17. nóvember 1999

miðvikudagur, 17. nóvember 1999

Stjórnarfundur BSÍ 17. nóvember 1999

Mættir á fundinn: Guðmundur Ágústsson, Þorlákur Jónsson, Erla Sigurjónsdóttir, Ljósbrá Baldursdóttir, Ísak Örn Sigurðsson (fundarritari), Ólafur Steinason, Anton Haraldsson, Sigtryggur Sigurðsson, Páll Þórsson, Sveinbjörn Eyjólfsson og Stefanía Skarphéðinsdóttir.

1. Skýrsla framkvæmdastjóra

Vegna andstöðu Svía og Finna er ljóst að Sabine Auken verður ekki í liði Danmerkur á næsta NM sem verður í Hveragerði 27.júní - 1.júlí 2000. BSÍ hefur borist tilboð frá OK bridge, þar sem boðin er greiðsla ef fólk kaupir áskrift að OK bridge gegnum heimasíðu okkar. Stefaníu falið að kanna þetta betur. Af næstu BH er lítið nýtt að frétta, ennþá er beðið eftir staðfestingu frá Alan Sontag og Zia. Hinsvegar hafa Hackett- tvíburarnir ensku þegið boð á Bridgehátíð 2001. Stefanía fór á fyrirlestra-helgi sem sænska bridgesambandið hélt um síðustu helgi og sagði það hafa verið mjög lærdómsríkt. Svíar hafa mjög skýra stefnumótun og vinna skipulega að framgangi íþróttarinnar, en félagatalan breytist samt lítið ár frá ári. Mikil aðsókn er að námskeiðum en aðeins 8 % af þátttakendum skila sér til félaganna. Þetta hlutfall er mun lægra hér á landi a.m.k. í Reykjavík og brýnt að fara að vinna í meiri tengslum við Bridgeskólann og Guðmund Pál. Mikið var fjallað um útbreiðslu meðal yngri spilara og hvernig væri hægt að ná til þess hóps. Helstu nýjungar sem eru á döfinni hjá Svíum: Námskeið á internetinu. Mót á Gaming Zone þar sem spilað verður um sænsk meistarastig. Trivsel 2000, lögð er áhersla á að bridge sé íþrótt sem fólk eigi að stunda sér til ánægju. Og síðast en ekki síst nýtt heimabridge að hollenskri fyrirmynd, "töskubridge" sem notað er til að kynna frístundaspilurum keppnisbridge.

2. Húsnæðismál.

Guðmundur skýrði frá hugmyndum um að selja helming húseignarinnar og taldi það vel framkvæmanlegt. Hann taldi að gera ætti alvarlega tilraun til að selja og láta reyna á hvort það takist. Sveinbirni fannst skynsamlegra að selja allt húsnæðið frekar en skipta því í tvennt. Framkvæmdanefnd falið að setja húsnæðið á sölu.

3. Landsliðsmál

Unglingamótið í Hollandi er í janúar og brýnt að fara að velja liðið. Antoni, Sveini Rúnari og Ísak falið að velja 2 pör í unglingalandslið v. mótsins. Antoni finnst tímabært að skipa landsliðsnefnd sem hefði umsjón með öllum landsliðum.

4. Skipun áfrýjunarnefndar.

Kristján Kristjánsson
Helgi Jóhannsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Björn Theódórsson
Kristófer Magnússon
Varamenn: varaforsetar ofantaldra forseta BSÍ.

5. Kjördæmakeppnin.

Tillaga frá laga- og keppnisreglunefnd um breytingu á reglugerð Kjördæmamótsins lögð fram.: "Á stjórnarfundi BSÍ 17.okt. 1999 var bókað að ósk hafi borist frá Bs. Reykjavíkur um að breyta reglugerð kjördæmamóts og Laga- og keppnisreglunefnd falið að leggja fram tillögu. Kjördæmakeppni BSÍ hefur verið spiluð árlega síðan 1994, nk. vor fer fram 7. keppnin. Á þessum fáu árum hefur reglugerðinni þegar tvisvar verið breytt. Það er ljóst að frá upphafi hafa verið skiptar skoðanir um þessa reglugerð. Á þingi BSÍ 17.okt. 1993 var bókað að reglugerðin útilokaði spilara frá keppninni með reglum um fjölda keppenda frá hverju félagi. Helgi Jóhannsson þáverandi forseti BSÍ svaraði því til að hugmundin að baki þessari keppni væri að spilarar víða að af landinu kynntust en væri ekki bara fyrir toppspilara. Nefndin telur að þessari grunnhugmund eigi ekki að breyta. Í upphaflegri reglugerð mátti hvert félag senda 4 spilara, í núverandi reglugerð er þátttakan takmörkuð við 16 spilara, en mest mega vera 8 spilarar inná í einu frá hverju félagi. Nefndin telur að þetta sé í lagi. Önnur hlið á málinu er, að félögum sem starfa reglulega hefur fækkað mikið. Nú á samdráttartímum hafa svæðasambönd jafnvel lent í vandræðum með að manna liðin. Það er því tillaga nefndarinnar að ef innan svæðasambands spili aðeins 3 félög eða færri þá sé þátttaka í mótinu ótakmörkuð, fyrir spilara á viðkomandi svæði með minna en 100 meistarastig. Þessi tillaga er í anda þess að keppnin sé ekki bara fyrir toppspilara. Nefndin telur að skoða eigi þá hugmynd að mótið verði haldið á tveggja ára fresti. Sú breyting væri hugsanlega til þess að gera mótið eftirsóknarverðara og gera þá svæðasamböndum auðveldara með að kosta og manna liðin." Anton Haraldsson Sveinn Rúnar Eiríksson Þorvaldur Pálmason

Töluverðar umræður urðu um tillöguna og skiptar skoðanir á ágæti hennar, og var Sigtryggur ekki sáttur við þessa lausn. Sú hugmynd að halda mótið annað hvert ár féll í grýttan jarðveg. Guðmundi falið að móta tillögur að reglugerð í samvinnu við Anton, fyrir næsta fund. Reglugerðin verður síðan send út til kynningar.

6. Stefnumótun - hugleiðingar.

Guðmundur lagði fram skriflegar hugleiðingar um stefnumótun. Helstu áherslur verði lagðar á fræðslumál og þess freistað að afla fjármagns til að ráða kynningarfulltrúa. Landsliðin verði efld og ráðinn landsliðseinvaldur með landsliðsnefnd sér við hlið. Til þess að fjármagna þessi verkefni verði að minnka húsnæðið, grynnka á skuldum og lækka rekstrarkostnað. Ljósbrá sagði að auka þyrfti samstarfið við Guðmund Pál og efla það starf sem hann innir af hendi. Framkvæmdanefnd falið að finna menn í landsliðsnefnd, sem bæri ábyrgð á vali landsliða.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar