17. október 1999

sunnudagur, 17. október 1999

51. Ársþing Bridgesambands Íslands 17. október 1999

Mættir á fundinn:

1. Haldið í Þönglabakk þann 17. október 1999

Kristján Kristjánsson forseti BSÍ setti þingið og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarstjóri var kosinn Sigtryggur Jónsson.
Fundarritari var kosinn Jóhann Stefánsson.
Kjörbréfanefnd: Ólafur A. Jónsson, Birkir Jónsson, Bragi L. Hauksson.

Kjörbréfanefnd samþykkti öll kjörbréf. Alls bárust kjörbréf frá 15 félögum.
Þingfulltrúar voru eftirfarandi:
B.Húsavíkur: Hilmar Dúi Björgvinsson
B.Kópavogs: Bernódus Kristinsson, Þórður Björnsson
B.Barðstrendinga: Ólafur A. Jónsson, Friðgerður Benediktsdóttir
B.Akureyrar: Páll Þórsson, Stefán Vilhjálmsson, Ragnheiður Haraldsdóttir
B.Muninn Sandgerði: Víðir Jónsson
B.Borgarfjarðar: Sveinbjörn Eyjólfsson
B.Reykjavíkur: Sigtryggur Sigurðsson, Bragi L. Hauksson, Bryndís Þorsteinsdóttir, Guðný Guðjónsdóttir Hrólfur Hjaltason, Páll Bergsson, Friðjón Þórðarson, Hjalti Elíasson
B.Kvenna: Ólína Kjartansdóttir (mætti ekki)
B. Akureyrar Páll Þórsson, Stefán Vilhjálmsson, Ragnheiður Haraldsdóttir
B. Suðurnesja Kristján Örn Kristjánsson
B. Borgarfjarðar Sveinbjörn Eyjólfsson
B. Seyðisfjarðar Kristinn Valdimarsson
B. Hornafjarðar Ragnar Logi Björnsson
B. Siglufjarðar Stefanía Sigurbjörnsdóttir Jóhann Stefánsson
B. Reyðar- og Eskifjarðar Ásgeir Metúsalemsson
B. Selfoss Brynjólfur Gestsson
B. Sauðárkróks Birkir Jónsson
Úr stjórn voru mættir: Kristján Kristjánsson, Þorlákur Jónsson, Ísak Örn Sigurðsson, Þorsteinn Berg, Ljósbrá Baldursdóttir, Sigtryggur Sigurðsson, Guðmundur Ágústsson. Auk framantaldra sátu þingið Heiðar Sigurjónsson og Stefanía Skarphéðinsdóttir.

Í uppstillinganefnd voru kosnir:
Ásgeir Metúsalemsson, Stefán Vilhjálmsson, Páll Bergsson.

Skýrsla stjórnar.
Kristján Kristjánsson rakti starfsemi BSÍ á árinu. Forsetinn fór yfir landsliðsmálin og fræðslumálin. Hann þakkaði Ljósbrá Baldursdóttur sérstaklega fyrir hennar þátt í bridgekennslu barna og Guðmundi Páli fyrir námskeiðahald og fjölmennt námskeið -Lærðu að kenna bridge- sem heppnaðist mjög vel. Kristján ræddi um húsnæðismál BSÍ og taldi eðlilegt að skoða það vel, hvort skifta ætti um húsnæði. BSÍ var nýlega dæmt til að greiða 8 % af kostnaði við yfirbygginguna en þeim dómi verður líklega áfrýjað.

Umræður um skýrsluna:
Hrólfur Hjaltason ræddi um landsliðsmál og taldi það mistök að spila um landsliðssætin síðast, þó yfirleitt væri það rétt að spila um þau.
Sveinbjörn Eyjólfsson þakkaði Kristjáni fyrir vel unnin störf og góð samskipti við BSÍ á liðnu ári. Hann ræddi síðan um þau vandamál að fá nýtt fólk í félögin.

Skýrslur formanna fastanefnda.
Mótanefnd: Þorlákur Jónsson formaður. Nefndin kom aldrei formlega saman á árinu, en gaf út mótaskrá, sem er hennar aðalverkefni í samvinnu við stjórn. Rætt var um tímasetningar á einstökum mótum og óskað eftir skriflegum tillögum.
Meistarastiganefnd: Þorsteinn Berg formaður. Nefndin samþykkti 5 sérstök silfurstigamót.
Dómnefnd: Guðmundur Ágústsson formaður. Nefndin úrskurðaði í 3 málum,
einu á Íslandsmóti og tveimur í undankeppni um landsliðssæti. Í umræðum kom
fram sú skoðun, að áfrýjunargjald gæti verið of hátt og fældi fólk frá að áfrýja
úrskurði keppnisstjóra. Bragi benti á, að hugsanlega væri hægt að sekta með
stigatapi. Umræður urðu um nýjungar í meðferð mála t.d. um alert og dobl. Hjalti
benti á, að með fjölgun í dómnefnd ætti að vera hægt að skipa óháða dómnefnd.
Með áfrýjunargjaldinu væri meiningin að einföld mál verði leyst á staðnum.
Guðmundur Ágústsson benti á, að í breytingartillögum væri gert ráð fyrir
áfrýjunarnefnd.
Laga- og keppnisreglnanefnd: Guðmundur Ágústsson formaður. Störf
nefndarinnar, sjá lagabreytingar.

Reikningar BSÍ lagðir fram.
Stefanía Skarphéðinsdóttir kynnti reikningana.
Ólafur A. Jónsson auglýsti eftir hugmyndum stjórnar um hvernig eigi að taka á fækkun spilara almennt, t.d. vantar í Bd. Barðstrendinga 1/3 af þeim spilurum sem spiluðu í fyrra og sagðist hann hafa miklar áhyggjur af þessari þróun. Ólafur þakkaði Kristjáni Kristjánssyni fyrir samstarfið á liðnum árum.
Hrólfur fann að því, að skipting kostnaðar vegna landsliða væri ekki fyrir 3 landslið. Stefanía svaraði að skipting kostnaðar væri alveg skýr og kæmi fram í reikningum, en hvert mót væri sundurliðað og allur launakostnaður inni í þeim tölum.
Birkir Jónsson tók undir orð Ólafs. Hann sagði frá átaki Ásgríms Sigurbjörnssonar á Sauðárkróki, þar sem hann fékk 50 framhaldsskólanema til að spila á vegum skólans í punktatengdu námi. Birkir taldi að harkan við borðið fældi byrjendur frá að spila.
Sveinbjörn ræddi um fræðslumál og útbreiðslumál.
Bragi fékk útskýringar á nokkrum minniháttar málum í reikningunum.
Kristján Kristjánsson upplýsti að Guðmundur Páll væri að leggja síðustu hönd á kennsluefni fyrir framhaldsskólana, og gert væri ráð fyrir að það félli að einingakerfinu.
Reikningarnir bornir upp og samþykktir samhljóða.

Lagabreytingar.
Guðmundur Ágústsson lagði fram tillögur laga- og keppnisreglnanefndar. Hann benti á, að þrátt fyrir margar breytingatillögur, þá væru ekki margar efnisbreytingar heldur fyrst og fremst breytingar á orðalagi og samræmi á milli hugtaka t.d. á stjórn BSÍ, sem hefur mörg heiti í lögunum. Innbyrðis ósamræmi ætti að minnka. Á lögunum eru þó lagðar til ákveðnar grundvallarbreytingar með ákvæði um áfrýjunarnefnd, sem er dómstigi fyrir ofan dómnefnd BSÍ.
Stefanía Sigurbjörnsdóttir lagði fram breytingatillögu við 6.grein.
Umræður:
Bragi kom með athugasemdir um að mótsögn væri hugsanlega í 6.gr. og 13. gr. um hver hefði hið endanlega vald á vali á landsliðum og þar er þing BSÍ ekki með valdið heldur landsliðsveinvaldurinn.
Ólafur A. Jónsson bað Stefaníu Sigurbj. um skýringu á breytingatillögunni og taldi að þeir peningar sem félögin skiluðu af sér ættu að hafa vægi á þingum BSÍ.
Stefanía Sigurbj. gerði grein fyrir tillögu sinni og benti á að núverandi kerfi væri landsbyggðinni óhagstætt. Í lögunum væri ekki skýrt hvort þyrfti 40 félaga til að eiga tvo þingfulltrúa eða 21.
Ólafur þakkaði Stefaníu góð svör. Hann taldi að spila ætti um landsliðssæti en stjórnin ætti ekki að velja landsliðin.
Sigtryggur Sig. lagði til að tillaga Stefaníu yrði felld, því að í henni fælist að störf félaganna skiptu engu máli.
Stefanía óskaði eftir túlkun á lögunum varðandi 6.gr.
Guðmundur Ágústsson sagði túlkunina vera þá að það þyrfti 40 spilara til að ná 2 fulltrúum, en sagðist vera persónulega samþykkur því að 21 dygði í 2 fulltrúa, en þak væri sett í lögin þannig að hámarksfjöldi fulltrúa frá hverju félagi yrði 9.
Þorsteinn Berg sagðist ekki hafa séð það fyrir þegar B.R. tók að sér föstudagskvöldin að fulltrúum fjölgaði á þinginu.
Sveinbjörn þakkaði fyrir góða umræðu. Hann sagði vandamálið vera að fá þingfulltrúa á staðinn, en sagði að það væri eðlilegt að svona krafa kæmi frá Bf. Siglufjarðar þar sem starfsemin væri blómleg. Hann lýsti efasemdum um það að spila ætti um landsliðssæti, þar sem dagsformið gæti ráðið heldur ætti að taka tillit til árangurs almennt.
Stefán Vilhj. spurði um útreikninga á fjölda spilara á hverju kvöldi og taldi að miða ætti við þátttakendafjöldann á hverju kvöldi, en breyta ætti lögunum þannig að 2. fulltrúinn kæmi eftir 20. félagsmanninn. Hann sagði stjórnina eiga að sjá um landsliðin, en ekki ætti að spila um sætin. Hann taldi einnig að tímasetning þingsins ætti að vera óbreytt.
Friðgerður var á móti því að taka ætti tillit til meistarastiga. Hún sagðist vera gutlari og spilaði til að hafa gaman af því og spurði hvort spilað væri til þess eins að vinna eða hafa gaman af.
Kristján Kristjánsson vildi leiðrétta þann misskilning að stjórnin veldi landslið, það hefði hún aldrei gert.
Hjalti Elíasson taldi að lagabreytingarnar hefðu ekki komist nógu snemma í hendur þingfulltrúa. Hann sagði að stjórn BSÍ á hverjum tíma ætti að ráða hvernig fyrirkomulag með val á landsliðum væri. Hann taldi markverðustu breytingartillöguna vera um áfrýjunardómsstólinn en taldi hann ekki til bóta og erfitt yrði að manna hann.
Guðný Guðjónsdóttir sagði að ekki hefði verið spilað um landslið kvenna í 6 ár og skilaboð frá mörgum konum að ef það yrði ekki gert myndu þær hætta að spila bridge.
Kristján Kristjánsson sagði þetta vera rangt því fyrir 2 árum hefði það einmitt verið gert.
Guðmundur Ágústsson svaraði athugasemdum Hjalta.
Ásgeir Metúsalemsson taldi eðlilegast að eftir 20. manninn kæmi 2. fulltrúi.
Hrólfur Hjaltason sagði fjölda þátttakenda skipta máli.
Birkir Jónsson sagði þátttakendur hjá B.R. ekki eingöngu koma frá Reykjavík.
Bragi sagði að félög ættu að njóta grósku í félagsstarfi sínu, en sagði það hið besta mál að eftir 20 spilarar bættist við einn fulltrúi.
Ólafur Jónsson, formaður kjörbréfanefndar gerði grein fyrir útreikningum á fjölda þingfulltrúa.
Stefán Vilhjálmsson sagði að það vantaði alla praktík í þessi lög.
Þorsteinn Berg taldi 6.gr. meingallaða.
Guðmundur Ág. bar fram breytingu á 6. gr. og sagði athugasemdir Hjalta við 13.gr. eiga rétt á sér.
Jóhann Stefánsson taldi vera ósamræmi í lögunum.
Hjalti sagði umræðuna vera á villigötum og rakti starfsemi bridgefélaga í gegnum tíðina. Hann sagði fleiri þingfulltrúa á ársþingi vera nauðsynlegt. Gott að fá fleiri raddir og að þingið ætti að vera uppbyggilegt og jákvætt.
Jóhann Stefánsson sagði að samkvæmt túkun Guðmundar þá stæðust lögin ekki, þ.e. að Bf. Ak. væri reiknað sem 2 félög og B.R. sem 3.
Gert var þinghlé í 5 mínútur.
Guðmundur Ág. lagði fram breytingartillögu eftir athugasemdir Jóhanns.
Breytingartillögur voru bornar upp og samþykktar. Sjá meðfylgjandi lagatexta.

Kosning aðal- og varastjórnar.
Tillögur uppstillingarnefndar voru samþykktar með lófataki.
Forseti (til eins árs) Guðmundur Ágústsson
Aðalstjórn (til tveggja ára) Ísak Örn Sigurðsson Bf. Reykjavíkur
Ljósbrá Baldursdóttir Bf. Reykjavíkur
Anton Haraldsson Bf. Akureyrar
Varastjórn (til eins árs) Erla Sigurjónsdóttir Bf. Hafnarfjarðar
Sveinbjörn Eyjólfsson Bf. Borgarfjarðar
Páll Þórsson Bf. Akureyrar


Kosning löggilts endurskoðanda.
Guðlaugur R. Jóhannsson.

Kosning tveggja skoðunarmanna.
Hallgrímur Hallgrímsson og Páll Bergsson. Til vara: Jónas Elíasson og Bogi Sigurbjörnsson.

Ákvörðun árgjalds.
Engar tillögur um breytingar lagðar fram.

Önnur mál.
Kristján Kristjánsson sagði það bæði vera léttir og eftirsjá að hætta sem forseti. Hann þakkaði samstarfsfólki sínu fyrir samstarfið.
Ólafur A. Jónsson þakkaði Kristjáni fyrir samstarfið og óskaði eftir góðri samvinnu við Guðmund Ágústsson.
Guðmundur Ágústsson færði Kristjáni sérstakar þakkir frá BSÍ og briddsurum almennt og færði honum gjöf frá BSÍ.
Bragi ræddi um þá lægð sem briddsinn er í hér á landi. Hann taldi skýringar vera margar t.d. fræðslumál, val á landsliði og framkoma spilara við spilaborðið.
Ragnheiður Haraldsdóttir vildi að parakeppnin verði haldin á Akureyri t.d. annað hvert ár ef það væri mögulegt.
Guðmundur Ágústson þakkaði fundarstjóra og fundarritara fyrir þeirra störf, óskaði gestum góðrar heimferðar og sagði þingi slitið.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar