9. desember 1999

fimmtudagur, 9. desember 1999

Stjórnarfundur BSÍ 09. desember 1999

Mættir á fundinn: Guðmundur Ágústsson, Þorlákur Jónsson, Sigtryggur Sigurðsson, Erla Sigurjónsdóttir, Ísak Örn Sigurðsson, Ólafur Steinason og Stefanía Skarphéðinsdóttir.

1. Skýrsla framkvæmdastjóra.

Landstvímenningur verður spilaður á 10 stöðum um allt land föstudaginn 10.des. Landsliðinu er boðið til Ísrael á stórmót í febrúar nk. Enn hefur ekki verið ákveðið hvar EM yngri sp. verður haldið en líklegasti staður er Tyrkland. Á þingi Evrópusambandsins í sumar var samþykkt töluverð hækkun á árgjaldi. Útgjöld okkar hækka þó ekki mikið. Enn er barist fyrir því að fá bridge sem sýningargrein á ÓL 2002. Búið er að endurvekja Alheimstvímenninginn og á næsta ári verða haldnir 2 slíkir með nýjum "sponsor", 2. og 3. júní og 22. og 23. ágúst. Verið er að ganga frá auglýsingasamningi við TRYGGINGAMIÐSTÖÐINA, en spil með merki fyrirtækisins verða notuð á öll mót á vegum BSÍ næstu 3 árin. Mikil þörf er á að auka umfjöllun um bridge í fjölmiðlum, sérstaklega um Íslandsmótin. Stefanía hefur rætt við Guðmund Pál um leiðir til að bæta úr þessu.

2. Húsnæðismál.

Guðmundur hefur rætt við Reykjavíkurborg um hugsanleg makaskipti, og er það í athugun, en einnig er haldið áfram að reyna að selja húsnæðið.

3. Spilakassar Rauðakrossins.

Samþykkt að setja upp kassa í 3 mánuði til reynslu. Stefaníu falið að fylgja málinu eftir.

4. Samstarf við Bridgeskólann.

Fyrir fundinum lágu tillögur frá Guðmundi Páli. Eftir áramót verður stofnað Bridgefélag Bridgeskólans. Fleiri hugmyndir með nánari útfærslu liggja fyrir á næsta fundi.

5. Landsliðmál.

Guðmundur gerði grein fyrir tilraunum til skipunar landsliðsnefndar, sem gengið hafa erfiðlega. Hann álítur það verkefni BSÍ að velja landsliðseinvald. Mikil umræða varð um hvaða fyrirkomulag væri best við val á landsliði, þ.e. hvort ráða á landsliðseinvald eða spila um sæti í landsliðum. Guðmundur sagði það skoðun sína að það væri lífsnauðsynlegt fyrir BSÍ að árangur næðist á alþjóðavettvangi og ef það tækist yrði auðveldara að útvega fjármagn til að umbuna þeim sem leggja á sig að spila í landsliðum. Meirihluti stjórnar samþykkti að ráða ætti landsliðeinvald í opnum flokki. Guðmundur ásamt framkvæmdaráði ræðir við hugsanlega kandídata. Samþykkt að spilað verði um kvennalandsliðið. Framkvæmdaráði falið að leggja fram tillögur þar um á næsta fundi.

6. Önnur mál.

a)Fyrir nokkrum árum voru prentuð lítil kerfiskort sem enn liggja ónotuð. Samþykkt að kaupa plasthlífar og freista þess að koma kortunum í notkun.

b) Laga- og keppnisreglunefnd falið að setja á blað reglur um viðvörun (alert) sem gilda eiga á Íslandi.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar