8. maí 1996

miðvikudagur, 8. maí 1996

Stjórnarfundur BSÍ 08. maí 1996

Mættir á fundinn: Kristján Kristjánsson, Guðmundur Sv. Hermannsson, Guðmundur Páll Arnarson, Ólafur Steinason, Ragnar Magnússon, Sigrún Pétursdóttir, Stefanía Skarphéðinsdóttir, Þorsteinn Berg og Sólveig Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri.

1. Landsliðsmál.

* Lið hafa verið valin til að keppa fyrir Íslands hönd á NL í Faaborg í Danmörku dagana 24. - 28. júní næstkomandi:

Opinn flokkur: Jón Baldursson, Sævar Þorbjörnsson, Guðmundur Páll Arnarson og Þorlákur Jónsson. Fyrirliði er Björn Eysteinsson.

Kvennaflokkur: Hjördís Sigurjónsdóttir, Ragnheiður Nielsen, Stefanía Skarphéðinsdóttir og Gunnlaug Einarsdóttir. Fyrirliði er Guðmundur Sveinn Hermannsson.

* Samkvæmt tillögu Ragnars Magnússonar, Björns Eysteinssonar og Helga Jóhannssonar, samþykkti stjórnin að koma á fór B-landsliði, sem fengi það fyrsta verkefni að spila á Schiphol-mótinu í Hollandi helgina 22.-23. júní næstkomandi. Liðið verður valið með keppni við A-landsliðið, sem fer fram tvær helgar í maí og júní. BSÍ greiðir flugfar og keppnisgjöld.

2. Sumarbrids.

Þrjú tilboð bárust í sumarspilamennsku BSÍ. Hæsta tilboðið hljóðaði upp á 1.809.900 kr. og var frá Matthíasi Þorvaldssyni. Var samþykkt að fela framkvæmdastjóra að ganga til samninga við Matthías.

3. Húsnæðismál.

Kristján Kristjánsson, Guðmundur Sv. Hermannsson, Sólveig Kristjánsdóttir og Björgvin Þorsteinsson, lögfræðingur BSÍ, áttu fund með öðrum eigendum Þönglabakka 1 þriðjudaginn 7. maí. Tvennt var þar á dagskrá: Viðhald á húsi (gluggar, þak, rennur, málning o.fl.) og krafa svokallaðs Svæðafélags í Mjódd á hendur BSÍ vegna yfirbyggingar göngugötu. Stjórn BSÍ hefur frá upphafi neitað að taka þátt í kostnaði vegna yfirbyggingarinnar, enda kemur yfirbyggð göngugata sambandinu að engum notum, né heldur eykur göngugatan verðgildi eignarhluta BSÍ. Björgvin Þorsteinsson, sem fer með málið fyrir hönd BSÍ, telur sambandið í fullum rétti og er það mál í biðstöðu.

4. Önnur mál.
* Borðfáni, hálstau og höfuðprýði.

Samþykkt var tillaga forseta þess efnis að BSÍ léti gera borðfána, bindi og slæður með merki sambandsins.

* Íslensk bridssaga.
Þórður Sigfússon, sérstakur fræðaþulur BSÍ, hefur skilað af sér fjórum innbundnum bókum með úrklippum um bridsumfjöllum á Íslandi: (1) Lesbók Morgunblaðsins 1926-1946,

(2) Bridsfréttir úr dagblöðum 1938-1948, (3) Þættir Kristínar Norðmann úr Sunnudagsblaði Vísis 1940-1943 og (4) Bridsþættir Árna M. Jónssonar úr Samtíðinni 1949-1959.

* Ekki lengur frítt spil.

Guðm. Sv. Hermannsson bar fram tillögu um að afnema þá hefð að Íslandsmeistarar spili án endurgjalds í næsta Íslandsmóti. Var tillagan samþykkt.

* Íslandsmótið í tvímenningi.

Rætt var um fyrirkomulag Íslandsmótsins í tvímenningi. Margir hafa lýst óánægju með þá tilhögun að spila mótið í beit á fjórum dögum, bæði undankeppni og úrslit. Slíkt mismunar keppendum óneitanlega, þar eð svæðameistarar og Íslandsmeistarar ganga óþreyttir beint inn í úrslitin. Ennfremur er vaxandi óánægja með tímasetninguna, einkum hjá námsmönnum. Var samþykkt að fela mótanefnd að kanna möguleika á breyttu fyrirkomulagi, með fjóra þætti sérstaklega í huga: (1) að flytja mótið fram á haustvertíð, (2) tvískipta mótinu, (3) fjölga í úrslitum, (4) afnefma sjálfkrafa rétt svæðameistara í úrslit.Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar