Rangæingar -- Jólamót í óviðjafnanlegu umhverfi

mánudagur, 22. desember 2014

Sunnudaginn 28. desember höldum við Rangæingar okkar árlega jólamót.  Spilað verður í golfskálanum á Strönd í fallegasta umhverfi sem spilað er í á Íslandi og þó víðar væri leitað.  Úr spilasalnum blasir Heklan við spilurum í suðursætinu, Tindfjöllin, Þríhyrningur og Eyjafjallajökull gleðja svo augu vesturs og Vestmannaeyjar heilla norðurspilara.  Austur er svo aldeilis ekki ber að baki með þessa höfðingja fyrir aftan sig.

Byrjað verður að spila kl. 11,00 og spiluð verða 44 spil með Monradfyrirkomulagi.

Hjá Rangæingum er auðvitað starfandi úrskurðarnefnd ágreiningsmála, sem Magnús Halldórsson, hirðskáld okkar, veitir forstöðu.   Haustið hefur verið annasamt hjá formanninum, við úrlausn ágreiningsefna, líkt og meðf. mynd ber með sér, einkum hafa tvær síðustu vikur reynt nokkuð á hann.  Það er enda ekki á allra færi að sætta afkomendur Skarphéðins Njálssonar og Gunnars á Hlíðarenda!

Á myndinni sem er hér, má glögglega sjá að formaðurinn hefur staðið í ströngu en er engu að síður klár í að veita nefndinni forstöðu í jólamótinu.   Hann hefur að vísu viljað losna úr þessu embætti en ekki hefur fengist maður í hans stað, af einhverjum ástæðum.     

Gestir velkomnir en tilkynna þarf þátttöku á netfangið: sigurdur.s.ingimarsson@landsbankinn.is eða í síma 894 0491 (Bergur)  

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar