Ársþing 15. október 2000

sunnudagur, 15. október 2000

52. ársþing Bridgesambands Íslands 15. október 2000

Mættir á fundinn:

1. 1.-2. Þingsetning. Kosning fundarstjóra, fundarritara og kjörbréfanefndar
Forseti sambandsins

, Guðmundur Ágústsson, setti þingið um kl. 10.15. Hann gerði tillögu um Sigtrygg Jónsson sem fundarstjóra, Þórð Sigfússon sem fundarritara og í kjörbréfanefnd þau Sigtrygg Sigurðsson, Ragnheiði Haraldsdóttur og Kristján Örn Kristjánsson. Var tillagan samþykkt og fundi frestað meðan kjörbréfanefnd lyki störfum.

2. Kjörbréf úrskurðuð.

Eftir athugun kjörbréfanefndar og úrskurð fundarstjóra um að einstakir þingfulltrúar gætu farið með fleiri en tvö atkvæði varð niðurstaðan eftirfarandi:
Alls bárust kjörbréf frá 14 félögum. Rétt til fundarsetu áttu 23 þingfulltrúar sem færu með 36 atkvæði:


Bf. Akureyrar Ragnheiður Haraldsdóttir 2 atkv.
Guðmundur V. Gunnlaugsson 1 atkv.
Bf. Borgarfjarðar Þorvaldur Pálmason 2 atkv.
Bf. Kvenna Elín Jóhannsdóttir 2 atkv.
Bd. Barðstrendinga Ólafur A. Jónsson 1 atkv.
Friðgerður Benediktsdóttir 1 atkv.
Bf. Fjarðabyggðar Kristján Kristjánsson 2 atkv.
Bf. Muninn, Sandgerði Þröstur Þorláksson 2 atkv.
Bf. Suðurnesja Kristján Örn Kristjánsson 1 atkv.
Guðjón Svavar Jensen 1 atkv.
Bf. Fljótamanna Jóhann Stefánsson 1 atkv.
Bf. Sauðárkróks Inga Jóna Stefánsdóttir 2 atkv.
Bf. Siglufjarðar Stefanía Sigurbjörnsdóttir 3 atkv.
Bf. Húsavíkur Ingvar Jónsson 2 atkv.
Bf. Hafnarfjarðar Halldór Einarsson 1 atkv.
Erla Sigurjónsdóttir 1 atkv.
Bf. Selfoss og nágr. Brynjólfur Gestsson 2 atkv.
Bf. Reykjavíkur Sigtryggur Sigurðsson 2 atkv.
Friðjón Þórhallsson 2 atkv.
Hrólfur Hjaltason 2 atkv.
Guðlaugur Sveinsson 1 atkv.
Ísak Örn Sigurðsson mætti ekki
Sveinn Rúnar Eiríksson mætti ekki
Bs. Reykjaness Kjartan Ólason
Bs. Suðurlands Sigfús Þórðarson
Gestir stjórnar Stefán Garðarsson
Birkir Jónsson


3. Kosning uppstillingarnefndar

Í uppstillingarnefnd voru kosnir Kristján Kristjánsson, Brynjólfur Gestsson og Ólafur A. Jónsson.

4. Skýrsla stjórnar.

Forseti flutti skýrslu stjórnar. Rakti hann fyrst tilraunir til að selja húseignina, sem væri óneitanlega of dýr í rekstri; vart undir milljón á mánuði. Þrátt fyrir talsverðar umleitanir hefur ekki enn tekist að selja, en lágmarsverð stjórnar er 80 m.kr. miðað við staðgreiðslu. Forseti sagði frá þrautagöngu á fund þingmanna og menntamála-ráðherra, en fjárstyrkur hins opinbera hefur lækkað úr 8 m.kr., þegar mest var, í 3 m.kr. "Það býður næstu stjórnar að jagast við Alþingi" sagði hann. Þá ræddi hann m.a um þátttöku í alþjóðamótum og taldi ljóst, að Íslendingar væru aftur á leið inn í hóp hinna sterkustu þjóða. Gat hann þess, að spilarar á síðasta Ólympíumóti yrðu verðlaunaðir með bónusgreiðslu fyrir góða frammistöðu. Hugmynd hafði komið fram um að ráða erindreka til að sjá um almennt kynningar-starf í skólum og víðar, og var í því skyni reynd óhefðbundin fjáröflun meðal fyrirtækja, en hún skilaði mjög litlu. Loks minntist forseti á deilu sveita Boga Sigurbjörnssonar og Roche í bikarkeppninni. Læra þyrfti af mistökum, sem í því máli urðu og "bridgehreyfingin er í vörn og hefur annað betra við kraftana að gera en að eyða þeim í innbyrðis átök" voru lokaorð hans.
Hrólfur Hjaltason vildi að fleiri en stjórnin kæmu að húsasölunni.
Stefán Garðarsson vildi ekki festa söluverð hússins í 80 m.kr.
Ólafur A. Jónsson lýsti áhyggjum af almennum samdrætti í spilamennsku og þar með tekjum BSÍ. Hann kvaðst vita um húsnæði Félags eldri borgara, sem væri þeim of dýrt í rekstri. "Væri hugsanlegt samstarf við þá?" spurði hann.
Þorvaldur Pálmason vildi efla kynningarstarf og velti fyrir sér, hvort afstaða menntamálaráðherra til bridsspilsins kynni að endurspegla þjóðfélagsandann.

5. Skýrslur formanna fastanefnda.

Enginn fulltrúi meistarastiganefndar var á þinginu, en Stefanía upplýsti, að tölvuforrit það sem notað hefur verið við stigaskráningu væri gjörsamlega gengið sér til húðar; von væri á nýju, fullkomnu frá Danmörku og yrði það væntanlega komið í gagnið um áramót. Þorlákur Jónsson, form. mótanefndar, sagði nefndina ekki hafa haldið fund í þrjú ár. Hann fengi yfirleitt málin til meðferðar og afgreiddi þau langflest sjálfur, en hringdi þó einstöku sinnum í Jón Baldursson. Þriðji nefndarmaðurinn hefði undanfarin ár varla vitað af sinni nefndarsetu.
Anton Haraldsson talaði fyrir dómnefnd og einnig laga- og keppnisreglunefnd. Dómnefnd úrskurðaði í 11 málum, og komu allir nefndarmenn að málum að einhverju leyti. Laganefnd kom á breytingum á reglum um kjördæmamótið og leggur fram breytingatillögur við lög sambansins o.fl. (sjá síðar).
Kristján Kristjánsson talaði fyrir áfrýjunarnefnd og lýsti því eina (leiðinda-) máli, sem fyrir nefndina kom, þ.e. bikarleik Boga Sigurbjörnssonar og Roche. Hann nefndi einnig símbréf sem hann fékk, nokkrir metrar að lengd, sem innihélt hluta af málsskjölunum.

6. Reikningar lagðir fram.

Stefanía rakti í stuttu máli niðurstöður reikninga BSÍ, sem eru óvenju-slæmar þetta árið. Aðalástæðurnar eru talsverður samdráttur í félagsgjöldum, verulega minni opinberir styrkir og ekki síst kostnaður af þaki yfir göngugötu í Mjódd, sem endanlega féll á sambandið í dómi Hæstaréttar í sumar. Enginn kvaddi sér hljóðs um reikningana, og voru þeir samþ. með öllum greiddum atkvæðum.

7. Lagabreytingar.

Anton kynnti tillögur laga- og keppnisreglunefndar, m.a. ákvæði um að nefndir taki mið af almennum stjórnsýslulögum. Forseti áréttaði nauðsyn þess; nefndi bæði vanhæfi og andmælarétt. Hann útskýrði einnig að úrskurðum dómnefndar yrði ekki skotið til áfrýjunarnefndar, því að til þess væri einfaldlega ekki tími, enda væri dómnefnd í raun æðra dómstigið í sínum málum, en keppnisstjóri hið lægra. Tillögur laganefndar komu nú til afgreiðslu; fyrst um breytingu á 5.grein. Orðalagsbreytingin "Mikilsháttar" samþykkt með flestum atkvæðum. Niðurlagsorðum 5.greinar var breytt úr " … sem kemur til kasta …" í " …sem komi til kasta …" og greinin síðan samþykkt með þorra atkvæða. Breytingartillaga við 7.grein samþykkt óbreytt með þorra atkvæða. Tillögu nefndarinnar um 15.grein var breytt að tilhlutan Kristjáns Kristjánssonar úr "Nefndin skiptir með sér verkum" í "Stjórn skipar formann og varaformann." Tillagan svo breytt var síðan samþykkt með þorra atkvæða.


Forseti var endurkjörinn Guðmundur Ágústsson.
Í stjórn til tveggja ára: Ólafur Steinason
Sigtryggur Sigurðsson
Stefán Garðarsson
Í varastjórn til eins árs: Erla Sigurjónsdóttir
Kristján Örn Kristjánsson
Elín Jóhannsdóttir


8. Kosning áfrýjunarnefndar.

Björgvin Þorsteinsson
Guðjón Bragason
Birkir Jónsson
Esther Jakobsdóttir
Guðmundur Sv. Hermannsson
Kristján Már Gunnarsson
Kristján Þorsteinsson

9. Kosning löggilts endurskoðanda.

Guðlaugur R. Jóhannsson

10. Kosning skoðunarmanna.

Hallgrímur Hallgrímsson og Páll Bergsson
til vara Bogi Sigurbjörnsson og Jónas Elíasson.

11. Ákvörðun árgjalds.

Tillaga kom fram frá stjórn um að hækka árgjald úr kr. 75 í kr. 100 frá næstu áramótum. Dálitlar umræður urðu, og var tillagan samþykkt eftir endurtekna atkvæðagreiðslu með 14 atkvæðum gegn 13.

12. Önnur mál.

Forseti skýrði frá ferð sinni og framkvæmdastjóra til Ítalíu á málþing á vegum Evrópu-sambandsins. Þar kom m.a. fram, að bridgeíþróttin er á leið inn á vetrarólympíuleikana, a.m.k. sem sýningaríþrótt. Kemur það væntanlega til framkvæmda árið 2006, er leikarnir verða á Ítalíu. Hann sagði einnig frá skemmtilegri heimsókn í lítinn ítalskan bridgeklúbb.
Anton kynnti tillögur um viðvaranir í sögnum (alert). Þær væru í engu frumsamdar, heldur alfarið teknar upp eftir öðrum svo sem alþjóðasambandinu. Einnig kynnti hann tillögu um lítil, einföld kerfiskort, sem gætu átt við í tvímenningskeppni. Taldi hann eðlilegast að tillögur þessar gengju frá stjórninni út til félaganna, þar sem þær yrðu reyndar (sjá meðfylgjandi eyðublað f. kerfiskort).
Kristján Örn Kristjánsson viðraði m.a. hugmynd um að styrkleikamerkja keppendur á bridgemótum til glöggvunar hinum almenna spilara.
Stefanía kynnti samnorræna tvímenninginn, sem fram fer 16. og 17. nóv. undir stjórn Íslendinga.
Þorvaldur Pálmason flutti svohljóðandi tillögu, er var samþykkt í einu hljóði: Ársþing BSÍ haldið 15.okt. 2000 harmar þau mistök og misskilning sem áttu sér stað v/bikarleiks sv. Boga Sigurbjörnssonar og Roche 23.júlí sl. og vonar að slíkir atburðir heyri sögunni til, með þeim lagabreytingum sem samþykktar hafa verið á þinginu.
Forseti mælti lokaorð. Hann lofaði m.a. að vinna að framgangi landsliðsmála og kvaðst almennt horfa björtum augum fram á veg. Að svo mæltu þakkaði hann þingfulltrúum góða og málefnalega umræðu og sleit fundi um kl. 15.00.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar