Íslandsmót í sveitakeppni kvenna 2013

 

1. grein. Spilastaður er Síðumúli 37. Spiluð er raðspilakeppni, 10 spila leikir án hálfleiks. Dregið er bæði um töflu- og umferðarröð. Sú sveit sem flest stig hlýtur í öllum leikjum telst sigurvegari. Verði sveitir jafnar þá ræður innbyrðis viðureign/ir, sé enn jafnt ræður heildarhlutfall IMP stiga, sé enn jafnt telst sú sveit hærri sem fleiri stig fær á móti tveim efstu sveitum (að þeim sjálfum frátöldum). Sé enn jafnt ræður hlutkesti.

 

2. grein. Sveit sem situr laust stillir upp liði sínu á undan í upphafi leiks.

 

Spilarar eru sjálfir ábyrgir fyrir því að sitja í réttum áttum og virða tímatakmörk. Hafi sveit verið sektuð fyrir að mæta of seint til leiks, miðast sektir fyrir of hæga spilamennsku við þann tíma þegar allir spilararnir eru sestir við borðið, reiðubúnir að hefja leik.

 

Spilarar eiga að vera sestir við spilaborðið eigi síðar en 4 mínútum áður en umferð hefst. Fyrir hverjar 5 mínútur sem spilari mætir of seint að spilaborði í auglýstan tíma skal sekta um 1 vinningsstig, og síðan 1 vinningsstig fyrir hverjar byrjaðar 5 mínútur þar á eftir þar til 25 mínútur eru liðnar frá auglýstum tíma, þá úrskurðast leikurinn tapaður og sveit brotlega spilarans fær ekkert stig. Hin sveitin fær stig samkvæmt grein 10. Mæti sveit ekki til leiks mun mótsstjórn vísa málinu til Áfrýjunarnefndar BSÍ.

 

3. grein. Spilarar eru skyldugir til að spila töfluleiki sé þess óskað. Keppnisstjóra er heimilt að loka opnum sal fyrir áhorfendum ef úrslit spila í öllum leikjum verða birt jafn óðum á sýningartöflu.

 

4. grein. Spilað skal með skermum. Norður og suður sjá um að renna bakkanum með sögnunum á milli og vestur sér um að opna og loka skermlúgunni.

a)  Norður og austur sitja öðru megin við skerminn og suður og vestur hinu megin við skerminn.

b)  Norður ber ábyrgð á spilabökkunum. Hann lætur bakkana á sagnbakkann og fjarlægir þá að spili loknu.

c) Vestur ber ábyrgð á því að opna og loka skermlúgunni.

d)  Norður leggur spilabakka á sagnbakkann og spilararnir taka spil sín úr bakkanum. Skermlúgunni er lokað og er hún höfð lokuð meðan á sögnum stendur.

e)  Spilarar segja með sagnmiðum. Spilari leggur sögn á sagnbakkann sem sést aðeins hans megin við skerminn. Fyrstu sögn spilara á að leggja lengst til vinstri á sagnbakkann og leggja síðan næstu sagnir í röð til hægri.

f)   Þegar báðir spilarar sömu megin við skerminn hafa sagt rennir norður (eða suður eftir því sem við á) sagnbakkanum undir skermlúguna til spilaranna hinu megin við skerminn. Þeir segja á sama hátt og sagnbakkanum er rennt undir lúguna aftur. Þetta er endurtekið þar til sögnum er lokið. Þá setja spilararnir sagnmiða sína aftur í sagnboxin.

g)  Eftir að spilari hefur spilað út löglegu útspili er skermlúgan opnuð þannig að allir spilararnir geti séð spil blinds og slagina.

i) Spilabakkinn er hafður á sagnbakkanum á miðju borðinu þar til

spilamennsku er lokið.

 

5. grein. Nota skal viðvörunarregluna (ALERT). Athygli er vakin á því að alertað er á allar kerfisbundnar sagnir og allt það sem getur komið andstöðunni á óvart. Almennar alertreglur BSÍ eiga ekki við á skermum. Alertað er á allar kerfisbundar sagnir, sem: Hafa sérstaka merkingu eru gervisagnir, eða gætu haft sérstaka þýðingu samkvæmt samkomulagi spilafélaga sem líklegt er að andæðingarnir geri sér ekki grein fyrir.

 

Þar sem spilað er með skermum gefa spilarar viðvörun á sínar eigin sagnir jafnt sem sagnir meðspilara. Það er gert á eftirfarandi hátt: Spilara, sem segir kerfisbundna sögn, ber að vara skermfélaga sinn við, með því að leggja alert-spjaldið á síðustu sögn skermfélaga síns; sá gefur til kynna að hann hafi tekið eftir viðvöruninni með því að skila alert-spjaldinu aftur til andstæðings síns.

Eftir að sagnbakkanum hefur verið rennt undir skerminn ber báðum spilurum skylda til, áður en þeir segja frekari sögn, að vara skermfélaga sinn við kerfisbundinni sögn spilafélaga síns, með sama hætti og lýst er hér að framan.

Spilari getur beðið andstæðing sinn um útskýringar á sögnum. Hann gerir það með því að senda skermfélaga sínum skriflega spurningu. Skermfélaginn gefur skriflegt svar, hvort sem spurningin á við um hans sögn eða sögn spilafélaga hans.

 

6. grein. Nokkrar breytingar verða á viðurlögum bridgelaganna þegar skermar eru notaðir. Breyta má óviljasögnum hafi bakkinn ekki farið undir skerminn en spilari má ekki skipta um skoðun um sögn sem hann hefur áður valið og sett á sagnbakkann. Þegar spilari skiptir löglega um sögn má skermfélagi hans skipta um sögn sem hann hefur áður valið (ef sögnin sem tekin er aftur skaðar saklausu hliðina á einhvern hátt má keppnisstjóri leiðrétta skor).

 

Viðurlög eftirfarandi lagagreina gilda ekki þegar skermar eru notaðir:

§ 11 Missir réttar til refsingar

§ 20 Upprifjun og útskýring á sögnum.

Upprifjun á sögnum (einnig ósk um slíka upprifjun) verður að fara fram skriflega. Ósk um útskýringar á sögnum og svar við slíkum óskum gefur skermfélagi skriflega. Slík ósk er ekki bundin við þann tíma þegar sá sem leggur hana fram á að segja.

§ 23-27 eru ekki í gildi.

§ 28-35 Sagnir utan réttrar raðar

§ 36-39 Óleyfilegar sagnir

§ 40 Sameiginlegur skilningur spilafélaga

Meðan á sögnum stendur mega allir spilarar skoða kerfiskort andstæðinga sinna hvenær sem er. 

§ 49 Varnarspilari sýnir spil

Þegar varnarspilari leggur spil upp í loft á borðið meðan á sögnum stendur má hann taka spilið upp aftur refsilaust.

§ 53 Útspil frá rangri hendi samþykkt

Fyrsta útspil frá rangri hendi má taka upp aftur refsilaust.

§ 54 Fyrsta útspil frá rangri hendi

Hafi varnarspilari spilað fyrsta útspili frá rangri hendi, má taka það upp aftur refsilaust, nema varnarspilarinn hafi spilað út og skermtjaldinu verið lyft áður en brotið uppgötvaðist.

 

 

7. grein. Öllum pörum ber skylda til að framvísa vel útfylltu kerfiskorti. Fyrirliðar sveita eru ábyrgir fyrir því að afhenda mótsstjórn afrit kerfiskorta sinna sveitafélaga ef þess er krafist. Áður en leikur hefst þurfa keppendur að vera búnir að ræða helstu upplýsingar, útspil og þ.h. Ef keppendum þykja kerfiskort andstæðinga sinna ófullnægjandi ber þeim að kalla til keppnisstjóra og bera fram sína kvörtun. Keppnisstjóri skal veita því pari aðvörun sem leggur fram ófullnægjandi kerfiskort og gefa viðbótartíma á leikinn til þess að saklausa hliðin fái greinargóðar upplýsingar um kerfi andstæðinganna. Keppnisstjóra ber að draga af sveit 1 til 2 vinningsstig eftir alvöru málsins, vegna ófullnægjandi kerfiskorta ef aðvörun hefur áður verið beitt.

 

Heimilt er að nota öll sagnkerfi, Alþjóðareglum um MÓS (mjög óeðlileg sagnkerfi) og annarra flokka um óeðlileg sagnkerfi er fylgt. Leiki vafi á að sagnkerfi falli undir MÓS, sker mótanefnd úr.

 

8. grein. Hverjum leik (10 spilum) skal lokið á 80 mínútum. Ef leik er ekki lokið innan þess tíma eru gefnar 5 mínútur til að ljúka honum. Þegar sá tími er liðinn og enn er leiknum ekki lokið er(u) viðkomandi sveit(ir) sektuð (sektaðar) samkvæmt eftirfarandi reglu:

0-5 mínútur framyfir: ½ vinningsstig

5-10 mínútur framyfir: 1 vinningsstig

10-15 mínútur framyfir: 2 vinningsstig

15-20 mínútur framyfir: 3 vinningsstig

20-25 mínútur framyfir: 5 vinningsstig

Tefjist lok leiks í meira en 25 mínútur má keppnisstjórn beita harðari refsingum.

 

Haldi spilarar því fram að andstæðingar þeirra beri ábyrgð á töfum í leiknum vegna hægrar spilamennsku kalla þeir til keppnisstjóra sem mun grípa til nauðsynlegra aðgerða til leiðréttingar, þar með talið að skipa borðvörð það sem eftir er af leiknum.

 

Keppnisstjóri reynir að vara spilara við ef þeir virðast eiga á hættu að fara fram yfir sett tímamörk, en þótt hann komi því ekki við dregur það ekki úr ábyrgð spilaranna að gæta að tímatakmörkunum.

 

10. grein. Sveit sem ekki spilar leik vegna forfalla annarrar sveitar fær eftirfarandi hagstæðustu skor :

a) 18 stig.

b) meðaltal stiga, sem aðrar sveitir hafa náð gegn þeirri sveit, sem ekki mætti.

c) meðaltal eigin stiga í spiluðum leikjum.

d) meðaltal stiga sem tvær næstu sveitir fyrir ofan hana hafa unnið til, gegn þeirri sveit sem ekki mætti. Sé sveitin í 2. sæti, þá er eingöngu borið saman við þá efstu. IMP-stig eru gefin sem lágmark þeirra IMP-stiga sem samsvara vinningsstigunum.

Forfallist sama sveit í helming eða fleiri umferðum úrslitanna telst hún fallin úr keppni, fyrri árangur hennar í keppninni strikast út og leikir gegn henni reiknast sem yfirseta eða 18 stig.

 

11. grein. Mest mega spila 6 spilarar í hverri sveit. Sveit með 4 eða 5 spilara getur bætt við spilurum sem ekki hafa tekið þátt í mótinu áður (undankeppnir meðtaldar). Í neyðartilfellum getur mótanefnd heimilað frekari fjölgun spilaranna.

 

12. grein. Spilað er um 3 gullstig í hverjum leik, 0,75 stig pr. spilara sem spilar í vinningsleik sem er 18-12 eða meir. 13 til 17 stig telst jafntefli. Fyrirliðar skulu skila inn stigablaði í lok móts, sinni þeir því ekki falla stigin niður

 

13. grein. Keppnistjóri úrskurðar í ágreiningsmálum sem kunna að koma upp við spilaborðið. Ef hlutaðeigandi eru ekki sáttir við þann úrskurð, skulu þeir ekki rökræða við keppnisstjóra, heldur ber þeim að áfrýja úrskurðinum til dómnefndar BSÍ. Áfrýjun á úrskurði keppnisstjóra skal vera skrifleg og berast honum innan 30 mínútna frá því að umferð lýkur. Tryggingarfé að upphæð kr. 8.000.- skal fylgja áfrýjuninni. Breyti dómnefnd úrskurði keppnisstjóra verður tryggingarfénu skilað, að öðrum kosti rennur það til uppbyggingar á sjóði til menntunar keppnisstjóra nema dómnefnd telji sérstaka ástæðu til að skila tryggingarfé.

 

14. grein. Stjórn BSÍ og/eða Áfrýjunarnefnd BSÍ hefur heimild, að fenginni tillögu keppnisstjóra eða mótanefndar, til að setja keppanda í eins til tveggja ára keppnisbann vegna hvers kyns ósæmilegrar hegðunar á mótsstað. Öll neysla og meðferð áfengis í spilasal meðan á mótinu stendur er bönnuð. Brot á þessu verður tilkynnt til stjórnar BSÍ auk þess sem sveit þess/þeirra spilara verður vísað úr mótinu..


15. grein. Notkun tóbaks er bönnuð í spilasölum. Spilarar mega ekki yfirgega lokaða salinn á meðan á spilamennsku stendur nema vegna salernisferða. Bannað er að yfirgefa lokaða salinn án leyfis þegar minna en 30 mínútur eru eftir af spilatíma.

 

16. grein. Öll notkun farsíma er stranglega bönnuð í spilasölum, þar með talið að hafa kveikt á þeim. Þeir þátttakendur í mótinu sem verða uppvísir að broti á þessari reglu verða sektaðir beint um 1 og síðan 2 vinningsstig.

 

17. grein. Spilað er að öðru leyti en áður er getið, eftir alþjóðalögum í bridge útgefnum 2007.