50. ársþing október 1998

miðvikudagur, 21. október 1998

Ársþing Bridgesambands Íslands 19. desember 1998

Mættir á fundinn:

1. 50. Ársþing.

Forseti BSÍ, Kristján Kristjánsson setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Kristján harmaði dræma fundarsókn. Gunnlaug Einarsdóttir var skipaður fundarstjóri og Ísak Örn Sigurðsson fundarritari. Í kjörbréfanefnd voru skipuð Bryndís Þorsteinsdóttir, Magnús Magnússon og Þorlákur Jónsson. Nefndin tók þegar til starfa. Í uppstillingarnefnd voru skipaðir Páll Bergsson, Hjalti Elíasson og Magnús Aspelund. Alls bárust kjörbréf frá 13 félögum. Öll kjörbréf voru úrskurðuð gild. Þingfulltrúar voru eftirfarandi:

B.Breiðfirðinga: Sveinn R. Eiríksson, Jakob Kristinsson.
B.Húsavíkur: Hilmar Dúi Björgvinsson
B.Kópavogs: Magnús Aspelund, Heimir Tryggvason.
B.Sauðárkróks: Jóhann Stefánsson, 2 atkvæði
B.Barðstrendinga: Friðgerður Benediktsdóttir, Ísak Örn Sigurðsson
B.Akureyrar: Magnús Magnússon
B.Muninn Sandgerði: Víðir Jónsson, Þröstur Þorláksson
B.Hafnarfjarðar: Halldór Þórólfsson, Þorsteinn Kristmundsson
B.Borgarfjarðar: Sveinbjörn Eyjólfsson
B.Reykjavíkur: Sigtryggur Sigurðsson, Bryndís Þorsteinsdóttir, Bragi L. Hauksson, Friðjón Þórhallsson, Guðbjörn Þórðarson, Hjalti Elíasson, Páll Bergsson, Hrólfur Hjaltasson, Eiríkur Hjaltason, Gunnlaug Einarsdóttir, Ragnar Magnússon
B.Kvenna: Gróa Guðnadóttir, Ólína Kjartansdóttir (mætti ekki)
B.Hrunamanna: Ari Einarsson (mætti ekki)
B.Hvolsvallar: Guðjón Bragason

Á þinginu voru alls 27 fulltrúar með 28 atkvæði og 34 að meðtalinni stjórn BSÍ. Mættir úr stjórn BSÍ voru Kristján Kristjánsson, Þorlákur Jónsson, Erla Sigurjónsdóttir, Þorsteinn Berg, Ólafur Steinason og Ljósbrá Baldursdóttir, auk þeirra stjórnarmanna sem einnig sátu sem fulltrúar félaganna. Stefanía Skarphéðinsdóttir framkvæmdastjóri sat einnig þingið. Kristján Kristjánsson gaf skýrslu um starfsemi sambandsins. Að lokinni skýrslugerð, ræddi Kristján um þá fækkun sem sjáanleg væri hjá flestum félögum landsins og taldi hana áhyggjuefni. Ástæðuna mætti að miklu leyti rekja til þess að ekki væri nægjanleg endurnýjun yngra fólksins. Þó væri ýmsilegt gert til að virkja yngri spilara og mætti þar meðal annars minnast á frumkvæði B.R. og B.S.Í. Framlag Ljósbrár Baldursdóttur, sem samið hefði kennsluefni í bridge fyrir börn á grunnskólastigi, væri til fyrirmyndar. Guðmundur Páll hefði einnig samið kennsluefni fyrir unglinga á framhaldsskólastigi. Kristján þakkaði B.R. fyrir þeirra framlag, en félagið kostar vinnu G.P.A.
Kristján taldi það einnig vera áhyggjuefni, að sýnileg fækkun hefði orðið á fjölda þáttakenda í mótum víða um land. Það ylli einnig áhyggjum hans, hve margir af bestu spilurum landsins hefðu dregið sig í hlé, þrátt fyrir að mótahald væri að mestu óbreytt. Það væri verkefni næstu stjórnar BSÍ að endurskoða mótahaldið og skoða til dæmis hvort tímabært væri að taka upp deildaskiptingu. Kristján minntist á breytingu varðandi val á landsliði sem spilaði á síðasta Norðurlandamóti. Auglýst var eftir þátttöku para sem áhuga hefðu á að keppa um landsliðssæti, en það hefðu verið mikil vonbrigði hve undirtektir voru slæmar. Kristján lýsti þeirri persónulegri skoðun sinni, að farsælast væri að velja landsliðseinvald, sem síðan veldi landslið.
Kristján gerði fjármál BSÍ að umtalsefni. Hann sagði frá því að þegar hann hefði byrjað sem forseti BSÍ, hefði rekstrarstyrkur ríkisins verið 500.000 krónur á ári. Í fjárlögum þessa árs væri hins vegar gert ráð fyrir 3 milljón króna styrk og útlit væri fyrir hækkun styrkja á næstu árum. BSÍ hefði tekist að hreinsa upp skuldahala og lausaskuldir. Tækjakostur BSÍ hefði verið bættur á árinu, nýjar tölvur keyptar, gjafavél og fullkomin ljósritunarvél. Nú væru betri tímar framundan í fjármálum eftir mörg erfið ár, en fram að þessu hefði of mikill tími farið í fjármálin.
Kristján velti upp þeirri spurningu hvort húsnæði BSÍ að Þönglabakka væri of stórt. Það hefði verið rétt ákvörðun á sínum tíma að kaupa húsið, en væri ekki endilega rétt í stöðunni í dag. Hann hefði látið fasteignasala gera könnun á húsnæði BSÍ að Þönglabakka og söluhæfi þess. Niðurstaða fasteignasalans væri sú, að húsið gæti auðveldlega selst á 95 milljónir króna (1250m2). Skuldir BSÍ væru nú nálægt 35 milljónum króna. Eignir BSÍ væru því um 60 milljónir og sú eign hefði að mestu skapast á undanförnum 10-15 árum. Með minna húsnæði yrði allur rekstur BSÍ léttari og meira svigrúm skapaðist.
Kristján minntist á að á síðasta ári hefði hann sent formönnum félaganna bréf þar sem hann hefði farið fram á styrk frá spilurum landsins, sem gjaldfæra mætti á greiðslukort. Undirtektir hefðu verið vægast sagt slæmar, en Kristján ítrekaði beiðni sína.
Kristján sagði mörg verkefni framundan hjá BSÍ. Þar stæði EM á Möltu og NM yngri spilara (sem verður hér á landi) hæst. Kristján minntist á vandamál sem komið hefði upp vegna svæðamóts í sveitakeppni á Vesturlandi. Hann sagði að skipuð hefði verið nefnd undir forsæti Ólafs Steinasonar sem muni leggja fram laga- og keppnisreglubreytingu til að koma í veg fyrir að svipað vandamál gæti komið fram.
Að lokinni skýrslugerð forseta, lagði framkvæmdastjóri, Stefanía Skarphéðinsdóttir fram reikninga sambandsins. Hún minntist á að aukning hefði verið á tekjum BSÍ af mótum þrátt fyrir fækkun keppenda. Ástæðuna mætti rekja til þess að Íslandsmót í tvímenningi hefði verið fært til hausts og það hefði vantað inn í reikninga síðasta árs. Einnig væri afmælismót BSÍ aukning frá fyrri árum. Stefanía sagði að rekstur landsliða væri mun lægri á þessu ári en því síðasta, eða um 75% lækkun. Hækkun á gjaldfærðum tækjum og áhöldum mætti skýra út frá kaupum á 2 nýjum tölvum og spilagjafavél.
Gunnlaug fundarstjóri þakkaði St.Sk. fyrir ársreikningana og opnaði umræðu um skýrslu stjórnar og reikninga.
Hrólfur Hjaltason frá BR kom með fyrirspurn um byggingarstyrk. Kristján Kristjánsson sagði að loforð væri um 3 x 3 milljón króna byggingarstyrk frá ríkissjóði og þar að auki munnlegt loforð frá menntamálaráðherra um fleiri styrki. Hrólfur taldi að ef BSÍ myndi selja húsið að Þönglabakka, myndi ekki lengur fást byggingarstyrkur.
Bragi Hauksson taldi að í skýrslu stjórnar ætti að telja upp sigurvegara í þeirri sveit sem vann sigur á afmælismóti BSÍ. Bragi kvartaði undan því að ekki hefði verið minnst einu orði á vandræði spilara á HM í Lille, vegna vanrækslu BSÍ á greiðslu árgjalda. Bragi spurði ennfremur um hve háa dráttarvexti BSÍ þyrfti að greiða vegna framkvæmda við göngugötu í Þönglabakka. Bragi spurði að lokum að því hve langan tíma það tæki BSÍ að greiða upp 25 milljóna króna skuld við Íslandsbanka og Landsbanka.
St.Sk. svaraði Braga. Reikningar sambandsins væru lagðir fram samkvæmt bókhaldsreglu um skuldafærslu. Skuldir BSÍ við Íslandsbanka væru um 10 milljónir sem myndu greiðast upp á 8-10 árum. Lánum BSÍ hjá Landsbanka hefði verið skuldbreytt og þau væru nú um 10 milljónir til 18 ára. Lán hefðu verið tekin með 4,8% vöxtum við kaup hússins og vextirnir væru hagstæðir miðað við markaðinn. Varðandi göngugötuna, þá afgreiddi lögfræðingur BSÍ, Björgvin Þorsteinsson, málsvörn til héraðsdóms í ágúst síðastliðnum og málið verður aftur tekið fyrir í nóvember-desember, eða í síðasta lagi í janúar 1999.
Kristján Kr. taldi upp nöfn spilaranna í sigursveitinni á afmælismóti BSÍ. Bragi Hauksson ítrekaði að upplýsingar um vandræði spilara í Lille ættu að koma fram í skýrslu stjórnar.
Guðjón Bragason frá B. Hvolsvallar hrósaði BSÍ fyrir aðhald í fjármálum. Hann kom jafnframt með fyrirspurn um háa húsaleigu á Bridgehátíð. St. Sk. svaraði og sagði frá því að breyting hefði orðið á rekstrarfyrirkomulagi Flugleiða og Hótel Loftleiða sem komið hefði illa út fyrir BSÍ. Illa hefði gengið að fá húsaleiguna lækkaða. Annað húsnæði undir Bridgehátíð væri mögulegt, en það væri erfitt að rjúfa tengslin við Flugleiðir. Stefanía minnti á, að með síðustu samningum við Flugleiðir, hefðu fengist 10 frímiðar í flugi, sem reikna mætti sem mótvægi við hárri húsaleigu, en flugmiðarnir væru að jafngildi 200 þúsundum króna.
Sveinbjörn Eyjólfsson þakkaði BSÍ fyrir góða reikninga. Hann gerði bréfsendingu frá BSÍ til Bridgesambands Vesturlands að umtalsefni, þar sem B. Vesturlands var áminnt fyrir að hafna beiðni sveitar um spilarétt í svæðamóti. Sveinbjörn taldi mótahald erfitt og tímafrekt og þyrfti mikinn undirbúning. Mótið var haldið í mars og settur hefði verið viku skráningarfrestur. Sendir hefðu verið út gíróseðlar til skráðra sveita og búið að sinna öðrum framkvæmdaratriðum, þegar ósk hefði komið fram um skráningu sveitar, 4 dögum fyrir mótið. Sveinbjörn hefði því hafnað umsókn sveitarinnar og skírskotað í skráningarfrest. Samkvæmt áminningu frá BSÍ, hefði B. Vesturlands brotið rétt gegn sveitinni samkvæmt 4. grein laganna. Það væri hins vegar álit B.Vesturlands að 4. greinin ætti ekki við í þessu tilfelli. Hvergi væri til lagakrókur um skráningarfrest í svæðamót og athugasemd BSÍ ætti því ekki við. Sveinbjörn benti einnig á að mótahald í svæðakeppnum væri að öllu leyti undir svæðasamböndunum komið. Sveinbjörn kvartaði undan framsetningu áminningarbréfs BSÍ sem hefði engan haus eða tilvísun í BSÍ. Sveinbjörn fór fram á að bréfið yrði ljósritað fyrir þingfulltrúa. Hann benti einnig á, að Jón Steinar Gunnlaugsson, sem ritaði bréfið, hafi greinilega ekki fengið allar upplýsingar um málið og öll gögn í hendur, áður en hann lét frá sér sína álitsgerð. Sveinbjörn fór fram á að BSÍ drægi til baka alvarlega áminningu til B.Vesturlands, en sagðist ekki fara fram á afsökunarbeiðni.
Ragnar Magnússon, varaforseti BSÍ upplysti að tilgangur BSÍ hefði verið sá, að fá B.Vesturlands til að samþykkja skráningu fyrir sveitina (Strengur - Júlíus Sigurjónsson) á mótið. Sveit Strengs hefði hins vegar dregið umsókn sína til baka, þegar B.Vesturlands hefði hótað því að mótið yrði ekki haldið ef Strengur mætti til leiks. Ragnar kvartaði undan því að svæðamótið hefði aldrei verið kynnt í fjölmiðlum. Frestur hefði heldur ekki verið tilkynntur opinberlega. Tilgangurinn með því hefði ef til vill verið sá að koma í veg fyrir að utanaðakomandi sveitir kæmust inn á svæðamótið. Það væri hugsanlega skiljanleg afstaða, en til þess að beita þeim aðferðum, þyrfti laga- eða keppnisreglubreyting að koma til sem afgreiða þyrfti á þingi, en ekki innan svæðasambandanna. Ragnar lýsti þeirri skoðun sinni, að það hefði vel verið tæknilega mögulegt fyrir B.Vesturlands að leyfa sveit Strengs þátttöku, ef viljinn hefði verið fyrir hendi.
Heimir Tryggvason tók til máls og sagðist hafa verið meðal þátttakenda í svæðamótinu B.Vesturlands að Munaðarnesi. Hann þakkaði Sveinbirni fyrir mótshald og hrósaði honum fyrir framkvæmdina.
Jóhann Stefánsson frá B. Sauðárkróks var ekki sammála Ragnari Magnússyni. Hann taldi að svæðasamböndin væru yfirleitt á þeirri skoðun að eftirsóknarvert væri að fá utanaðkomandi sveitir. Einnig að sú regla hefði aldrei verið í gildi að auglýsa skráningarfrest í mót hjá svæðasamböndum landsins. Umdæmin eigi sjálf að setja reglur um skráningarfrest.
Guðjón Bragason var ósammála Jóhanni St. og sammála Ragnari M. um hans málflutnig. Skráningarfrestur hjá B.Suðurlands hefði til dæmis alltaf verið auglýstur í Morgunblaðinu.
Ragnar Magnússon sagði að ef skráningarfrestur væri í gildi, yrði að auglýsa hann.
Magnús Magnússon frá B. Akureyrar spurði hvort það hefði ekki verið trassaskapur hjá sveit Strengs að vera svo seint á ferðinni með skráningu.
Ragnar M. sagði það alvanalegt að sveitir skráðu sig með litlum fyrirvara.
Sveinbjörn Eyjólfsson sagðist ekki hafa séð ástæðu til þess að auglýsa skráningarfrestinn í fjölmiðlum, auk þess sem vanhöld væru á birtingu Mbl og DV á fréttatilkynningum sem þeim hafi borist. Auk þess sé það alvanalegt af mótshöldurum að sveitir séu beðnar um að skrá sig tímanlega til að auðvelda mótahald.
Jóhann Stefánsson gerði útbreiðslumál að umtalsefni. Hann hrósaði Ljósbrá fyrir hennar framtak og beindi því til stjórnar BSÍ að útbúa námsefni í bridge fyrir framhaldsskóla sem byggja á einingakerfi.
Eiríkur Hjaltason frá B.Reykjavíkur lýsti yfir ánægju með að komið hefði fram umræða um sölu á húsnæði BSÍ. Benti á að byggingarstyrkur sé svipuð upphæð og vaxtakostnaður af húseigninni. Húseign BSÍ henti heldur ekki rekstri margra félaganna.
Ragnar Magnússon fagnaði tillögu Jóhanns um kennsluefni, en benti á að undirtektir skólayfirvalda hefðu verið dræmar.
Að þessuum umræðum loknum voru lagabreytingar teknar til umræðu. Ólafur Steinason lagði fram hugmyndir laga- og keppnisreglunefndar um breytingar (sjá meðfylgjandi gögn).
Hjalti Elíasson kvartaði undan því að breytingar á lögum frá ársþinginu 1997 hafi ekki skilað sér á milli ára og því ekki rétt að málum staðið. Ekki sé mögulegt að breyta röngum texta og mikilvægt að búið sé að uppfæra síðustu breytingar.
Ólafur Steinason sagði ástæðuna vera þá, að nefndin hefði unnið breytingartillögurnar útfrá nýjasta hefti um Meistarastigaskrána, en nýtt hefti hefði ekki verið gefið út frá ársþinginu 1997. Í því væru mistök nefndarinanr fólgin.
Breytingartillagan borin upp og samþykkt, mótatkvæðalaust. Gunnlaug bar breytingartillöguna um grein 2.2. undir atkvæði - samþykkt mótatkvæðalaust.
Guðjón Bragason bar upp breytingartillögu við grein 2.3. um undanúrslit.
Sveinn Rúnar Eiríksson taldi galla á breytingartillögunni og lagði til að hún verði lögð niður.
Bragi Hauksson lagði til að undankeppni Íslandsmóts í sveitakeppni yrði algjörlega opnuð. Sveinbjörn tók undir hugmyndir Braga.
Hjalti Elíasson taldi vafasamt að breyta keppnisreglugerð Íslandsmóts vegna einstakra atvika.
Kristján benti á nauðsyn þess að svæðasamböndum sé tryggður ákveðinn fjöldi sæta.
Guðjón Bragason bar fram frávísunartillögu, að breytingartillaga 2.3 verði vísað til laga- og keppnisreglunefndar og næsta þings. Tillagan var samþykkt með 15 atkvæðum gegn 4.
Sveinn Rúnar bar fram breytingartillögu við grein 4.1. um Bikarkeppni.
Bragi Hauksson gerði athugasemd við síðustu málsgrein greinar 4.2., taldi hana óframkvæmanlega.
Hjalti Elíasson taldi orðalagið í grein 4.2. óvandað.
Guðjón Bragason var ósammála Hjalta og sagðist íhuga að nota hana fyrir reglugerðir um mót hjá Svæðasambandi Suðurlands.
Sveinbjörn kom með tillögu um að grein 4.2. yrði annaðhvort samþykkt óbreytt eða vísað frá að öðrum kosti.
Magnús Magnússon spurði hvort sveitir sem mæti ekki til leiks í bikarkeppnum verði beittar refsingum.
Bragi lagði til að tveim síðustu setningunum í grein 4.2. verði sleppt.
Guðbjörn Þórðarson hjá B.Reykjavíkur kom með breytingartillögu á grein 4.2.
Gengið var til atkvæða og breytingartillaga Guðbjörns var samþykkt með 12 atkvæðum gegn 9, en breytingartillögu Braga var hafnað með 7 atkvæðum gegn 16.
Sveinn Rúnar lagði fram breytingartillögu að tvímenningskeppni Íslandsmóts.
Guðjón Bragason lýsti þeirri skoðun sinni, að undankeppni Íslm. Í tvímenningi ætti að fara fram eins seint á hautin og kostur er, svo spilarar séu komnir í spilaæfingu.
Ísak Sigurðsson lýsti ánægju sinni með breytingartillögu Sveins Rúnars og taldi hana koma landsbyggðinni til góða.
Sveinbjörn taldi breytingu Sveins Rúnars of róttæka til að ákvörðun um hana verði tekin á þingi án undirbúnings.
Magnús sagðist vera ósammála þeirri skoðun Sveinbjörns. Hlutverk þingsins væri að taka ákvarðanir í málum.
Kristján Kristjánsson tók undir orð Sveinbjörns.
Bragi Hauksson taldi tillögu Sveins geta haft góð áhrif á landsbyggðinni, en væri annars ekki vænleg til framkvæmda.
Eiríkur taldi tillöguna vera góða, en tímasetningin á framsetningu hennar ekki að sama skapi.
Guðbjörn taldi ársþingið vera vel þess umkomið að taka ákvörðun um tillögu Sveins Rúnars, án sérstaks undirbúnings.
Friðjón Þórhallsson, B.Reykjavíkur vildi færa úrslit tvímennings aftur til vorsins.
Kristján sagði að spilamennska í úrslitum Íslandsmóts í tvímenningi hefði alltaf verið vandamal og varasamt væri að hringla of mikið með tímasetningarnar.
Ragnar taldi að fækkunar spilara í undankeppninni, væri ekki endilega að rekja til tímasetningarinnar, heldur almennrar fækkunar spilara í mótum.
Að þessu loknu var gengið til atkvæða um frávísunartillögu á tillögu Sveins Rúnar Eiríkssonar. Frávísunartillagan var samþykkt með 14 atkvæðum með 10 og tillögu Sveins Rúnars vísað til stjórnar BSÍ.
Næst á dagskrá var kosning forseta, stjórnar, varastjórnar, endurskoðanda og skoðunarmanna. Formaður uppstillingarnefndar, Páll Bergsson gerði grein fyrir tillögum hennar og voru þær allar samþykktar samhljóða.
Forseti Kristján Kristjánsson

Í aðalstjórn Ólafur Steinason, Þorlákur Jónsson, Sigtryggur Sigurðsson.
Varastjórn Erla Sigurjónsdóttir, Ísak Sigurðsson, Guðmundur Ágústsson.
Endurskoðandi Guðlaugur R. Jóhannsson
Skoðunarmenn reikninga: Páll Bergsson og Hallgrímur Hallgrímsson.
Til vara Bogi Sigurbjörnsson, Jónas Elíasson.
Ákvörðun árgjalds: óbreytt, 75 króna gjald.

Næsti liður á dagskrá þingsins var önnur mál:


Sigtryggur Sigurðsson lagði til að fram fari landsliðskeppni fyrir næsta EM og ÓM í báðum flokkum.
Magnús Magnússon mælti fyrir því að valið verði í liðið, en ekki spilað um réttinn. Magnús spurði um stöðu landsliðsmála, hvort búið væri að ráða einvald.
Sveinn Rúnar lagði til, að ef ákvörðun verði tekin um að spilað verði um landsliðssæti, verði spilað um sætin í sveitum en ekki pörum.
Fundarstjóri las upp 13. Grein laga BSÍ, þar sem skýrt er kveðið á um að stjórn BSÍ ákvarði hvernig landslið skuli valin. Því geti þingið aðeins samþykkt áskorun þess efnis til stjórnarinnar.
Ragnar Magnússon taldi það varhugavert að láta þingið taka ákvörðun um val á landsliði með engum fyrirvara. Kristján tók undir orð Ragnars, en fagnaði að öðru leyti umræðum um val á landsliði.
Hjalti Elíasson rakti þær vinnureglur sem giltu þegar hann var í landsliðsnefnd. Hann kvaðst hlynntur því að landsliðsnefnd tæki ákvörðun um val á landsliði.
Sveinbjörn benti á að það væri ekki í hlutverki þingsis að taka völdin úr höndum stjórnar BSÍ og skoraði á Sigtrygg að draga tillöguna til baka.
Ragnar tók til umræðu vandræði spilara á HM í Lille og tók undir orð Braga um að það hefði mátt kom fram í skýrslu stjórnar BSÍ.
Hrólfur Hjaltason taldi að opna ætti landsliðskeppnina og láta spila um landsliðssæti.
Jakob Kristinsson sagði að árangur landsliðs Íslands í opnum flokki hefði verið ágætur á síðasta NM, þrátt fyrir að spilað hefði verið um sætin. Því væri ekkert sem mælti á móti þeirri leið að spilað yrði um landsliðssæti.
Bragi taldi að það mætti láta reyna á það í einhvern tíma að spilað verði um landsliðssæti.
Friðjón Þórhallson vildi láta fara fram skoðanakönnun á þinginu um málið.
Samþykkt var tillaga til stjórnar BSÍ að landsliðskeppni fari fram fyrir Evrópumótið 1999 og Ólympíumótið árið 2000 í karla- og kvennaflokki.
Ísak Sigurðsson lagði til að spilurum verði meinað að hafa farsíma í gangi í mótum og það ákvæði verði sett í reglugerðir BSÍ, til að félögum landsins verði gefið fordæmi.
Páll Bergsson kvaddi sér hljóðs og taldi vanta umræðu um framtíðarmál og stefnu BSÍ til lengri tíma.
Kristján Kristjánsson forseti þakkaði traust fundarmanna vegna kosningu til forseta. Næsta starfsár 1998-99, verður hans síðasta ár sem forseti BSÍ. Kristján lagði áherslu á að rækt verði lögð við kennslumálin. Að því loknu var þinginu slitið klukkan 17:00.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar