Ársþing 21.október 2001

sunnudagur, 21. október 2001

53. Ársþing BSÍ 21. október 2001

Mættir á fundinn:

1. Þingsetning. Kosning fundarstjóra, fundarritara og kjörbréfanefndar.

Forseti BSÍ, Guðmundur Ágústsson setti þingið um kl. 10.15 og bauð menn velkomna til fundar. Hann gerði tillögu um Sigtrygg Jónsson sem fundarstjóra og var það samþykkt. Sigtryggur stakk upp á Þórði Sigfússyni sem ritara og í kjörbréfanefnd þeim Ólafi A. Jónssyni, Sigtryggi Sigurðssyni og Sveinbirni Eyjólfssyni. Hvort tveggja samþykkt og tók kjörbréfanefnd þegar til starfa.


2. Kjörbréf þingfulltrúa athuguð og úrskurðuð.

Við fyrstu skoðun kjörbréfa virtist sem fundarmenn færu með samtals 37 atkvæði, en nokkur brögð voru að því að félagsstjórnum eða kjörnum fulltrúum hefði láðst að gefa öðrum formlegt umboð til að fara með fleiri en eitt atkvæði. Málið kom til kasta fundarstjóra, sem úrskurðaði að í þeim tilvikum, sem einn fulltrúi væri viðstaddur frá félagi sem ætti rétt til tveggja, skyldi sá fara með bæði atvkæðin. Samkvæmt því gætu fundarmenn farið með 45 atkvæði frá 19 félögum ef allir fyrirfram tilkynntir skiluðu sér til fundar.

Alls bárust kjörbréf frá 19 félögum. Rétt til fundarsetu áttu 34 fulltrúar sem færu með 45 atkvæði:

Bf. Ísafjarðar Arnar Geir Hinriksson 1 atkv.
Bf. Muninn Þröstur Þorláksson 1 atkv.
Heiðar Sigurjónsson 1 atkv.
Bf. Suðurnesja Kristján Örn Kristjánsson 1 atkv.
Kjartan Ólason 1 atkv.
Bf. Hafnarfjarðar Njáll G. Sigurðsson 2 atkv.
Bf. Borgarfjarðar Sveinbjörn Eyjólfsson 1 atkv.
Þorvaldur Pálmason 1 atkv.
Bf. Siglufjarðar Jón Sigurbjörnsson 2 atkv.
Bf. Kópavogs Heimir Tryggvason 2 atkv.
Hertha Þorsteinsdóttir 1 atkv.
Bd. Barðstrendinga Ólafur A. Jónsson 1 atkv.
og kvenna Edda Thorlacius 1 atkv.
Elín Jóhannsdóttir 1 atkv.
Bf. Akureyrar Frímann Stefánsson 2 atkv.
Sigurbjörn Haraldsson 1 atkv
Bf. Sauðárkróks Birkir Jón Jónsson 2 atkv.
Bf. Selfoss Ólafur Steinason 2 atkv.
Bf. Húsavíkur Sigurður Jón Björgvinsson 2 atkv.
Paraklúbburinn Erla Sigurjónsdóttir 1 atkv.
Bf. Fjarðabyggðar Friðjón Vigfússon 2 atkv.
Bf. Hornafjarðar Kristján Kristjánsson 2 atkv.
Bf. Geisli, Súðavík Óskar Elíasson 2 atkv.
Bf. Reykjavíkur Steingrímur Gautur Pétursson 1 atkv.
Guðný Guðjónsdóttir 1 atkv.
Sigtryggur Sigurðsson 1 atkv.
Friðjón Þórhallsson 1 atkv.
Hjalti Elíasson 1 atkv.
Haukur Ingason 1 atkv.
Jón Baldursson 1 atkv.
Sveinn Rúnar Eiríksson 1 atkv.
Ísak Örn Sigurðsson 1 atkv.
Bf. Fljótsdalshéraðs Bjarni Ágúst Sveinsson mætti ekki
Bf. Vopnafjarðar Ólafur K. Sigmarsson mætti ekki
Gestir Frank Guðmundsson
Þórður Sigfússon

Allir stjórnarmenn BSÍ mættu á þingið, nema Stefán Garðarsson, auk
framkvæmdastjóra.


3. Kosning uppstillingarnefndar

Í uppstillingarnefnd voru kosnir: Jón Sigurbjörnsson, Kristján Kristjánsson og
Steingrímur Gautur Pétursson.


4. Skýrsla stjórnar - Guðmundur Ágústsson, forseti BSÍ.

Þingforseti, ágætu þingfulltrúar.

Ég tel ekki ástæðu til að fara yfir einstök mál sem voru til umfjöllunnar eða afgreiðslu á fundum stjórnar. Um þau má lesa í fundargerðum stjórnar sem sendar hafa verið félögunum og birtast á heimasíðu sambandsins. Þá tel ég heldur ekki ástæðu til að fara yfir einstök mót á vegum sambandsins og vísa til skýrslu stjórnar í því sambandi.

Ég mun fara yfir stærstu mál sem voru á borði stjórnar á því starfsári sem er að líða og gera grein fyrir því, hvernig unnið var úr þeim.

Á síðasta ársþingi var staðan nokkuð dökk. Þá var nýfallinn dómur í Hæstarétti Íslands þar sem Bridgesambandi Íslands var gert að greiða Svæðisfélaginu í Mjódd um 7 mill. vegna yfirbyggingar göngugötunnar. Þá lágu fyrir árangurslausar tilraunir til sölu húss okkar í Þönglabakka og að ríkisstyrkurinn fyrir árið 2001 yrði óbreyttur frá fyrra ári, kr. 3.millj. Við þetta bættust uppsafnaðar skuldir þ.á.m. fasteignagjöld, húsfélagsgjöld ásamt ýmsum öðrum reikningum.

Það lá því fyrir að verkefni hinnar nýkjörnu stjórnar var fyrst og fremst að koma fjárhag sambandsins í viðunandi horf. Til þess að það mætti takast var nauðsynlegt að draga úr kostnaði og auka tekjur.

Þegar útgjöld sambandsins voru krufin til mergjar, með það að markmiði að draga úr kostnaði, þá komst stjórnin fljótt að því að erfitt var um vik, því meginhluti útgjalda sambandsins tengdist húsnæðinu í Þönglabakkanum og ef eitthvað var þá fóru útgjöld vegna húsnæðisins vaxandi. Vextir fóru hækkandi og almennur rekstarkostnaður einnig, m.a. vegna þess að við þurftum eftir dóminn að taka stóran þátt í kostnaði við rekstur göngugötunnar.

Fyrir utan einstaka smáliði var það eina sem einhverju máli skipti og hægt var að hreyfa við, kostnaður við landsliðin.

Þetta er er önnur skýringin á því að sú ákvörðun var tekin á haustmánuðum að senda ekki sveit í kvennaflokki á Evrópumótið 2001. Hin skýringin var sú að stjórnin taldi, að við ættum ekki nógu öfluga sveit að skipa til að ná árangri á Evrópumótinu. Að senda lið á mótið var talið að myndi kosta um 1.5-2.0 millj. kr.

Til þess að rétta við fjárhag sambandsins var einkum horft til tveggja átta. Annars vegar til ríkisins að fá ríkisstyrkinn aukinn og hins vegar til þess að selja húsnæði sambandins í Þönglabakkanum.

Í nóvember og desember á síðast ári var mikil vinna lögð í að tala um fyrir fjárlaganefndarmönnum og ráðherrum. Þrátt fyrir mikla andstöðu ákveðinna alþingismanna tókst á síðustu stundu með hjálp utanríkisráðherra og forsætisráðherra að fá styrkinn hækkaðan úr kr. 3.000.0000 í kr. 10.000.000.- Það er rétt að geta þess að þessari hækkun fylgdi sú kveðja að einskis yrði látið ófreistað til að ná árangri á 10 ára afmæli sigursins í Yokohama.

Þrátt fyrir þennan aukna styrk lá fyrir að hann gerði ekki annað en halda sjó í rekstrinum. Skuldir sambandsins voru um 45 millj. Til að ná tökum á rekstrinum og finna varanlega lausn á fjárhag sambandsins var nauðsynlegt að minnka skuldirnar verulega. Það kom því ekki annað til greina en að leggja enn frekari áherslu á sölu Þönglabakkans.Það var hins vegar ekki auðvelt verk þó eignin væri á sölu á nokkrum fasteignasölum.

Á síðasta ársþingi var gerð grein fyrir því eina tilboði sem þá hafði borist, en ekki varð af samningum. Það var skoðun stjórnar að lágmarksverð væri 80. millj. , en mat fasteignasala var á bilinu 80-90 millj.

Allmargir aðilar komu og skoðuðu eignina. Einhver tilboð komu frá þessum aðilum en þeim var öllum hafnað enda ekki ásættanleg.
Það var ekki fyrr en læknarnir í Mjódd komu til skjalanna að grundvöllur skapaðist fyrir sölu eignarinnar.
Eftir töluvert þref var samið um kr. 86,5 millj. og lægri söluþóknun en venja er.

Það er mín skoðun að við hefðum ekki getað fengið hærra verð fyrir eignina. Ég held líka að ákveðið lán hafi verið með okkur, því skömmu eftir söluna tók fasteignaverð almennt að lækka á atvinnuhúsnæði.

Með þessari sölu var skapaður grunnur fyrir því verkefni að endurskipuleggja fjárhag sambandins.

Í framhaldi af því var hugað að nýju húsnæði, en það var almenn skoðun meðal bridgeáhugamanna að BSÍ ætti að eiga sitt eigið húsnæði. Hins vegar var það spurnig hvað það ætti að vera stórt og hvar það átti að vera staðsett.

Viljandi var ekki rokið til og keypt húsnæði, heldur hinkrað við til að sjá hvað gerðist á fasteignamarkaðinum. Vitað var að verð var á niðurleið. Þrátt fyrir þetta voru mörg hús skoðuð. Húsnæði í Bílshöfða og annað í Stórhöfða og þriðja í Tranarvogi og fjórða í Faxafeni komu vel til greina en annað hvort var ekki einhugur um þau eða verðið ekki ásættanlegt.

Einnig var til skoðunar húsnæði í Síðumúla 37, sem virtist henta mjög vel. Staðsetningin góð og aðkoma ásamt bílastæðum mjög hentug. Húsnæðið er um 410 fm. á 3. hæð í lyftuhúsi. Ásett verð var 39.5 millj.

Það var samþykkt í stjórninni að gera tilboð í þetta húsnæði að fjárhæð kr. 34. millj. Því tilboðið var í fyrstu hafnað, síðan fóru fram viðræður og að lokum samþykku seljendur tilboðið og einnig að taka á sig kostnað vegna viðgerða við húsið að utanverðu sem fram fóru síðsumars.

Það lá fyrir strax að húsið yrði ekki afhent fyrir en 1. desember. Nú hefur komið fram ósk frá eigendum að afhending verði ekki fyrr en 1. janúar og er það í skoðun hjá nefnd sem falið var af stjórn að vera arkitekt til ráðuneytis um breytingarnar og annað sem viðkemur húsnæðinu.

Það má gera ráð fyrir að breytingarnar geti kostað um kr. 15. millj. en kostnaðaráætlun liggur ekki enn fyrir, enda ekki búið að taka ákvörðun um endalega útfærslu, efni o.þ.h. Það liggur þó fyrir að verkið verði boðið út og að um heildarútboð verði að ræða.

Ef allar áætlanir ganga eftir og ekkert óvænt kemur upp á má segja að fjárhagurinn verði á næsta ári kominn í viðunandi horf. Að vísu verðum við ekki skuldlaus en skuldirnar verða af þeirri stærðargráðu að þær koma ekki til með að íþyngja hreyfingunni.

Það liggur jafnframt fyrir að rekstrarkostnaður húsnæðisins í Síðumúla mun aðeins verða brot af kostnaðinum í Þönglabakka auk þess sem hugmyndin er sú að ínnrétta húsnæðið með þeim hætti að hægt verði að leigja það til ýmsra nota.

Þótt fjárhagurinn sé að komast á réttan kjöl má ekki slaka á klónni og eftir sem áður verður að gæta aðhalds og hafa augun opin fyrir auknum tekjum.

Ég hef reynt að semja við ríkið um ákveðinn árlegan ríkisstyrk, það hefur ekki tekist ennþá en ég á von á að það muni takast fyrr eða síðar. Í mínum huga er slíkt afar brýnt svo að hægt verði að gera áætlanir fram í tímann.

Ég get hins vegar glatt ykkur með því að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2002 er gert ráð fyrir 10 millj. kr. styrk til BSÍ. Þó þessi styrkur sé í fjárlagafrumvarpinu er ekki þar með sagt að þetta verði niðurstaðan, því vel þarf að fylgja þessu eftir á Alþingi.

Eins og þið heyrið hafa orðið umskipti í fjármálum sambandsins og er staðan nú mun betri en undanfarin ár. Á næsta ári verða því forsendur til að gera hluti sem okkur hefur dreymt um á síðustu árum, en ekki getað komið í framkvæmd af fjárhagsástæðum.

Eitt af því sem hefur verið afar brýnt er að auka kynningu á bridge, sem er meginmarkið Bridgesambandsins. Um það hefur verið rætt í stjórninni að ráða sérstakan kynningar-og fræðslufulltrúa til að gegna þessu hlutverki og myndi hann jafnframt hafa með höndum aðstoð við bridgefélögin.

Um síðustu áramót var tekið í notkun meistarastigaforrit sem samið var af danska Bridgesambandinu og á síðasta fundi stjórnar BSÍ var ákvörðun tekin um að fá annað forrit frá Dönum til notkunar fyrir bridgefélögin til að halda utan um starfsemi sína. Þetta forrit hefur gefið mjög góða raun í Danmörku. Það er mjög auðvelt í notkun, og heldur vel utan um starfsemi félaganna. Þar að auki reiknar það út mót, gefur stig og ýmislegt fleira. Við fengum forritið engurgjaldslaust en þurfum að breyta því miðað við íslenskar aðstæður ásamt því að þýða það á íslensku. Áætlaður kostnaður vegna þessarra breytinga er um ein milljón króna. Ráð er fyrir því gert að það verði tilbúið til notkunar fyrir áramót og verði þá sent endurgjaldslaust til félaganna.

Eins og menn hafa orðið varir við höfum við átt í vandræðum með heimasíðu okkar. Sú ákvörðun var tekin í vor að setja upp nýja síðu og verður hún kynnt hér á eftir. Þessi nýja heimasíða á að vera auðveldari í notkun og leiða til betri þjónustu við félagsmenn en sú gamla.

Stolt hverrar þjóðar eru þeir íþróttamenn sem koma fram fyrir hennar hönd. Eftir frækilega framgöngu á Ólympíumótinu í Hollandi bundum við Íslendingar miklar vonir á 10 ára afmálisárinu að sveit okkar í opna flokkinum nægði árangri á Evrópumótinu á Spáni í sl. sumar. Landsliðseinvaldinum, Guðmundi Páli Arnarssyni, var gefið allsherjarvald við val á landsliðinu og hafði hann hug á að stilla upp sama liði og verið hafði á Ólympíumótinu. Á miðju undirbúningstímabilinu varð hins vegar eitt paranna, Aðalsteinn Jörgensen og Sverrir Ármannsson að draga sig úr landsliðinu vegna veikinda eiginkonu Aðalsteins.

Þegar þetta var ljóst var landsliðseinvaldinum tilkynnt að það væri hans að velja þriðja parið og hann yrði studdur í þeirri ákvörðun sem hann tæki. Það var hans mat eftir að hafa rætt við fjölmarga spilara að hann vildi fá í landsliðið Jón Baldursson og Karl Sigurhjartarson sem þriðja par. Tjáði hann jafnframt að það myndi kosta sambandið meira en ef hann veldi aðra. Það var jafnframt mat hans að þetta væri besti kosturinn í stöðinni eftir að hafa velt fyrir sér öðrum möguleikum.
Ég tjáði honum að við myndum styðja hann í hvívetna og þó það kostaði eitthvað meira þá yrði að hafa það.

Í mínum huga var staðan einfaldlega þessi. Ef við ætluðum að vekja athygli á bridge þá var okkur afar brýnt að ná árangri og helst að komast á heimsmeistaramótið. Við vorum með sterkasta landliðið sem við höfum haft um áraraðir og afburðagóðan landsliðseinvald. Aðstæður voru ákjósanlegar og ef árangur ætti að nást var það núna.

Með árangri var líklegt að það myndi lyfta bridgelífinu upp og það myndi auðvelda okkur að fá fólk til að spila, jafnframt því sem það myndi auðvelda alla fjáröflum bæði frá ríki og fyrirtækjum.

Þegar það kom ósk frá landsliðseinvaldinum að eiginkonum tveggja spilara yrði boðið að fara með landsliðinu, var það samþykkt eftir að hann taldi að það gæti haft góð áhrif á spilarana. Kostnaður vegna þessa var athugaður og í ljós kom að hann yrði innan við kr. 100.000.- á konu.

Það skal tekið fram að kostnaður við landsliðið var ekki mikill miðað við þá miklu vinnu sem þeir lögðu á sig. Landsliðseinvaldurinn var á mjög lágum launum og spilararnir á eigum.

Þessi ákvörðun hefur verið gagnrýnd og talað um sukk. Ég er hins vegar á annarri skoðun og raunar finnst mér við leggja lítið að mörkum til að koma til móts við þá sem tilbúinir eru að fórna miklum tíma í undirbúning og langt og strangt mót.

Um er að ræða topp spilara sem á að meðhöndla með þeim hætti að hægt sé að gera kröfur til þeirra og búa þeim þannig aðstöðu að þeim verði unnt að ná árangri. Við eigum líka að hafa leyfi til að gagnrýna þá ef okkur finnst þeir standa sig nægilega vel.

Ungmennafélagshugsjónin, sem miðast við það fyrst og fremst að vera með, á ekki upp á pallborðið hjá mér. Ég get alveg sagt það að ég er ekki tilbúinn til að vinna að bridgeíþróttinni ef það er viðhorfið. Eigum við að eyða 3-4 millj. til þess eins að vera með. Mín skoðun er sú að betur sé heima setið en af stað farið.

En árangurinn á Evrópumótinu var ekki viðunandi. Sautjánda sætið er ekki ásættanlegt. Við eigum að geta gert miklu betur og með því liði sem sent var á mótið áttum við að vera í a.m.k. einu af 12 efstu sætunum,.

Ég get hins vegar sagt það að landsliðseinvaldurinn stóð sig mjög vel og er það mín von að hann gegni áfram stöðu landliðseinvalds. Hann hefur bæði metnað og hæfni til að stýra liði til árangurs. Ef ég verð endurkjörinn forseti BSÍ verður það mitt fyrsta verk að ráða hann sem landsliðseinvald fram yfir næsta Evrópumót, sem haldið verður á Ítalíu á næsta ári.

Um kvennaliðið hef ég þegar fjallað. Sú ákvörðun var tekin að senda ekki lið á Evrópumótið og þótti okkur ekki ástæða til að breyta þeirri ákvörðun þó fjárhagur sambandsins vænkaði á vordögum. Þess í stað var sú ákvörðun tekin að skipa þriggja manna nefnd, sem skyldi hafa það hlutverk að kalla saman þær konur sem áhuga höfðu á því að spila í landliði. Verkefni nefndarinnar var að koma fram með tillögur um tilhögun að vali á landsliði.

Í nefndinni eru Páll Bergsson, Ragnar Hermannsson og Valgerður Kristjónsdóttir. Nefndin hefur verið mjög virk og hóaði hún saman konum sem mæta mjög vel á kynningar- og fræðslufundi sem haldnir eru síðasta miðvikudag í hverjum mánuði.
Í mínum huga er mjög mikilvægt að ráðinn verði einvaldur fyrir kvennalandliðið og ef ég verð forseti áfram þá verður það gert á haustmánuðum með það í huga að sent verði kvennalið á Evrópumótið sem verður næsta sumar.

Ánægjulegustu tíðindin var frækilegur árangur yngri spilara á Norðurlandamótinu. Það var ekki aðeins að þeir ynnu mótið, heldur voru yfirburðirnir þvílíkir að þeir voru búnir að tryggja sér sigur fyrir síðustu umferð mótsins.
Þessi sigur er merkilegur fyrir þær sakir að við höfum því miður ekki marga virka unga spilara. Það sem í mínum huga gerði gæfumuninn var samheldur hópur og einstaklega góður einvaldur sem tók að sér þetta verkefni án nokkurs endurgjalds .
Ég vil nota þetta tækifæri og óska Antoni Haraldsyni til hamingju með árangurinn og þeim sem skipuðu landslið hans. Ég veit að árþingsfullrúrar taka undir þær óskir.

Ég hef verið forseti sambandsins í tvö ár og hef áhuga á því að vera eitt ár í viðbót . Ástæðan er einföld. Á þeim tveim árum sem ég hef gegnt starfi forseta hefur mér ekki tekist að ljúka þeim verkefnum sem ég einsetti mér. Ég þarf eitt ár í viðbót til að ljúka því sem ég tók að mér.

Fyrir það fyrsta að koma fjármálunum í lag.

Í öðru lagi að koma skipulagi hreyfingarinnar í það horf að meðferð mála leystist innan hreyfingarinnar.

Í þriðja lagi að breyta ímynd hreyfingarinnar. Að hún njóti þeirrar virðingar sem hún á skilið meðal almennings.

Á mínu fyrsta ári stóð ég að því að breyta lögum sambandsins og tel ég að ríkt hafi ákveðinn friður innan hreyfingarinnar um þær reglur sem samþykktar voru á síðasta og þar síðasta þingi. Á liðnu ári tel ég að tekist hafi að koma fjármálum hreyfingarinnar í skikkanlegt horf. Ef mér verður veitt brautargengi á þessu ársþingi er það ætlun mín að koma okkur vel fyrir í húsnæðinu að Síðumúla 37 og halda þar smærri mót en færa stóru mótin út í bæ.

Meginverkefnið verður þó útbreiðslumálin og lofa ég því að leggja metnað minn í þau. Ég hef þá trú að jarðvegurinn sé frjór og ef vel er haldið á spilunum takist með samstilltu átaki að snúa við þeirri þróun sem verið hefur að undanförnu.

Að síðustu þakka ég fyrir mætinguna og vona von að við eigum eftir að hafa góðan dag sem verði okkur og brigehreyfingunni til heilla á komandi árum.


5. Skýrslur formanna fastanefnda

a) Mótanefnd - Ólafur Steinason.

Á stjórnarfundi BSÍ 26. október 2000 voru eftirtalin kosin í mótanefnd:
Ólafur Steinason formaður, Ísak Örn Sigurðsson og Jón Baldursson.
Varamenn: Anton Haraldsson, Brynjólfur Gestsson og Ljósbrá Baldursdóttir.

Daginn eftir stjórnarfund hafði formaður samband við Jón Baldursson, en hann baðst undan frekari setu í mótanefnd að sinni. Var því Runólfur Þór Jónsson skipaður aðalmaður í hans stað á stjórnarfundi 16. nóvember 2000.

Mótanefndin hélt þrjá formlega fundi á starfstímabilinu, auk þess sem símafundir og tölvupóstur voru mikið notaðir til samskipta milli nefndarmanna. Helstu mál sem nefndin tók fyrir verða talin upp hér á eftir.

Mál nr. 1: Svæðismót Austurlands í tvímenning. Framkvæmdastjóri BSÍ bar málið upp við mótanefnd eftir stjórnarfund 26. október, og sagði að svæðismótinu hefði verið frestað helgina á undan. Austfirðingar biðja um undanþágu til að spila mótið 4. og 5. nóvember, þ.e. innan við hálfum mánuði fyrir úrslit. Ólafur og Ísak taka ákvörðun á staðnum (á stjórnarfundi BSÍ) að heimila þetta.

Mál nr. 2: Á svæðismóti Reykjaness spilaði par þar sem annar aðilinn hafði tekið þátt í svæðismóti Vesturlands fyrr á árinu. Þeir tóku ekki fram að þeir spiluðu sem gestir í mótinu. Par þetta vann síðan mótið. Símafundur var haldinn með Ólafi og Ísaki annars vegar og hins vegar Ólafi og Antoni varamanni. Nefndin var sammála í því áliti að með því að hafa tekið þátt í öðru svæðismóti, án þess að spila sem gestur, þá gæti viðkomandi ekki spilað um rétt til Íslandsmóts á öðru svæði. Framkvæmdastjóra BSÍ falið að tilkynna viðkomandi aðilum þetta.

Mál nr. 3: Erindi frá Sveini Rúnari Eiríkssyni keppnisstjóra:
a) Hafa sömu umferðarröð í öllum riðlum í undanúrslitum Íslandsmóts í sveitakeppni.
Formaður gaf það álit sitt að þetta væri í lagi, því að þetta myndi auðvelda alla umsjón með mótinu.
b) Banna notkun farsíma í mótum á vegum BSÍ, þar með talda SMS-notkun og notkun áhorfenda.
Rætt af Ólafi og Ísaki. Þeir eru sammála um að banna skuli farsímana, og skuli viðeigandi sektir viðhafðar.

Mál nr. 4: Mótanefndin ákvað að setja sér vinnureglur um veitingu undanþágna fyrir fjölda spilara í sveitum á Íslandsmóti í sveitakeppni. Þær eru svohljóðandi:
Vinnureglur vegna undanþágubeiðna
fyrir Íslandsmót í sveitakeppni:
Mótanefnd BSÍ hafnar að jafnaði öllum undanþágubeiðnum um að bæta sjöunda manni inn í sveitir, nema um sé að ræða neyðartilvik. Neyðartilvik að mati mótanefndar er skilgreint sem sú aðstaða ef sveit er óspilahæf vegna mannfæðar, þ.e. ef einungis FÆRRI EN FJÓRIR meðlimir sveitar, sem upphaflega samanstóð af sex mönnum (eða færri en 3 úr 5 manna sveit, eða færri en 2 úr 4 manna sveit) geta spilað umrætt mót.
Mál nr. 5: Undanþágubeiðnir vegna Íslandsmóts í sveitakeppni frá þremur sveitum. Skv. samþykktum vinnureglum var beiðnum tveggja sveita hafnað, þar sem þeir höfðu nægan fjölda spilara tiltækan á hverjum tíma. Beiðni þriðju sveitarinnar var hins vegar samþykkt, þar sem að einungis 3 spilarar af 6 myndu geta spilað síðari helming mótsins.

Mál nr. 6: Tillögur um breytingar á Íslandsmótinu í tvímenning í opnum flokki.
Nefndin tók fyrir tillögur frá Laga og Keppnisreglunefnd um breytingar á Íslandsmótinu í tvímenning í opnum flokki.
Nefndin var sammála um það að mótið verði fært aftur til vorsins, og spilað þá á einni helgi (annað hvort helgina eftir sumardaginn fyrsta, eða helgina sem 1. maí liggur að ef páskarnir eru seint). Hins vegar tók mótanefnd ekki afstöðu til framlagðra tillagna um breytingar á formi, því það er ársþings BSÍ að taka ákvörðun um þær.

Mál nr. 7: Íslandsmót kvenna í sveitakeppni 10.-11. mars 2001. Það leit út fyrir þáttöku 13-14 sveita í mótinu. Framkvæmdastjóri BSÍ óskaði eftir heimild fyrir því að mótið yrði spilað með 8 spila leikjum milli sveita, því annars yrði framkvæmd mótsins erfið, sökum langrar spilamennsku á laugardeginum. Samþykkt að mótið myndi verða spilað sem raðkeppni, allir við alla, með 8 spila leikjum.

Mál nr. 8: Íslandsmót yngri spilara í sveitakeppni 10.-11. 2001. Aðeins vitað um 2 sveitir sem myndu taka þátt. Fram kom að sums staðar erlendis hefur verið brugðist við fólksfæð í þessum flokki með því að færa aldursmörkin fyrir hópinn upp í 30 ár í þessu móti til að fá fleiri sveitir. Því yrði þó ekki breytt á þessu keppnistímabili.
Samþykkt að spilaður verði 96 spila leikur í sex 16 spila lotum milli þessara tveggja sveita um Íslandsmeistaratitilinn.

Mál nr. 9: Niðurröðun á Íslandsmótum keppnistímabilsins 2001-2002. Nefndin hittist á kjördæmamótinu á Hvanneyri til að raða mótunum niður.

Mál nr. 10: Fyrirliði sveitar í bikarkeppni óskar eftir fresti um tvo daga til að spila bikarleik. Fram kom að fyrirliði hinnar sveitarinnar hafði samþykkt að biðja um frestunina. Mótanefnd samþykir frestunina á grundvelli þess að sátt sé um málið. Síðar kom í ljós að um misskilning var að ræða, og var því umbeðinn og veittur frestur ekki nýttur

Mál nr. 11: Yfirferð á drögum að mótaskrá fyrir keppnistímabilið 2001-2002. Mótanefnd fór yfir drögin og samþykkti þau með smá leiðréttingum og athugasemdum

Mál nr. 12: Starfandi starfsmaður BSÍ hringdi í formann og spyr hvort að réttur til setu á Íslandsmóti í tvímenning gangi niður til næsta pars í svæðismóti, ef rétthafar nýta sér ekki réttinn til þess. Formaður segir að fordæmi sé fyrir því að svo sé ekki, heldur falli rétturinn þá niður. Hins vegar ef pör tilkynna fyrir spilamennsku að þau ætli sér ekki að spila um réttinn á Íslandsmót, þá fær það par réttinn á Íslandsmót sem er efst af þeim pörum sem spila um réttinn.

Að auki komu meðlimir mótanefndar, a.m.k. einn eða fleiri, að því að draga töfluröð í Íslandsmót og einnig draga saman sveitir í öllum umferðum bikarkeppni.

b) Meistarastiganefnd - Sveinn Rúnar Eiríksson.
Helstu nýmæli eru, að stig eru nú veitt fleiri pörum en áður var, bæði í Íslandsmóti í paratvímenningi og tvímenningi á Bridgehátíð.

c) Dómnefnd - Erla Sigurjónsdóttir.
Starf nefndarinnar er viðkvæmt og ekki alltaf vinsælt. Ekki er ástæða til að rekja einstök mál. Góður félagsandi hefur verið í nefndinni.

d) Laga- og keppnisreglunefnd - Anton Haraldsson.
Enginn formlegur fundur haldinn, en boðuð breytingartillaga um tilhögun Íslandsmóts í tvímenningi.

e) Áfrýjunarnefnd - Hafði engin verkefni og kom ekki saman.

f) Söfnun bridgesögunnar - Þórður Sigfússon.
Söfnunin er í stórum dráttum komin fram á árið 1976 og búið er að safna í 22 bindi sem eru um 80 bls. hvert. En til eru í heftum blaðaúrklippur frá 1991 til dagsins í dag, svo enn er eftir að safna saman upplýsingum 15 ára.



6. Reikningar BSÍ lagðir fram.

Framkvæmdastjóri skýrði reikninga sambandsins fyrir síðasta reikningsár. Kvað innheimtu félagsgjalda hafa verið óvenju góða. Breytingar á nýju húsnæði í Síðumúla yrðu boðnar út og kostnaður við þær því óljós ennþá, en gæti hlaupið á
kr. 10 - 15 milljónum. Ennfremur væru ekki getið í reikningunum um tvær óútkjáðar kröfur vegna Þönglabakkans, samtals um kr. 7 millj.


7. Reikningar BSÍ lagðir fram.

Framkvæmdastjóri skýrði reikninga sambandsins fyrir síðasta reikningsár. Kvað innheimtu félagsgjalda hafa verið óvenju góða. Breytingar á nýju húsnæði í Síðumúla yrðu boðnar út og kostnaður við þær því óljós ennþá, en gæti hlaupið á
kr. 10 - 15 milljónum. Ennfremur væri ekki getið í reikningunum um tvær óútkjáðar kröfur vegna Þönglabakkans, samtals um kr. 7 millj.


8. Umræður um skýrslur stjórnar og nefnda

Ýmsir tóku til máls um skýrslu stjórnar og nefnda.
Ólafur A. Jónsson: Bd. Barðstrendinga varð síðasta Reykjavíkurfélagið til að ganga í BSÍ og síðan hefur þátttaka í mótum farið síminnkandi. Hvað er hægt að gera? Þarf að breyta einhverju? Á að leggja Bd. B. niður sem slíka og sameina B.R. og deildaskipta því síðan? Kynningarstarf er of lítið.
Frímann Stefánsson hreyfði þeirri hugmynd að hækka aldur yngri spilara upp í 30 ár.
Ólafur Steinason svaraði og kvað þurfa að ræða þetta bæði innan nefndar og á þinginu.
Þorvaldur Pálmason taldi það draga úr þátttöku kvenna að senda ekki kvennalið á alþjóðamót. Hann efaðist einnig um réttmæti þess að reka húsnæði til afnota fyrst og fremst fyrir félagsdeildir á höfuðborgarsvæðinu, hvað um jafnræði? Að lokum fagnaði hann nýrri heimasíðu.
Haukur Ingason fagnaði sölu húsnæðis en kvaðst efast um, að rekstur húsnæðis í núverandi mynd ætti yfirleitt nokkurn rétt á sér. Saknaði þess að sjá engin útgjöld til fræðslumála. Útbúa þyrfti hanghæg kennslugögn og koma bridgekennslu inn í skólana, jafnvel grunnskólana. Sjálfsagt væri að taka þátt í sem flestu. Fagnaði heimasíðunni, hún þyrfti að vera nothæf öllum aðildarfélögum.
Jón Sigurbjörnsson flutti nokkrar ábendingar: Miðla þyrfti upplýsingum betur út til félaganna og gera dóma sýnilegri en nú er. Svæðasamböndin þyrftu að gera betur grein fyrir starfsemi sinni. Óþarft væri að hækka aldursmörk yngri spilara. Siglfirðingar hefðu t.d. aukið þátttöku nýliða bæði með forgjafatilhögun og eins með því að láta efstu og neðstu pör mynda sveitir saman.
Guðmundur Ágústsson spurði hvort verjandi væri að kosta 4 - 5 millj. til að senda lélegt lið á alþjóðamót. BSÍ þyrfti kannski ekki endilega að eiga hús, en ekki væri þó hægt að eiga mikla fjármuni í banka, því þá fengist engin opinber fyrirgreiðsla. Sín hugmynd væri að búa til og eiga bridgeheimili, ekki stofnun. Það þyrfti að ráða fræðslufulltrúa og aukinn stuðning þyrfti frá færustu mönnum greinarinnar.
Birkir Jónsson: Ekki hlutverk BSÍ að reka fasteignir. Koma þarf bridge hreinlega inn í námsskrá skólanna. Styður tillögu um deildaskiptingu. Huga þarf að rétti/möguleikum hinna efnaminni.
Hann flutti þinginu skilaboð frá Ásgrími Sigurbjörnssyni, Bf. Sauðárkróks: Hann mótmælir boðaðri tillögu um Íslandsmót í tvímenningi, það hálfdræpi svæðasamböndin að samþykkja hana.
Haukur Ingason: Of mikið er lagt upp úr húsnæði og jafnvel kostur að félögin spili hvert á sínum stað, það gæti virkjað fleiri spilara. Það þarf að kynna og kenna bridge, líta á það sem vöru sem þarf að markaðssetja, en ekki einblína á árangur landsliða.
Sigurður Björgvinsson vildi hækka aldursmörk í yngri flokkum
Kristján Kristjánsson: Það var rétt að kaupa Þönglabakkann á sínum tíma og einnig rétt að selja hann núna.
Sveinbjörn Eyjólfsson hafði efasemdir um að eiga eigið húsnæði, nema undir skrifstofu, en var þó reyndar einn um þá skoðun á fundi svæðisformanna árið 2000. Kvað Borgfirðinga hafa stundað bridgekennslu með allgóðum árangri.

Reikningar sambandsins bornir upp og samþykktir samhljóða.


9. Lagabreytingar.

Anton Haraldsson mælti fyrir breytingartillögu við 6.grein: Inn í 4.mgr. bætist á eftir 2.málslið: "Í kjörbréfi skal koma fram hve mörg atkvæði hver fulltrúi fer með". Leita þurfti afbrigða, þar sem tillagan hafði ekki verið tilkynnt í fundarboði. Þau voru samþykkt samhljóða og tillagan einnig.


10. Kosning stjórnar.

Guðmundur Ágústsson gaf kost á sér til áframhaldandi setu en einnig bauð Haukur Ingason sig fram til forseta. Fram fór skrifleg kosning og hlaut Guðmundur 31 atkvæði, Haukur 10 atkvæði og einn seðill var auður.
Í stjórn var kjörinn til eins árs, að tillögu uppstillingarnefndar, Birkir Jón Jónsson í stað Stefáns Garðarssonar, sem kosinn var á síðasta þingi en hefur engan þátt í stjórnarstörfum tekið. Til tveggja ára voru kosin: Ísak Örn Sigurðsson, Anton Haraldsson og Erla Sigurjónsdóttir. Í varastjórn voru kjörin, einnig að tillögu uppstillingarnefndar: Elín Jóhannsdóttir, Kristján Örn Kristjánsson og Matthías Þorvaldsson.


11. Kosning löggilts endurskoðanda.

Guðlaugur R. Jóhannsson var kosinn með lófataki.


12. Kosning skoðunarmanna.

Tillaga uppstillingarnefndar samþykkt: Hallgrímur Hallgrímsson og Páll Bergsson. Til vara: Bogi Sigurbjörnsson og Jónas Elíasson.


13. Ákvörðun árgjalds.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn tveim að árgjald verði óbreytt.


14. Önnur mál.

a) Nýtt vefsetur BSÍ
Ólafur Steinasonn kynnti nýja heimasíðu BSÍ, ásamt Rebekku H. Aðalsteinsdóttur sem hafði veg og vanda af gerð hennar. Var síðunni brugðið upp á sýningartjald og ýmsir möguleikar hennar útlistaðir.

b) Tillaga um breytingu á reglugerð Íslandsmóts í tvímenningi
Anton Haraldsson kynnti tillöguna. Þátttaka hefði snarminnkað eftir að mótið var flutt til haustsins og á núverandi reglum hefðu reynst allskonar agnúar, svo sem segir í greinagerð.
Sveinn Rúnar áréttaði það enn frekar.
Ýmsir lögðust gegn tillögunni, þ.e. þeim hluta hennar að fella niður rétt svæðissambanda til sætis í mótinu og dró flutningsmaður hana að lokum til baka, en lagði til að því yrði vísað til stjórnar að flytja mótið til vors. Tillagan var samþykkt þannig.

c) Tillaga um breytt aldurstakmörk í yngri flokki
Ólafur Steinason mælti fyrir meðfylgjandi tillögu:
Þegar lítur út fyrir dræma þátttöku sveita (þriggja eða færri) í sveitakeppni yngri spilara, þá getur mótanefnd ákveðið að heimila sveitum í mótinu að vera skipaðar þremur spilurum á tilskyldum aldri (þ.e. 25 ára og yngri miðað við fæðingarár) og einum og aðeins einum spilara á aldrinum 25 til 30 ára, miðað við fæðingarár.
Tillagan samþykkt án mikillar umræðu.

d) Heimir Tryggvason kvað vanta samráð um spiladaga milli félaga á höfuðborgarsvæðinu og betri skipulagningu.

e) Kjördæmamót
Sveinbjörn Eyjólfsson upplýsti að skv. ákvörðun fundar svæðisformanna á Hvanneyri í vor verði tilhögun óbreytt þrátt fyrir breytingar á kjördæmum landsins. Ólafur Steinason lagði til að þau yrðu nefnd svæðasambandamót framvegis.

Hjalti Elíasson sagði að gamla sænska kennslubókin, sem þýdd var og gefin út 1974, hefði lagt grunn að framförum í greininni og sterkir árgangar hefðu uppúr því komið fram. Taldi og að hæfilegt húsnæði yrði að vera til á snærum BSÍ.

Guðmundur Ágústsson forseti mælti lokaorð og þakkaði góðan fund og óskaði mönnum góðrar heimferðar. Að svo mæltu sleit hann fundi um kl. 16.30.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar