6. september 2001

fimmtudagur, 6. september 2001

Stjórnarfundur BSÍ 06. september 2001

Mættir á fundinn: Guðmundur Ágústsson, Anton Haraldsson, Ísak Örn Sigurðsson, Sigtryggur Sigurðsson, Kristján Örn Kristjánsson, Elín Jóhannsdóttir, Ólafur Steinason, Ljósbrá Baldursdóttir, Erla Sigurjónsdóttir og Stefanía Skarphéðinsdóttir.

1.

Guðmundur Ágústsson setti fund og bauð alla velkomna. Hann óskaði Antoni, fyrirliða yngri spilara, sérstaklega til hamingju með Norðurlandatitilinn og þakkaði honum fyrir frábær störf .

2. EM 2001.

Guðmundur Ágústsson rakti feril við ákvarðanatöku við val á þriðja pari í
landsliðið þegar Aðalsteinn Jörgensen og Sverrir Ármannsson heltust úr lestinni.
Landsliðsþjálfarinn taldi vænlegast til árangurs að fá Jón Baldursson og Karl
Sigurhjartarson til liðs við hópinn, en þeir gerðu kröfu um að taka eiginkonur sínar
með á kostnað BSÍ.
Guðmundur Ág. taldi það skyldu BSÍ að senda sterkasta lið sem völ var á, vegna
10 ára afmælis heimsmeistaratiltilsins og féllst, ásamt varaforseta, af þeim sökum á
rök landsliðsfyrirliðans.
Útlagður kostnaður vegna 3 eiginkvenna varð kr. 290.094.
Guðmundur sagði þessa ákvörðun t.d. á engan hátt hægt að setja í samhengi við,
að ekki var sent kvennalið á EM að þessu sinni. Guðmundur sagðist hafa vitað að
ekki yrði eining um þessa ákvörðun og því hefði þótt best að láta liðið fara á mótið
í friði.Guðmundur sagði umræðu um þetta mál vera ótrúlega rætna og hefði hann
orðið fyrir óréttmætri og óvæginni gagnrýni vegna málsins.

Erla gagnrýndi þessa ákvörðun og taldi hana vafasama útá við og gagnvart konum
sérstaklega.
Anton taldi eðlilegt að stjórnin hefði fjallað um málið strax.
Sigtryggur tók undir orð Antons, og var sammála Guðmundi um að ekki væri hægt
að setja málið í samhengi við kvennalandsliðið.
Ísak tók undir orð Sigtryggs.
Ljósbrá sagði málið sér skylt, því tæki hún ekki þátt í umræðum.
Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:
Eftirleiðis er það stefna stjórnar að greiða ekki kostnað vegna maka landliðsspilara,
en sú ákvörðun sem um ræðir var tekin vegna sérstakra aðstæðna.

Lögð fram skýrsla Guðmundar Páls landsliðsfyrirliða.


3. Húsnæðismál

Húsið verður afhent 1.des. og stefnt að því að taka það í notkun um miðjan janúar. Samþykkt tilboð frá Arnfríði Sigurðardóttur arkitekt vegna hönnunar.
Leitað verður tilboða í framkvæmd breytinganna.
Byggingarnefnd skipuð: Þorlákur Jónsson, Stefanía Skarphéðinsdóttir, Sigtryggur Sigurðsson.
b) Vetrarstarfið.
Búið er að taka á leigu sal í Hreyfilshúsinu 3.hæð. Félögin í Reykjavík verða
þar með starfsemi sína fram að áramótum, öll Íslandsmót fram að áramótum verða spiluð þar og þar verður einnig haldið ársþing BSÍ.
Það skýrist á næstu dögum hvort BSÍ getur líka fengið skrifstofuaðstöðu þar. Ef ekki þarf að kaupa/útvega litla ljósritunarvél.
Þar sem ekki verður hægt að spila a.m.k. undanúrslitin í sveitakeppni í Síðumúlanum bað Stefanía stjórnina um að hugleiða hvort Hótel Örk væri heppilegur staður fyrir Íslandsmótið í sveitakeppni.
c) Þönglabakki 1.
Enn er óumsamin krafa vegna reksturs göngugötunnar kr. 2.000.000. Reynt
verður að ganga frá því máli fyrir ársþing.
Kaupendur hafa gert BSÍ kröfu um að greiða kr. 5.000.000 vegna leyndra galla á gólfi (sig við súlur skv. lýsingu). Viðgerðir hafa þegar farið fram án þess að haft væri samband við BSÍ, sem verður að teljast óásættanlegt. Björgvin Þorst. skoðar málið.

4. Fræðslumál.

Guðmundur og Ljósbrá leggja til að ákvörðun um ráðningu fræðslufulltrúa verði
frestað þar til eftir ársþing.
Ljósbrá kynnti námskeið í minibridge sem hún er tilbúin að halda fyrir 10-12 ára
börn í Háteigsskóla á haustönn. Námskeiðið stendur í 10 vikur og fær hver
árgangur 2 kennslustundir á viku. Alls eru 110 börn á þessum aldri í skólanum,
og verða 1 - 2 aðstoðarkennarar með Ljósbrá. Námskeiðinu lýkur með
bridgemóti.
Kostnaðaráætlun er kr. 150.000 auk kostnaðar vegna lokamóts.
Samþykkt að greiða þennan kostnað, en ræða við B.R. um þátttöku í kostnaði.


5. Ársþing 21.okt. 2001.

a) Lagabreytingar.
Engar breytingartillögur lagðar fram á ársþingi.
b) Reglugerðarbreytingar.
Áður samþykkt breyting á Íslandsmóti í tvímenningi verður lögð fram á
þinginu og verður tillagan send út með dagskrá.


6. Bridgehátíð 15. - 18. febrúar 2002.

Mikill halli var á síðustu Bridgehátíð sem er óviðunandi. Hækkun dollarans átti
mikinn þátt í hallanum, þvi er lagt til að lækka verðlaunafé í $ 17.100 (sjá
fylgiblað). Tillaga b) samþykkt.
Flugleiðir ætla að kynna mótið sérstaklega í USA og Frakklandi.
Geir Helgemo, Jason Hackett og Justin Hackett hafa þegar tilkynnt komu sína.


7. Keppnisstjóranámskeið á vegum EBL.

Sveinn Rúnar sótti námskeiðið, sem haldið var á Ítalíu. BSÍ og BR skipta
kostnaðinum.

8. Bermúdaskálin 10 ára.

11. okt. nk. eru liðin 10 ár frá hinu frækna afreki íslenska landsliðins í Yokohama.
Björn Eysteinsson og Helgi Jóhannsson bjóðast til að skipuleggja "uppákomu" í
tilefni dagsins, líklega einmenningsmót með þátttöku heimsmeistaranna og
örfáum boðsgestum. Stjórnin þakkar þeim framtakið og verður framkvæmdastjóri
þeim innan handar við undirbúninginn. Framkvæmdastjóra falið að láta útbúa
"eitthvað sérstakt" í tilefni dagsins.
Fundi slitið kl. 20.15



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar