðstöðu í úrslitum síðasta Íslandsmóts, en upplýst var að næst yrðu úrslitin spiluð á Hótel Loftleiðum en undankeppnin á Hótel Borgarnesi.
Reikningarnir samþykktir samhljóða.

7. Lagabreytingar.

Engar tillögur lágu fyrir frá laga- og keppnisreglunefnd.

8. Kosning aðalstjórnar og varastjórnar skv. 5. grein. Kosning áfrýjunarnefndar skv. 15. grein. Kosning löggilts endurskoðanda. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga sambandsins og tveggja til vara skv. 9. grein.

Eftirtaldar tillögur uppstillinganefndar voru samþykktar samhljóða:

Forseti Jón Sigurbjörnsson
Í aðalstjórn til tveggja ára: Birkir Jónsson
Kristján Már Gunnarsson
Matthías Þorvaldsson
Í varastjórn til eins árs: Haukur Ingason
Kristján Örn Kristjánsson
Elín Jóhannsdóttir

Úr stjórn gengu Ólafur Steinason og Sigtryggur Sigurðsson en Birkir Jónsson, sem ganga átti út, var endurkjörinn.

Áfrýjunarnefnd: Guðjón Bragason, formaður
Björgvin Þorsteinsson, varaformaður
Esther Jakobsdóttir
Guðmundur Sv. Hermannsson
Jóhann Stefánsson
Kristján Kristjánsson
Loftur Þór Pétursson

Löggiltur endurskoðandi: Guðlaugur R. Jóhannsson

Skoðunarmenn reikninga: Hallgrímur Hallgrímsson
Páll Bergsson
Til vara: Bogi Sigurbjörnsson
Jónas Elíasson


9. Ákvörðun árgjalds.

Árgjald var ákveðið óbreytt áfram, kr. 100 á spilara hvert spilakvöld.

10. Önnur mál.

Sigurjón Harðarson lagði fram tillögu um breytta tilhögun Íslandsmóts í tvímenningi, á þann veg að undankeppnin yrði lögð niður í núverandi mynd og í staðinn færð út til svæðasambandanna, sem fengju ákveðinn kvóta, þ.e. sami háttur og er á Íslandsmóti í sveitakeppni.
Guðmundur Ólafsson taldi að erfitt gæti orðið að manna slíkt mót og Arnar Geir sagði að varla myndi fást boðlegt lið af Vestfjörðum. Heiðar Sigurjónsson óttaðist tekjusamdrátt vegna minni þátttöku, ef þetta form yrði tekið upp. Hjalti Elíasson vildi fara með gát í slíkum breytingum.
Tillögunni var vísað til stjórnar og laga- og keppnisreglunefndar.

Jón Baldursson minntist aftur á þrengsli á spilastað og nú í Borgarnesi. Það mætti sem best dreifa riðlum undankeppninnar á landið. Ennfremur taldi hann Bridgehátíð hafa sett niður vegna fárra erlendra meistara.

Að fundarlokum kvaddi Erla Sigurjónsdóttir sér hljóðs og afhenti fráfarandi forseta gjöf frá stjórninni. Forseti þakkaði og kvað þetta í fyrsta sinn sem hann fengi verðlaun í bridge. Hann endurtók þakkir til samstarfsmanna og árnaðaróskir til nýkjörinna embættismanna.
Í fjarveru nýkjörins forseta sleit Guðmundur þinginu um kl. 15.00.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar