Ársþing 19. október 1997

sunnudagur, 19. október 1997

49. Ársþing Bridgesambands Íslands 19. október 1997

Mættir á fundinn:

1. Haldið í Þönglabakk þann 19. október 1997

Forseti Bridgesambandsins Kristján Kristjánsson sett þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Sigmundur Stefánsson var skipaður fundarstjóri og tók hann við stjórn fundarins. Þorsteinn Berg var skipaður fundarritari, Í kjörnefnd voru skipuð Sigtryggur Sigurðson, Jón Sigurbjörnsson og Hertha Þorsteinsdóttir. Nefndin tók þegar til starfa. Sigtryggur, formaður nefndarinnar las upp kjörna fulltrúa. Alls bárust kjörbréf frá 20 félögum fyrir 31 fulltrúa og 32 atkvæði. Sigtryggur beindi því til stjórnar að reglur um fulltrúa á þing BSÍ yrðu gerðar skýrari. Öll kjörbréf voru úrskurðuð gild. Þingfulltrúarfulltrúar voru eftirtaldir:

Bf. Húsavíkur Björgvin Leifsson
- Hilmar Björgvinsson
Bf. Hveragerðis Þórður Snæbjörnsson
Bf. Dalvíkur og Ólafsfjarðar Jóhann Magnússon
Bd. Barðstrendinga Ólafur A. Jónsson
- Ísak Örn Sigurðsson
Bf. Kvenna Elín Jóhannsdóttir
- Hertha Þorsteinsdóttir
Bf. Reykjavíkur Guðlaug Jónsdóttir
- Bragi Hauksson
- Sigtryggur Sigurðsson
- Hjalti Elíasson
- Friðjón Þórhallsson
- Jón Baldursson
Bf. Eyfellinga Stefanía Skarphéðinsdóttir
Bf. Selfoss Ólafur Steinason
Bf. V-Húnvetninga Unnar Atli Guðmundsson
Bf. Hrunamanna Ari Einarsson
Paraklúbburinn Erla Sigurjónsdóttir
Bf. Sauðárkróks Ásgrímur Sigurbjörnsson
Bf. Hafnarfjarðar Ásgeir P. Ásbjörnsson
- Björn Höskuldsson
Bf. Suðurnesja Kristján Kristjánsson
Bf. Breiðfirðinga Sveinn R. Eiríksson
- Ljósbrá Baldursdóttir
Bf. Kópavogs Sigurður Sigurjónsson
- Bernódus Kristinsson
Bf. Reyðar- og Eskifjarðar Friðjón Vigfússon
Bf. Muninn Víðir Jónsson
Bf. Siglufjarðar Jón Sigurbjörnsson
Bf. Geisli Sigurður Vilhjálmsson - mætti ekki

Á þinginu voru alls 36 manns með stjórn BSÍ. Fundarstjóri lagði fram tillögu af eftirtöldum í uppstillingarnefnd: Ásgrími Sigurbjörnssyni, Ólafi Steinasyni og Ragnari Magnússyni sem formanni. Var það samþykkt einróma.

Þá flutti Kristján Kristjánsson skýrslu stjórnar um síðasta starfsár. Fram kom í máli Kristjáns, að nú væri lokið innréttingum í húsnæði sambandsins og að gerður hefði verið leigusamningur við stofnun á vegum fjármálaráðuneytisins, sem gæfi ágætar aukatekjur. Þá lýsti hann áhyggjum af lélegri þátttöku í Íslandsmótum yngri spilara, en ákveðið er að innheimta ekki keppnisgjöld í þeim mótum. Trygging hf. hefur gefið sambandinu 1800 ný götuð spil, sem notuð verða í fyrsta sinn í úrslitum Íslandsmóts í tvímenningi 1. - 2. nóv. nk. og ætla má að ekki þurfi að kaupa spil framvegis, heldur séu fyrirtæki tilbúin að auglýsa sig með þessum hætti. Að lokum fór forsetinn yfir úrslit helstu móta á árinu og árangur landsliða okkar og lýsti sérstakri ánægju með árangur landsliðs yngri spilara, en þeir urðu Norðurlandameistarar 1997 og úrslit í bikarkeppninni, þar sem ungir menn skipa sigursveitina. Stefanía Skarphéðinsdóttir gjaldkeri BSÍ lagði fram reikninga sambandsins. Rekstrartekjur eru kr. 23.267.377 og gjöld kr. 25.631.778. Hallarekstur ársins með fjármagnsgjöldum og afskriftum var kr. 5.588.735. Stefanía útskýrði einstaka liði, t.d. er tíföldun á rafmagnskostnaði þannig til komin, að nágranni okkar í Keilunni hefur að mestu greitt okkar rafmagnsnotkun frá því við keyptum húsnæðið. Hlutdeild okkar í rekstrarkostnaði á sameign utandyra hefur hækkað mjög og fer enn hækkandi á næsta ári og er okkur gert að greiða 7 % af rekstrarkostnaði göngugötunnar, sem BSÍ er mjög ósátt við. Kostnaður vegna landsliða var óvenjumikill á síðasta ári enda bæði Evrópumót og Olympíumót auk Norðurlandamóts yngri spilara. 1 milljón kr. samdráttur varð í tekjum vegna Íslandsmóta. Nú erum við búin að leggja í nauðsynlegar fjárfestingar á húsnæðinu og erfiðasta hjallinn í fjármálunum að baki. því ættu menn að líta bjartsýnir fram á veginn. Hjalti Elíasson lýsti áhyggjum vegna halla á sambandinu og vegna lágra rafmagnsreikninga á síðasta ári. Það væri dæmalaust að löggiltur rafverktaki tengdi ekki rafmagnsmæla rétt. Þá lýsti Hjalti ánægju sinni með framgang yngri spilara. Ólafur Jónsson spurði hvort ekki væri hægt að finna prentsmiðju, sem væri tilbúin að prenta fyrir BSÍ gegn því að fá merki sitt á pappírinn. Ólafi fannst tilvalið að reyna að fá fyrirtæki til að auglýsa á auðum veggjum í sölum BSÍ. Guðlaug Jónsdóttir spurði um gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Stefanía upplýsti að hún lægi ekki fyrir, en yrði gerð. Ásgeir Ásbjörnsson tók undir með ðrum ræðumönnum um slæma fjárhagsstöðu sambandsins. Hann taldi að rekstur hússins yrði mjög erfiður vegna fækkunar spilara og spurði gjaldkera hvort ástæða væri til bjartsýni. Stefanía svaraði að nýlega hefði verið gerður samningur um dagleigu á einum sal og möguleikar á auknum leigutekjum töluverðir, enda húsnæðið okkar með því glæsilegra á höfuðborgarsvæðinu til námskeiða- og fundahalda. Næstu tvö árin fáum við byggingarstyrk frá ríkinu samtals kr. 6.000.000 og á næsta ári er einungis Norðulandamót, svo rekstur landsliða verður ekki þungur. Bragi Hauksson taldi stöðuna alvarlega, eigið fé BSÍ hefði rýrnað um fjórðung. Þá taldi hann ekki nóg að gera fjárhagsaætlun til eins árs, hún yrði að vera til þriggja eða fimm ára. Jón Sigurbjörnsson ræddi slæma fjárhagsstöðu og vildi gera fjárhagsáætlun til langs tíma og taldi að BSÍ yrði aldrei stærra eða meira en fjöldi þátttakenda. Jóni finnst að það mætti virkja svæðisstjórnirnar meira. Bernódus Kristinsson spurði um kostnað vegna landsliðs. Kristján forseti sagði rétt að reikningarnir væru ekkert augnayndi, en við ættum miklar eignir og hægt væri að selja Þönglabakkann ef menn vildu og nota peningana t.d. í landsliðið, það myndi örugglega skila sér. Guðmundur Páll benti á, að norðurendinn í húsinu sem innréttaður var, hefði kostað níu milljónir, en menn gleymdu því að á móti komi frá Alþingi þrjár milljónir á ári í þrjú ár í byggingarstyrk og rekstrarstyrkur væri nú tvær milljónir á ári og unnið væri að því að fá hann upp í þrjár milljónir. Bragi Hauksson taldi menn viðkvæma, ef strax væri farið að tala um að selja húsið ef fundið væri að reikningum. Guðmundur Páll sagði að sú stjórn sem nú situr hefði lagt grunn að framtíðinni í húsnæðirmálum. Þá voru reikningarnir bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða. Að loknu matarhléi tók Hjalti Elíasson til máls og skýrði störf milliþinganefndar um endurskoðun laga og fór yfir þær breytingar, sem nefndin lagði til. Í umræðunum á eftir tóku til máls: Sigtryggur Sigurðsson, sem lagði fram breytingartillögu við 6.grein. Ísak Örn, sem lagði fram breytingartillögu við 15.grein. Ragnar Magnússon ræddi um viðvörunarreglur og lagði til að þær yrðu samræmdar því sem er annarsstaðar. Ásgrímur Sigurbjörnsson talaði um 5. grein og taldi vanta blaðafulltúa, sem hefði tengsl við fyrirtæki. Bernódus ræddi um 17.grein og Jón Baldursson og Ólafur Jónsson um 5.grein. Guðmundur Páll lagði fram eftirfarandi breytingartillögu við breytingartillögu Ísaks á 15.grein: "Dómnefnd skal bókfæra niðurstöður sínar." Borið undir atkvæði og samþykkt. Tillaga milliþinganefndar um breytingar á 5.grein: "Meiriháttar fjárskuldbindingar skulu ætíð háðar samþykki sambandsþings eða aukaþings skv. 8.grein" var felld. Tillaga nefndarinnar um breytingu á 5.grein: "Skal hver þessara nefnda vera skipuð þrem mönnum að dómnefnd undanskilinni, sem skipuð er 9 mönnum" og "Formenn fastanefnda skulu flytja skýrslu um störf nefndanna á ársþingi BSÍ." var samþykkt. Breytingatillögur nefndarinnar við 7.grein, 9.grein, 12.grein og 15.grein voru allar samþykkta samhljóða. Næst á dagskrá var kosning forseta, stjórnar, varastjórnar, endurskoðanda og skoðunarmanna. Formaður nefndarinnar gerði grein fyrir störfum hennar og lagði fram eftirfarandi tillögur, sem allar voru samþykktar samhljóða:

Forseti Kristján Kristjánsson
Í stjórn til 1 árs Þorlákur Jónsson
Í stjórn til 2 ára Ljósbrá Baldursdóttir
- Ragnar Magnússon
- Þorsteinn Berg
Í varastjórn til eins árs Erla Sigurjónsdóttir
- Ísak Örn Sigurðsson
- Sigtryggur Sigurðsson
Endurskoðandi Guðlaugur R. Jóhannsson
Skoðunarmenn Hallgrímur Hallgrímsson
Páll Bergsson
Skoðunarmenn til vara Bogi Sigurbjörnsson
Jónas Elíasson

Undir liðnum ákvörðun árgjalds, lagði Kristján Kristjánsson til að kvöldgjald yrði hækkað í kr. 100. Ólafur Jónsson lagði til að gjaldið yrði óbreytt. Jón Baldursson gerði tillögu um, að lagður yrði á einskonar hátekjuskattur, þannig að fyrir fyrstu 30 spilarana væri gjaldið kr. 75 en kr. 150 fyrir hvern spilara umfram 30. Til máls tóku eftirtaldir og voru allir á móti hækkun: Guðlaug Jónsdóttir, Þórður Snæbjörnsson og Bragi Hauksson. Ásgrími Sigurbjörnssyni fannst ekki mikið þó hækkun á ársgrundvelli í meðalklúbb yrði kr. 15.000 Tillaga Jóns borin upp og felld, 10 atkvæði með og 18 á móti. Tillaga Ólafs um óbreytt kvöldgjald samþykkt. Síðast á dagskrá þingsins voru önnur mál. Björgvin Leifsson hóf umræður og ræddi um framkvæmd undankeppni Íslandsmóts í sveitakeppni sl. vetur og var mjög ósáttur við, að sveit frá Húsavík hefði ekki fengið að spila þó hún hefði tafist á leið til Reykjavíkur og lagði til að N-eystra fengi tvær sveitir til viðbótar í undankeppni næst á kostnað Reykjavíkur. Ásgrímur Sigurbjörnsson ræddi mótaskrána og kvartaði yfir, að henni hefði verið breytt eftir útsendingu, sem hefði skapað leiðindi í hans umdæmi. Unnar Guðmundsson var óánægður með að Íslandsmót í tvímenningi væri spilað á sama tíma og Guðmundarmótið á Hvammstanga. Ragnar Magnússon formaður mótanefndar, útskýrði framkvæmd undankeppni í sveitakeppni og taldi að allt hefði verið gert til að bíða eftir sveitinni frá Húsavik. Það hefði ekki verið forsvaranlegt að bíða lengur. Jón Sigurbjörnsson ræddi um aðstöðumun dreifbýlisins og tók undir orð Ásgríms um breytingar á mótaskránni. Eftirtaldir tóku til máls um mótaskrá og úrskurði mótanefndar: Ragnar Magnússon, Jón Baldursson, Sigurður Sigurjónsson, Björgvin Leifsson, Hjalti Elíasson, Stefanía Skarphéðinsdóttir, Kristján Kristjánsson og Jón Sigurbjörnsson. Sigrún Pétursdóttir ræddi um reykingar og slæma loftræstingu í spilasölum og spurði hvort ekki væri hægt að gera eitthvað í málinu. Þorsteinn Berg sagðist hafa hugmynd að lausn, sem yrði lögð fram á næsta stjórnarfundi. Fleira var ekki rætt. Kristján Kristjánsson forseti BSÍ þakkaði þingfulltrúum góða og málefnalega umræðu og sleit þinginu kl. 16.00.



Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar